Þriðjudagur 14. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

„Allt í einu var ég ekki lengur ein í þessu öllu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðin Ljósið var Sólveigu Kolbrúnu Pálsdóttur ómissandi þegar hún greindist með krabbamein árið 2017. Hún hvetur fólk til að mæta á Ljósafoss félagsins sem er táknrænn viðburður sem haldinn er til að minna fólk á starfsemi Ljóssins.

Hinn árlegi Ljósafoss niður hlíðar Esjunnar mun eiga sér stað á laugardaginn. Þar mun stór hópur göngufólks hittast við Esjustofu klukkan 15:00, halda upp að Steini klukkan 16:00 og ganga svo niður Esjuna með höfuðljós svo úr verður fallegur „ljósafoss“. Þetta er í níunda sinn sem Ljósafossinn er haldinn

Ljósafossinn er gerðir til að minna á starfsemi Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.

Sólveig Kolbrún Pálsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Ljóssins, er spennt fyrir laugardeginum. Hún hvetur fólk til að mæta. „Þetta er táknrænn viðburður þar sem fólk mun lýsa upp myrkrið með ljósi. Í raun geta allir sem eru til í smá vetrarútivist tekið þátt.“

Á laugardaginn verður Ljósafoss Ljóssins haldinn í níunda sinn.

Kynntist Ljósinu þegar hún greindist með brjóstakrabbamein

Áður en Sólveig tók við starfi markaðs- og kynningarstjóra Ljóssins fékk hún að kynnast starfinu sem unnið er í Ljósinu þegar hún greindist sjálf með brjóstakrabbamein í byrjun árs 2017. Hún nýtti sér þá þjónustu Ljóssins.

„Ljósið er einn af þessum stöðum sem þú veist ekki hvað býður upp á eða hvað skiptir miklu máli fyrr en þú eða einhver sem er þér nákominn greinist með krabbamein. Þegar ég greindist með brjóstakrabbamein í byrjun árs 2017 var ég svo upptekin að því að hugsa um hvernig ég myndi lifa af. Ég spáði lítið í því hvað lyfjameðferð, stór aðgerð, það að vera kippt út úr vinnu og fleira myndi hafa á líkama og sál,“ útskýrir Sólveig.

- Auglýsing -

Sólveig segir að fljótt eftir fyrstu lyfjameðferðina sem hún gekkst undir hafi hún raunverulega áttað sig á hversu stórt verkefni biði hennar „Þá var staðan orðin þannig að hvorki ég né maðurinn minn vissum hvernig við ættum að tækla vanlíðanina sem meðferðin hafði skapað. Ég sendi því póst í Ljósið.“

Sólveig greindist með brjóstakrabbamein í byrjun árs 2017. Hún nýtti sér þá þjónustu Ljóssins.

Sólveig kveðst hafa fengið svar frá Ljósinu nokkrum mínútum eftir að hún sendi póstinn. Hún var boðuð á kynningarfund. „Þá allt í einu var ég ekki lengur ein í þessu öllu. Það er nefnilega svo skrýtið hvernig maður getur einangrast við að bera þessa byrgði sem krabbameinið er. Maður reynir að hlífa fólkinu sínu sem mest en maður þarf stuðning. Og þar kemur Ljósið inn.“

Þegar Sólveig mætti fyrst á fund hjá Ljósinu var skrefið yfir þröskuldinn þungt að hennar sögn. „Það skref fól í sér viðurkenningu á hvað væri í gangi. En þegar ég var komin yfir hann þá varð allt létt,“ útskýrir Sólveig.

- Auglýsing -

„Í Ljósinu fékk ég strax iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, sálfræðing og áætlun um hvernig þau ætluðu að fylgja mér í gegnum þetta ferli. Og allt þetta án tilkostnaðar. Þau sáu líka til þess að ég myndi ekki einangrast og hjálpuðu mér í öðlast nýja og spennandi færni. Þannig gat ég í raun notað tímann til að skoða hver ég er og hvernig lífi ég vill lifa,“ segir Sólveig.

Maður reynir að hlífa fólkinu sínu sem mest en maður þarf stuðning.

Hún tekur fram að í gegnum Ljósið hafi fjölskylda hennar einnig fengið góða þjónustu. „Til dæmis fóru börnin mín þrjú á sérsniðið námskeið fyrir börn þeirra sem greinast með krabbamein. Þannig náðu þau betur áttum. Og svo fórum við maðurinn minn einnig saman á námskeið sérsniðið fyrir pör,“ segir Sólveig. Hún bendir á að það reyni vissulega mikið á sambönd og hjónabönd þegar annar aðilinn greinist með krabbamein.

Hætti í ferðaþjónustu og fór til Ljóssins

„Ég gæti í raun setið og talað endalaust um Ljósið og hversu magnað starfið er sem þar er unnið. En það er skemmst frá því að segja að eftir að ég sneri aftur til vinnu tók ég ákvörðun um að breyta til, ég sagði upp starfi mínu í ferðaþjónustu og réði mig til Ljóssins.“

Ég gæti í raun setið og talað endalaust um Ljósið.

Aftur hvetur Sólveig fólk til að mæta á laugardaginn og taka þátt í Ljósafossinum. „Við hjá Ljósinu vonumst auðvitað til að sjá sem flesta á laugardaginn. En helst viljum við að fólk muni eftir Ljósinu og öllu því góða sem félagið gerir fyrir krabbameinsgreinda og fjölskyldur þeirra, og þannig fyrir íslenskt samfélag.“

Mynd / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -