Fyrstu niðurstöður skimunar Íslenskrar erfðagreiningar fyrir COVID-19 kórónaveirunni benda til þess að um eitt prósent landsmanna séu með veiruna. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá niðurstöðunum í Silfrinu á RÚV í dag.
Eitt 1% þjóðarinnar jafngildir um 3.600 manns.
Þórólfur sagði að tilgangurinn með sýnatöku ÍE væri að sjá hversu mikil útbreiðsla veirunnar er í samfélaginu almennt, en fram að þessu hafa sýni aðallega verið tekin úr fólki sem hefur ferðast um áhættusvæði og þeir einstaklingar því líklegri til að bera veiruna. Þannig hafa um 10% þeirra einstaklinga sem áður höfðu farið í skimun reynst bera veiruna.
„Við höfum lokað fólk af sem er veikt. Við höfum fundið þá sem hafa hugsanlega smitast og lokað þá líka af. Við vitum að þær aðgerðir okkar hafa skilað árangri. Um það bil helmingur þeirra sem hafa greinst hér hafa verið í sóttkví og veikst. Þannig að við vitum að þessar aðgerðir hafa komið í veg fyrir mjög mörg smit í samfélaginu,“ segir Þórólfur og segir þær aðferðir sem beitt hefur verið hér á landi hafa hægt á útbreiðslu veirunnar.
„Þannig að þetta sýnir það að veiran er held ég ekki útbreidd hér í samfélaginu og það er gott. Það er ákkurat það sem við vildum sjá og við viljum halda því þannig. Við viljum að þetta verði mjög hægur faraldur í samfélaginu þannig að heilbrigðiskerfið og aðrir ráði vel við þetta.“
Þórólfur sagði nauðsynlegt að skoða niðurstöður ÍE betur. Einstaklingar sem hafa tekið prófið eiga eftir að fá sínar niðurstöður, en þeir munu geta nálgast þær á heimasíðunni heilsuvera.is.