Alma Möller landlæknir hefur hafið rannsókn á því hvað gerðist á Landakoti sem kostaði 13 Íslendinga lífið vegna Covid-hópsmits sem kom þar upp. Áður hafði Landspítalinn rannsakað sjálfan sig og kennt manneklu og slælegum húsakosti um dauðsföllin.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir stjórnendur Landspítala bera ábyrgðina á Landakoti. Það er ekki á ábyrgð heilbrigðisráðherra að stýra mönnun innan heilbrigðiskerfisins né heldur ber ráðherra ábyrgð á starfsumhverfi starfsfólks spítalans. Ábyrgðin sé alfarið stjórnenda Landspítalans.
Nú hafa þrettán Íslendingar látist vegna Landakotsveirunnar. Samtals hafa 26 látist hér á landi vegna Covid og er helmingur alla látinna tengdir þessu alvarlega hópsmiti. Landakot er hluti af Landsspítalanum og undir stjórn hans. Sýkingingin hefur ekki verið tilkynnt til lögreglu en starfsmanni spítalans var falið að rannsaka það hvað fór úrskeiðis. Þegar er viðurkennt að Landakoti var ekki skipt niður í sóttvarnahólf. Forstjóri spítalans sagði það vera vegna manneklu.
Mannlíf leitaði svara hjá embætti landlæknis um hvort þar á bæ væri hafin rannsókn á því sem gerðist. Þar fengust þau svör að rannsóknin væri hafin en hún væri stutt á veg komin. Að henni koma sérfræðingar á sviði eftirlits og heilbrigðisþjónustu og frá sóttvarnasviði embættisins, auk utanaðkomandi sérfræðings. „Rannsóknin er í forgangi hjá embættinu ásamt fleiri umfangsmiklum málum. Þó er ljóst að rannsóknin muni taka a.m.k. nokkrar vikur héðan í frá. Hér og nú er því ekki hægt að segja til um hvenær niðurstöður embættisins liggja fyrir,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, upplýsingafulltrúi hjá Landlækni, spurður út í hvenær sé áætlað að rannsókninni ljúki. Hvort niðurstöðurnar verði birtar fékkst ekki uppgefið.
Aðspurður hvort hann sjái fram á að rannsókn málsins komi til með að enda í höndum lögreglu á einhverjum tímapunkti sagði Kjartan það ekki embættis Landlæknis að meta eða segja til um það. Hvort embættið telji að aðstandendum þeirra sem létust í hópsmitinu hafi verið sýnd nægjanleg virðing með hreinni afsökunarbeiðni vegna málsins hafði Kjartan þetta að segja. „Rannsókn embættisins snýr að alvarlegu atviki á Landakoti þar sem hópsmit kom upp og hvaða lærdóm megi draga af því,“ segir Kjartan.