Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Allt í lagi að fólk vilji ekki svona prest

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Davíð Þór Jónsson hefur verið starfandi prestur í fimm ár og dálítill styr staðið um hann í því embætti. Sumum þykir til dæmis ekki við hæfi að prestur semji og syngi hápólitíska og róttæka texta eins og hann gerir með hljómsveitinni Austurvígstöðvunum. Öðrum þykir fortíð hans ekki presti sæmandi, en Davíð blæs á slíkt tal.

„Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er fólk þarna úti sem er innilega ósammála mér og finnst ég hafa farið svo langt yfir öll velsæmismörk í gegnum tíðina að það getur ekki hugsað sér að koma í kirkju til mín eða fá hjá mér kirkjulega þjónustu. Það er bara allt lagi, það er á annað hundrað manna sem þetta fólk getur farið til í staðinn, ég skil ekki að það sé á nokkurn hátt að skerða aðgengi þess að kirkjulegri þjónustu að ég sé prestur. Það er líka margt fólk sem kemur til mín og segist aldrei hafa dottið í hug að það ætti eftir að leita til prests eftir sálgæslu eða huggun en fyrst að ég sé þarna þá hafi það valið þann kost. Mörgu fólki finnst það einmitt traustvekjandi að ég skuli eiga mér þá fortíð og sögu sem ég á.“

„Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er fólk þarna úti sem er innilega ósammála mér og finnst ég hafa farið svo langt yfir öll velsæmismörk í gegnum tíðina að það getur ekki hugsað sér að koma í kirkju til mín eða fá hjá mér kirkjulega þjónustu.“

Þú hefur oft sagt að trúin hafi hjálpað þér til að takast á við alkóhólismann, finnst þér þú þá ná betur til fólks sem á í slagsmálum við áfengi og fíkniefni vegna þinnar reynslu?
„Tvímælalaust,“ segir Davíð Þór ákveðinn. „Ég var búinn að vera mjög virkur í því að hjálpa fólki samkvæmt lífsstíl 12 sporanna löngu áður en ég vígðist. Ég er búinn að vera edrú núna í fjórtán og hálft ár þannig að ég var búinn að vera edrú í níu ár áður en ég vígðist og í þokkalega góðu andlegu jafnvægi í sex eða sjö ár af þeim tíma. Það setur enginn tappann í flöskuna og fer samstundis að hugsa skýrt og taka góðar ákvarðanir, það tekur tíma að jafna sig.“

Ertu enn þá að vinna daglega í þinni edrúmennsku?
„Já, ég verð að gera það til þess að halda henni,“ segir Davíð Þór. „Það koma dagar þar sem ég gleymi því en stór hluti af því að halda edrúmennskunni er að lifa virku trúar- og bænalífi og það geri ég. Ég er svo heppinn að ég er í starfi sem býður dálítið upp á það.“

Er æðri máttur sem sagt ríkjandi afl í lífi þínu, ekki bara í vinnunni?
„Sko, eins og einhver sagði þá er það ekki vinna að vera prestur, það er köllun. Þótt mér finnist dálítið hrokafullt að segja þetta, auðvitað er þetta vinna, ég ætla ekki að draga fjöður yfir það. En um leið þá er þetta starf sem þú getur ekki sinnt án trúarvissu. Ég held að hver maður sem reyndi að sinna þessu starfi öðruvísi yrði fljótt snarbilaður. Það yrði sjálfstortímandi að vera að sinna starfi prests öðruvísi en að það sé stór hluti af sjálfsmynd þinni og sjálfsskilningi að vera í andlegu vitundarsambandi við mátt þér æðri.“

Lestu viðtalið við Davíð Þór í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -