Jólasokkar eru algeng sjón yfir jólahátíðina og fer útfærslum þeirra fjölgandi. Við heimsóttum Kolbrúnu Karlsdóttur hannyrðakonu og fengum að mynda nokkra af þeim jólasokkum sem hún hefur hannað og saumað en óhætt er að segja að Kolbrún vandi vel til verka.
Víða um heim er hefð fyrir jólasokkum sem hengdir eru yfir arin og bíða barna á jóladagsmorgun, fullir af góðgæti í boði jólasveinsins. Margir hengja smærri útfærslur þeirra á jólatréð á meðan aðrir geyma jólakortin í sokknum, flestir nýta jólasokkana þó sem almennt skraut, hvort sem þeir eru hengdir á hurðir eða út í glugga. Jólasokkana má kaupa tilbúna eða föndra sjálfur og skreyta á ýmsa vegu. Kolbrún er ein þeirra sem gefur barnabörnum sínum jólasokka þegar þau hefja búskap en sérhver sokkur er einstakur enda fer Kolbrún ekki eftir uppskriftum þegar kemur að hannyrðum. Kolbrún er sjálflærð í föndurgerð og býr yfir ótal sniðugum lausnum og deilir hér nokkrum með lesendum. Á hverju ári handmálar hún jólakort til styrktar góðgerðarfélaginu Bergmáli, eins og sjá má á heimasíðu félagsins.