Viðar Skjóldal er ein vinsælasta samfélagsmiðlastjarna landsins. Hann skemmtir fylgjendum sínum undir nafninu Enski og með sinni sérstöku röddu talar hann um fátt annað en knattspyrnuliðið Liverpool. Í samtali við Frosta og Mána í Harmageddon opnar Víðir sig um árið 2020 og segir að frétt á Hringbraut hafi nánast lagt hann að velli andlega. Í kjölfarið lak af ritstjórn Fréttablaðsins, upptaka af Viðari að ræða við blaðamann blaðsins. Þykir mjög alvarlegt að slíkt hafi gerst. Ritstjóri Fréttablaðsins hafði samband við Viðar sem gefur lítið fyrir útskýringar Jóns Þórissonar og segir símtalið furðulegt.
Í frétt Hringbrautar var fullyrt að Viðar hefði endurtekið ónáðað verslun á Bíldshöfða og verið vísað út í fjórtán skipti á einni klukkustund vegna þess að starfsmenn hafi neitað að gerast bakhjarlar samfélagsmiðlastjörnunnar. Viðari hafi að lokum verið skolað burt með háþrýstislöngu og upptaka og frásögn starfsmanna birst á vef Hringbrautar, þar var einnig vitnað í skrif Viðars á samfélagsmiðlum þar sem hann sakaði starfsmenn bílaþvottastöðvarinnar um ýkjur og lygar. Viðari segir að honum hafi brugðið illa er hann sá umfjöllun á vefsíðu Hringbrautar en ábyrgðarmaður og ritstjóri er Jón Þórisson sem jafnframt stýrir Fréttablaðinu.
Viðar hringdi í áfalli í Fréttablaðið en Fréttablaðið og Hringbraut eru skipuð blaðamönnum á sömu ritstjórn og heyra undir ritstjórann Jón Þórisson. Viðar var í ójafnvægi í samtalinu og tók blaðamaður á ritstjórn upp samtalið. Blaðamaðurinn deildi upptökunni með öðrum á ritstjórn.
Rétt er að geta þess, fyrir þá sem ekki þekkja til að ein allra mikilvægasta regla fjölmiðla er að halda í heiðri trúnað við viðmælendur og eins þá sem hafa samband á ritstjórn. Sá trúnaður var þverbrotinn í þetta skiptið og lak upptakan út af ritstjórn Fréttablaðsins. Hefur hún nú gengið manna á milli á samfélagsmiðlum til að gera að honum gys og er Viðar afar ósáttur við það.
Ritstjóri Fréttablaðsins, Jón Þórisson, hafði loks samband við Viðar í fyrradag. Þá hafði einhver utanaðkomandi sent upptökuna á Fréttablaðið til að vekja athygli á að upptakan hefði verið send úr húsi. Þá segir Viðar
„Svo í fyrradag hringir í mig ritstjóri Fréttablaðsins og segir við mig að þeir líta þetta grafalvarlegum augum. Ég spyr bara af hverju ert þú að hringja í mig? Hvað á ég að gera? Þetta símtal lak út frá þeim, væntanlega frá einhverjum starfsmanni og hann vissi ekki hvort að þetta hefði farið á eitthvað flakk. Auðvitað held ég að hann hafi pottþétt vitað það. Ég hugsaði það nú strax, það er klárt.“
Máni Pétursson, annar stjórnandi Harmageddon tók undir það. Það verður að teljast líklegt að ritstjóra hafi verið kunnugt um lekann þar sem upptakan hefur nú verið á ferðinni á samfélagsmiðlum í nokkra daga.
„Þetta segir sig sjálft, að hann hefði ekki verið að hringja í mig einu sinni, seinasta manninn sem hefði viljað vita það, ef hann hefði vitað það sjálfur,“ sagði Viðar og Frosti spurði hvort ritstjórinn hafi verið skömmustulegur. Viðar svaraði þá:
„Já, hann var eiginlega alveg eins og asni.“
Viðar kveðst hafa leitað á spítala til að meta hvort hann þyrfti á innlögn að halda eftir alla þessa reynslu.