Fimmtudagur 26. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

„Alveg hægt að mynda í öllum veðrum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heiða Helgadóttir ljósmyndari, sem hlotið hefur fjölda verðlauna fyrir verk sín, hefur myndað mörg brúðhjónin. Heiða leggur áherslu á heimildaljósmyndun en hún fylgir þá brúðhjónunum eftir allan brúðkaupsdaginn.

Heiða Helgadóttir.

Heiða fer oft með brúðhjónum út á land og myndar þau í náttúrunni þannig að öll athyglin þann daginn fer í myndatökuna. Oft er myndað í hvaða veðri sem er enda myndir Heiðu eins og listaverk.

„Mér finnst skemmtilegast að gera heimildaljósmyndun – að fylgja fólki eftir allan daginn. Fólk fær þá sæta myndasögu af deginum sem er gaman að eiga,“ segir Heiða sem hefur myndað fjöldann allan af brúðhjónum, bæði daginn sem brúkaupið fer fram og eins fyrir og eftir hann. Hún segir að í síðara tilvikinu fari myndatökur oft fram úti á landi – Seljalandsfoss, Skógafoss og Reynisfjara séu t.d. vinsælustu staðirnir og þá taki tökur heilan dag.

„Íslendingar eru ekki búnir að fatta að myndatakan þarf ekki endilega að fara fram á brúðkaupsdaginn sjálfan því að þá er svo mikið stress. Það er gaman að taka annan dag í þetta og hafa þá góðan tíma.“

Íslendingar eru ekki búnir að fatta að myndatakan þarf ekki endilega að fara fram á brúðkaupsdaginn sjálfan.

Heiða segir að þegar hún taki myndir af brúðhjónum á brúðkaupsdeginum leggi hún áherslu á að brúðhjónin séu þau sjálf, á meðan hún reyni að gera sig ósýnilega og finna skemmtileg sjónarhorn. „Ég reyni að ná tengingu við fólkið svo það geti slakað á og haft gaman. Ég vil ekki að það standi eins og frostpinnar og brosi. Það á bara að vera það sjálft. Ég legg áherslu á lifandi og eðlilegar myndir og reyni að fanga persónuleg augnablik, gleði í augum og bara eitthvað sætt.“

Dýrmætar minningar

- Auglýsing -

Eins og alkunna er getur íslenskt veðurfar verið fjölbreytt og hefur Heiða myndað brúðhjón í alls konar veðri. „Ég tók t.d. myndir í klikkuðustu rigningu og roki sem ég hef lent í. Brúðhjónin höfðu reyndar gaman af því og ég líka. Þau voru rennblaut í gegn en myndirnar voru svolítið skemmtilegar. Þannig að það er alveg hægt að mynda í öllum veðrum.“

Spurð um stílinn á myndunum sem hún tekur segist Heiða hafa gaman af dökkum myndum og dramatísku yfirbragði „Mér finnst dökkt yfirbragð vera fallegra; finnst gaman að taka myndir þar sem lítið ljós er í boði. Það er heillandi og áskorun að ná fallegum myndum í litlu ljósi. Fólk þarf því að velja hvað það vill áður en það pantar brúðkaupsljósmyndara. Það þarf að vanda valið.“

- Auglýsing -

Hún segir að það sé dýrmætt fyrir hjón að eiga fallegar brúðkaupsmyndir upp á framtíðina að gera og þá líka með börn þeirra og barnabörn í huga. „Þetta eru svo dýrmætar minningar.“

Myndir / Heiða Helgadóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -