Mikið er búið að endurbæta aðstöðuna í einni fallegustu sundlaug landsins, Krossneslaug í Árneshreppi á Ströndum. Þar er komin ný afgreiðsla meðal annars og myndavélar sem hægt er að fylgjast með því sem er að gerast í lauginni.
Sigrún Sverrisdóttir og maður hennar sjá um rekstur Krossneslaugar. Sigrún segir í viðtali hjá Strandir.is: „Við erum vön ýmsu hér en eins og flestir vita vorum við með afgreiðsluna hér utan fyrir í hvíta tjaldinu þannig að við erum enn þá að venjast þessu,“ og bætir við „Það er búið að taka húsnæðið alveg í gegn. Þegar við byrjuðum kom í ljós að mun meiri viðgerða var þörf.“ Hún segir laugina í dag vera blanda af sveitalaug með mjög takmarkaðri þjónustu og hefðbundinnar sundlaugar. Endurnýjun er ekki alveg lokið, enn á eftir að koma gamla pottinum fyrir á öðrum stað austan megin við laugina og nýjum heitum potti hinum megin við. Stefnt er að því að annar potturinn verði kominn upp eftir helgi. „Við fengum jafnframt styrk til að koma upp söguskilti á sundlaugarhúsinu og kort af svæðinu á bústaðinn“.
Sigrún og fjölskylda búa í sumarbústað á svæðinu yfir sumartímann og reka eins og áður sagði sundlaugina. Nýverið opnaði laugin á ný eftir þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað og segir Sigrún að traffíkin sé svipuð og í fyrra hjá þeim.
Sigrún er spurð vegna mikillar umræðu upp á síðkastið er tengist Sky Lagoon og því konur hafi frelsi til þess að vera berar að ofan ef þær kjósa það, hvort það sé leyfilegt í Krossneslaug. Sigrún svarar án hiks: „Það er alveg sjálfsagt mál að vera ber að ofan í lauginni!“.