Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Alltaf ætlað að sigra heiminn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þorsteinn B. Friðriksson varð augasteinn þjóðarinnar á nánast einni nóttu þegar leikurinn QuizUp, sem fyrirtæki hans Plain Vanilla framleiddi, varð vinsælasti tölvuleikur í heimi. Að sama skapi var fólk krítískt þegar selja þurfti leikinn úr landi og loka fyrirtækinu hér. Þorsteinn segir það hafa gengið nærri sér en hann hafi lært af mistökunum og sé tilbúinn að gera betur. Nýtt fyrirtæki hans, Teatime, hefur fengið rífandi start og hann fullyrðir að hugmyndin að baki þess hafi alla burði til að verða miklu útbreiddari en QuizUp var.

Nýtt fyrirtæki Þorsteins og þriggja annarra, Teatime Games, hefur tryggt sér fjármögnun erlendra fjárfesta upp á tæpan milljarð íslenskra króna til að þróa nýjan leikjabúnað fyrir snjallsíma. Í stuttu máli segist hann bara vera ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið þessar góðu undirtektir. „Það þýðir þá kannski að það er eitthvert vit í því sem maður er að gera og þeim hugmyndum sem maður er með. Þegar erlendir sjóðir þar sem eru sérfræðingar í tæknifjárfestingum eru tilbúnir að veðja svona miklu á þennan hest, án þess að við séum í rauninni búnir að framleiða neitt þá fyllist maður auðvitað þakklæti og auðmýkt.“

Spurður hvort það hafi kostað mikla vinnu að fá þessa stóru fjárfesta að borðinu viðurkennir hann að svo sé. „Já, já, það er vinna,“ segir hann hógvær. „En hins vegar finn ég fyrir því að reynslan af Plain Vanilla hefur gert það mun auðveldara núna að fá inn fjármagn. Kannski vegna þess að teymið sem stendur að þessu fyrirtæki, Teatime Games, stóð að framleiðslu QuizUp og hefur sýnt fram á það að við getum framleitt eitthvað sem virkar. Þannig að ef ég ber saman hvernig það var að fá inn fjármagn fyrir Plain Vanilla og Teatime þá er þetta allt annað ferli núna.“

Nýtur góðs af fyrri tengslum

Þorsteinn vill þó ekki kannast við að vera orðinn stórt nafn í þessum geira þegar hann er spurður út í það.

„Nei, nei, en hins vegar er þetta ótrúlega lítill heimur, sem oft er kenndur við Sílíkondalinn, og QuizUp náði þeim hæðum að verða mjög vel þekkt forrit út um allan heim og sérstaklega hjá þeim í Sílíkondalnum sem fylgjast grannt með því sem er að gerast í tækninni og við fundum alveg fyrir því að þegar það gekk sem best með QuizUp þá vildu allir fjárfesta í fyrirtækinu. Þannig að það má segja að ég njóti góðs af þeim tengslum sem mynduðust í gegnum það. Þá kynntist ég þeim helstu í þessum bransa og það er auðveldara að fá áheyrn hjá þeim núna.

Ég man þegar ég flutti til San Francisco og var að fara af stað með Plain Vanilla þá var nánast ómögulegt að fá fundi með þessum stóru sjóðum. En nú er þetta miklu auðveldara þar sem maður þekkir orðið margt af þessu fólki persónulega. En samt sem áður skal ég alveg viðurkenna það að ég átti ekki von á því að það myndi ganga svona hratt og vel að fá fjármagn inn í Teatime.

Sérstaklega þar sem fjárfestar vilja oft helst ekki vera mikið að fjárfesta í fyrirtækjum sem hafa ekki enn gefið út neina vöru. Þeir vilja oft bíða eftir því að það komi eitthvað út og ef það verður vinsælt þá hrúgast þeir inn og vilja setja peninga í það. Þannig að ég held að auk þess sem tengsl okkar inn í Sílíkondalinn skiptu auðvitað máli þá hafi hugmyndin sem Teatime gengur út á alla möguleika á að verða miklu stærri heldur en QuizUp var nokkurn tíma.“

- Auglýsing -
„Þetta virðist vera það góð hugmynd að þessir fjárfestingasjóðir eru tilbúnir til að leggja tæpan milljarð í okkur án þess að við séum búnir setja neitt á markað enn,“ segir Þorsteinn um hugmyndina sem liggur að baki nýju fyrirtæki hans, Teatime Games.

Gæti breytt tölvuleikjaspili til frambúðar

Þorsteinn er tregur til að gefa of mikið upp um það út á hvað hugmyndin gengur en fellst þó á að gefa okkur örlitla innsýn í það. „Við viljum ekki gefa það alveg upp út á hvað hún gengur, einfaldlega af samkeppnisástæðum,“ segir hann. „En sýn Teatime er í stuttu máli sú að leikir yfirhöfuð, það að spila einhver spil, sé eitthvað sem fólk hafi sótt í í þúsundir ára. Það hefur alltaf verið einhver þörf hjá okkur mannfólkinu að spila saman spil. Við lítum svo á að verðmæti þess að spila spil hafi alltaf verið meira fólgin í þessu „sósíal elementi“. Þú spilar ekki olsen olsen við einhvern vegna þess að það sé svo vel hannað spil, heldur vegna þess að það er gaman að eiga stund með einhverri annarri manneskju og spjalla í kringum spilið, vera í samskiptum við annað fólk. Tölvuleikir, eins og Playstation og Nintendo, eru frábærir en samt sem áður var skemmtilegast að spila þá með vinum sínum og spjalla saman á meðan. Svo komu snjallsímarnir sem til er rosalega mikið af leikjum fyrir sem hafa algjörlega slegið í gegn en þeim fylgir sá ókostur að símar eru tæki sem maður notar bara einn, það að spila leik í snjallsíma er meira einangrandi og þannig missir sá sem spilar af þessum miklivæga þætti sem eru samskiptin við annað fólk.

Það sem við erum að byggja í Teatime er ákveðin tækni til þess að leyfa fólki að spila saman leiki í símanum og eiga um leið mjög rík og skemmtileg samskipti hvert við annað. Þetta er leið til að spila við vini eða kynnast nýju fólki á hátt sem hefur ekki verið gerður áður. Þetta virðist vera það góð hugmynd að þessir fjárfestingasjóðir eru tilbúnir til að leggja tæpan milljarð í okkur án þess að við séum búnir setja neitt á markað enn.“

Hitti toppana úr Sílíkondal í Oxford

Spurður hvernig staðið hafi á því að hann lenti inn í tölvuleikjageiranum, segir Þorsteinn að það eigi sér ýmsar skýringar. Hann hafi samt ekki verið neitt sérstakur tölvuleikjanörd þegar hann var strákur, þótt hann hafi auðvitað spilað þá eins og allir krakkar á þeim tíma. Þar að auki sé hann ekki forritari, en hann hafi alltaf verið tækjakall með áhuga á bissness.

- Auglýsing -

„Ég hef alltaf haft áhuga á tölvun en meiri áhuga á viðskiptahliðinni samt,“ útskýrir hann. „Ég fór í viðskiptafræði í Háskólanum og lagði áherslu á markaðsmálin. Svo gerist það þegar iPhoninn kemur að ég heillast alveg af þessari nýju tækni og fer að velta fyrir mér möguleikunum sem hún býður upp á. Á sama tíma er ég að flytja út til Englands og hefja MBA-nám í Oxford-háskóla og þar kviknar þessi neisti og ég átta mig á því hvað heimurinn er að verða spennandi með tilkomu þessara nýju tækja. Í háskólanum í Oxford voru þeir með prógramm sem hét Silicon Valley comes to Oxford og fengu alla helstu toppana úr Sílíkondal, algjöra þungavigtarmenn í bransanum, til að koma og vera með vinnustofur fyrir okkur nemendurna. Ég féll alveg fyrir þessum heimi og þótti sérstaklega áhugavert að með þessum nýju tækjum var búið að brjóta niður öll landamæri þegar kom að dreifingu. Þannig að allt í einu opnaðist sá möguleiki að vera með fyrirtæki á Íslandi sem væri að keppa á alþjóðlegum markaði. Það fannst mér mjög spennandi.“

En þegar þú fórst upphaflega í viðskiptafræðina hvað hafðirðu þá hugsað þér að verða þegar þú yrðir stór?

„Ég bara vissi það ekki,“ segir Þorsteinn og hlær. „Ég hafði ætlað mér að verða leikari þegar ég var lítill og eftir viðskiptafræðina vann ég stutta stund sem fréttamaður, bæði á RÚV og Stöð2, og var að máta mig við alls konar störf. Ég fór eiginlega bara í viðskiptafræðina til að skilja aðeins betur hvernig heimurinn virkar. En eftir þessa reynslu í Oxford voru örlög mín ráðin. Ég stofnaði Plain Vanilla 2010 og fyrsti tölvuleikurinn sem ég bjó til var barnaleikur sem hét Moogies. Hann gekk mjög illa, vægast sagt, en ég hélt ótrauður áfram.“

Nýtt fyrirtæki og ný kærasta á sama tíma

Er þetta ekki brjálæðisleg vinna? Áttu eitthvert einkalíf?

„Ég á tvö börn sem eru núna 13 og 9 ára og ég sinni þeim auðvitað auk þess sem ég er í tiltölulega nýju sambandi og á tvo ketti. Það er ekki mikið meira sem ég kemst yfir,“ segir Þorsteinn. „Ég og barnsmóðir mín skildum fljótlega eftir að við komum heim frá Oxford og eftir það stofnaði ég Plain Vanilla. Það var náttúrlega brjálæðisleg vinna að koma því fyrirtæki á koppinn og ég viðurkenni það alveg að það er ekkert sérstaklega hentugt á þessum fyrstu stigum fyrirtækis að vera í sambandi. Það gafst ekki mikill tími fyrir það.“

Með uppgangi Plain Vanilla varð Þorsteinn skyndilega þjóðareign og allir fylgdust grannt með öllu sem hann tók sér fyrir hendur, hvernig upplifun var það?

„Ég er á svo ótrúlega góðum stað núna, bæði með Teatime og einkalífið sem er í góðu jafnvægi og börnin mín eru mínir helstu stuðningsmenn í öllu og maður þarf að muna að njóta stundarinnar þegar allt gengur upp,“ svarar Þorsteinn glottandi, þegar hann er spurður hvernig honum gangi að sinna einkalífinu fyrir utan vinnuna.

„Þegar QuizUp sló í gegn, undir lok árs 2013, þá beindust augu allra Íslendinga að þessu fyrirtæki. QuizUp varð vinsælasti leikur í heiminum á tímabili og ég skil það mjög vel að við sem lítil þjóð eigum það til að verða mjög stolt af því sem Íslendingar eru að gera, sérstaklega á erlendri grundu. Þannig að við urðum svona pínulítið óskabarn þjóðarinnar. Við stækkuðum rosalega hratt og vorum mjög mikið í fjölmiðlum og ég fann auðvitað líka fyrir því að áhugi á mér sem persónu óx. Sem hafði bæði ýmsa kosti og ókosti. Það erfiðasta við það var þegar við síðan lendum í því, í lok árs 2016, að sjá fram á það að þurfa að selja QuizUp úr landi og loka Plain Vanilla-skrifstofunum á Íslandi. Það var sérstaklega erfiður tími fyrir mig. Eftir að hafa í nokkur ár verið óskabarn þjóðarinnar og mikið í umræðunni var það mikið áfall að þurfa að loka og segja upp næstum hundrað manns. Þetta gerðist í byrjun árs 2017, það er bara eitt og hálft ár síðan.

Í gegnum það sem ég hef verið að gera hafa verið margir stórir sigrar en líka svo stórir ósigrar og ég held að það sé eitthvað sem ég þurfi að sætta mig við til að geta haldið áfram með það líf sem ég valdi mér með því að fara út í þetta. Að keppa í tæknibransanum á alþjóðlegu markaðssvæði þýðir að þú ferð ýmist hratt upp eða hratt niður. Og ég viðurkenni það að eins gaman og það er þegar gengur vel, eins og þegar við slógum í gegn með QuizUp, þá er jafnerfitt að standa frammi fyrir því að þurfa að loka fyrirtækinu og um leið að berjast við allar þessar sögusagnir um alls konar ástæður fyrir því. Maður fær yfir sig her af fólki sem vill endilega segja manni hvað maður hefði átt að gera öðruvísi, hvort sem það er á opinberum vettvangi eða fólk á förnum vegi.

Eftir að QuizUp var lokað ákvað ég að taka mér árs frí til að hreinsa hugann, ákveða næstu skref en það gekk ekki betur en svo að tveim eða þrem mánuðum seinna hópuðum við okkur saman fjórir æðstu stjórnendurnir hjá QuizUp og ákváðum að gefast ekki upp og fá okkur aðra vinnu, það er svo gefandi og skemmtilegt að skapa eitthvað svona. Núna vorum við reynslunni ríkari og vissum betur hvað þarf til og við fórum yfir alls konar hugmyndir sem við urðum spenntir fyrir en reyndust kannski ekki sniðugar við nánari skoðun. Svo kom pælingin um Teatime upp síðasta sumar og það er gaman að hugsa til þess hvað hlutirnir hafa breyst hratt.

Fyrir nákvæmlega ári síðan var þessi hugmynd ekki komin upp og ég var dálítið leiður. Ég var ekki í sambandi, ekki með vinnu og dapur yfir því hvernig þetta fór með QuizUp. Svo kom þessi Teatime-hugmynd upp stuttu síðar og þá fór allt af stað. Við fengum strax í september inn 1,6 milljóna dollara fjárfestingu í hugmyndina og mánuði seinna, í október, kynnist ég konu sem er núna kærastan mín sem er það besta sem hefur hent mig í mörg ár.

Þetta er búinn að vera heljarinnar rússíbani. Að fara í gegnum svona áfall sem það var fyrir mig að loka Plain Vanilla og vera svona fljótur að stíga aftur í fæturna og vera ári seinna kominn með fyrirtæki með trygga fjárfestingu og fimmtán starfsmenn sem eru hver öðrum klárari að búa til eitthvað sem ég held að muni breyta því hvernig fólk spilar tölvuleiki næstu áratugi. Þannig að ég hef lært að ef maður einsetur sér að takast á við erfiðleika, reyna að læra af þeim og reyna að nýta styrkleikana í því sem vel var gert og reyna að forðast að endurtaka mistök þá er það bara þannig að svona niðursveiflur eru hluti af þessari lærdómsferð sem felst í því að stofna fyrirtæki. Og ég er ótrúlega þakklátur öllu fólkinu sem ég hef kynnst í gegnum þetta.“

Með stóra skuld á bakinu

Spurður hvort honum hafi aldrei dottið í hug að gefast bara upp og fara að vinna við eitthvað allt annað, viðurkennir Þorsteinn að það hafi hvarflað að honum. „Jú, jú, margoft,“ svarar hann glaðbeittur.

„Ég skil ekki hvers vegna ég er enn þá í þessu, það er eiginlega bara algjört kraftaverk. Eftir Moogies-floppið var ég persónulega með 20 milljóna króna skuld á bakinu og sá ekki hvernig ég ætti nokkurn tíma að geta unnið mig upp úr því. Þú vinnur þig ekkert svo auðveldlega út úr tugmilljóna króna skuld sem launamaður einhvers staðar.

Ég hafði líka alveg áhyggjur af mér eftir Plain Vanilla þar sem það hefur verið svo mikið í kastljósinu á Íslandi. Það er auðvitað allt í lagi, það fylgir þessu bara, en ég er á svo ótrúlega góðum stað núna, bæði með Teatime og einkalífið sem er í góðu jafnvægi og börnin mín eru mínir helstu stuðningsmenn í öllu og maður þarf að muna að njóta stundarinnar þegar allt gengur upp.“

En hvað með önnur áhugamál, tekur vinnan allan þinn tíma? Hvernig nýturðu lífsins þegar þú ert ekki í vinnunni?

„Ég hef ekki áhuga á neinu öðru og á engin áhugamál,“ svarar Þorsteinn glottandi. „Ég hef ekki mikinn tíma til að gera neitt annað en sinna vinnunni og fjölskyldunni. Ég er með konu, tvö börn og tvo ketti og þarf að ferðast alveg gríðarlega mikið út af vinnunni þannig að það að reyna að smeygja inn golfi eða veiði eða einhverju svona sem manni finnst að maður ætti að vera að gera verður því miður bara að bíða þangað til ég er kominn á eftirlaun. Ég held að ein mesta gæfa sem maður getur lent í sé þegar vinnan manns er líka áhugamálið og ég er svo sannarlega á þeim stað. Það sem mér finnst kannski skemmtilegast, þar sem ég sjálfur er hvorki forritari né hönnuður, er að finna „extraordinary“ fólk sem er algjörir snillingar á sínu sviði og sannfæra það um að einhver hugmynd sé góð. Safna því svo saman og sjá hvað gerist þegar þú býrð til fyrirtæki með kláru fólki. Verðmætin sem hægt er að skapa á stuttum tíma með svona blöndu er það sem mér finnst að Ísland ætti að fókusera á í staðinn fyrir að einblína á stóriðju. Þessi mannauður sem við eigum býður upp á svo mikla möguleika. Mér finnst það ótrúlega spennandi og pæli mikið í því hvernig fyrirtæki eiga að virka, hvernig kúltúrinn eigi að vera, hvernig hægt sé að gera þetta öðruvísi en gömlu fyrirtækin og búa til sem mest verðmæti með fólkinu sínu. Það er mitt áhugamál.“

Ekki alltaf bestur eins og mamma sagði

Sérðu fyrir þér að Teatime verði stærra en QuizUp?
„Það er erfitt að segja. Þessi bransi er svo rosalega áhættusamur. Það gæti gerst á morgun að allt í einu poppi upp einhver annar með eitthvað svipað sem myndi minnka okkar möguleika til að ná árangri. Þannig að vinnan mín felst líka í því að vera stöðugt að fylgjast með því hvað er að gerast í bransanum. En ég er hins vegar alveg sanfærður um það að ef við framkvæmum þetta vel þá hefur þetta möguleika á að verða miklu stærra heldur en QuizUp, já. Það er nefnilega svo skemmtilegt með hugmyndir að það er alveg ótrúlega oft sem fólk er haldið þeim misskilningi að það sé nóg að vera með hugmynd. Svo geti maður bara hallað sér aftur og látið einhvern annan sjá um framkvæmdina. Það er rangt. Fyrir utan það að ef þú ert með hugmynd sem er góð þá get ég lofað þér því að það hafa að minnsta kosti þúsund aðrir í heiminum fengið nákvæmlega sömu hugmynd. Það sem skilur á milli er að hafa drifkraftinn til að framkvæma hugmyndirnar vel. Ég held að ein af ástæðunum fyrir því hvað okkur gekk vel að fá fjármagn inn í þetta fyrirtæki núna sé að auk þess að vera með góða hugmynd höfum við sýnt fram á að við erum fær um að framkvæma hana.“

„Ég vil bara undirstrika það að þótt maður lendi í erfiðleikum, hvort sem það er að þurfa að loka fyrirtæki eða eitthvað annað, þá getur maður nýtt þá erfiðleika sem eldsneyti í eitthvað stærra og meira,“ segir Þorsteinn.

Hefurðu alltaf verið svona stórhuga? Hefurðu alltaf ætlað þér að sigra heiminn?
„Jaaá, ég held það bara,“ segir Þorsteinn hugsi. „Ég var mjög lengi einkabarn og fyrsta barnabarn í báðum ættum, þannig að það getur verið að ég hafi það syndróm í mér að hafa verið hampað of mikið sem barni. Svo uppgötaði ég við mín fyrstu mistök að ég var ekki alltaf bestur, eins og mamma hafði sagt mér. En ég held ég hafi alltaf haft mikinn metnað og það er ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara í Oxford og síðan að gera það sem ég hef verið að gera. Það jókst þegar ég fór að hitta fólk utan Íslands sem var alþjóðlega þenkjandi og leit á heiminn sem eitt stórt markaðssvæði. Ég man að þegar ég var að byrja að tala við hugsanlega samstarfsaðila, þurfti að ná sambandi við einhvern hjá Apple eða Google, til dæmis, þá fannst manni það algjörlega óyfirstíganleg hindrun, hvernig ætti ég að tala við einhvern háttsettan hjá svona stóru bandarísku fyrirtæki? Maður lagði varla í það en svo fattar maður að bak við öll þessi fyrirtæki er bara venjulegt fólk og ef maður leggur sig fram og talar við þetta fólk þá getur maður gert alls konar skemmtilega hluti.“

Tíminn er að hlaupa frá okkur, er eitthvað sem Þorsteini liggur á hjarta og vill koma á framfæri við þjóðina?
„Ég vil bara undirstrika það að þótt maður lendi í erfiðleikum, hvort sem það er að þurfa að loka fyrirtæki eða eitthvað annað, þá getur maður nýtt þá erfiðleika sem eldsneyti í eitthvað stærra og meira. Mér finnst þessi saga mín geta verið vonarneisti fyrir alla þá sem eru í niðursveiflunni í lífsrússíbanananum núna. Á einu ári fór ég frá því að syrgja lokun fyrirtækis sem ég hafði lagt mig fram um að byggja upp í það að fagna velgengni nýs fyrirtæki sem ég er að byggja upp með góðu fólki. Og ég er afskaplega þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -