Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri líkamsræktarstöðvarinnar Hreyfingar, segir margt fólk hafa beðið spennt í morgun fyrir utan Hreyfingu eftir að komast í ræktina.
Hreyfing, líkt og aðrar líkamsræktarstöðvar landsins, lokuðu 24. mars þegar hert samkomubann skall á vegna útbreiðslu COVID-19. Síðustu tveir mánuðir hafa því verið krefjandi fyrir það fólk sem er vant að fara í ræktina reglulega.
Í samtali við Mannlíf segir Ágústa að viðskiptavinir Hreyfingar hafi í dag óskað hvort öðru til hamingju með daginn og sumir tala um að í dag sé „hátíðardagur“.
„Það gekk ljómandi vel, fjöldi fólks beið fyrir utan laust fyrir klukkan sex í morgun eftir að það yrði opnað,“ segir Ágústa þegar hún er spurð hvernig gekk í morgun.
„Mikil gleði og stemning í loftinu hjá okkur í dag, bæði hjá iðkendum og starfsfólki. Það eru mörg brosandi andlit hér í dag,“ bætir hún við.
Ágústa segir alla hóptíma í dag vera fullbókaða. „Að sjálfsögðu eru takmarkanir samkvæmt fyrirmælum frá Embætti landlæknis.“