Miðvikudagur 5. febrúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

„Alveg klár vísbending að tíðni sjálfvíga er að aukast“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þeim hefur fjölgað um ríflega helming frá því í fyrra tilfellunum þar sem fólk með sjálfsvígshugsanir leitar til Píeta samtakanna. Aukningin nemur raunar 121 prósenti. Framkvæmdastjóri samtakanna segir skýrar vísbendingar uppi um fjölgun sjálfsvíga.

Sem dæmi þá voru sjálfsvígsviðtölin hjá Píeta samtökunum 310 talsins í síðasta mánuði á meðan þau voru 140 talsins á sama tíma í fyrra. Samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta samtakanna, hefur miklar áhyggjur. „Hjá okkur merkjum við gífurlega aukningu og við höfum að sjálfsögðu miklar áhyggjur. Það blasir við. Það er alveg óhætt að fullyrða það að okkur er að líða verr núna en undanfarið. Tölur gefa það klárlega til kynna,“ segir Kristín.

Vísbendingar eru um að sjálfsvígstilfellum hér á landi hafi fjölgað um 67 prósent frá því í fyrra. Tölur gefa til kynna að fleiri hafi mögulega fallið fyrir eigin hendi í kórónuveirufaldrinum heldur en úr Covid-19. Vísbendingarnar má finna í bráðabirgðatölum lögreglu sem liggja nú til meðferðar hjá Landlækni.

„Það er sannað og vitað að félagsleg einangrun hefur áhrif á geðheilsu fólks.“

Hlutfallið á mögulega eftir að breytast hjá embætti landlæknis því nú fer í hönd tímafrekt ferli til staðfestingar dánameina þeirra einstaklinga sem lögreglan hefur skráð hjá sér sem sjálfsvíg. Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, verkefnisstjóri lýðheilsu hjá Landlæknisembættinu, segir tölurnar gefa alvarlegar vísbendingar um tíðni sjálfsvíga í covid-faraldrinum en þær beri þó að túlka með varúð því um sé að ræða bráðabirgðatölfræði.

Sjá meira hér: Skelfilegar tölur lögreglu – Sjálfsvígum snarfjölgar í covid-faraldri.

Tölur lögreglunnar sýna að það hafa 30 einstaklingar svipt sig lífi í ár, á meðan þeir voru 18 talsins samkvæmt skráningu lögreglu á sama tíma í fyrra. Það er aukning um 12 látna, eða því sem nemur 67 prósenta aukningu, sem er tveimur fleiri en látist hafa úr Covid-19 hérlendis í faraldrinum. Sé horft til ársins 2018 til samanburðar þá höfðu 22 fallið fyrir eigin hendi á sama tímapunkti, sem er 36 prósentum minna en í ár.

- Auglýsing -

Kristín leggur áherslu á að það sé ekki hægt að benda á harðar sóttvarnarreglur einar sem orsakavald og hún segir það jákvætt að fólk sé að leita sér hjálpar. Aðspurð segist hún hjartanlega sammála því að ekki megi þó loka augunum fyrir afleiðingum sóttvarnaraðgerðanna. „Það er sjálfsagt hægt að kenna Covid um. Það er sannað og vitað að félagsleg einangrun hefur áhrif á geðheilsu fólks. Á sama tíma þarf að bera virðingu fyrir ástandinu eins og það er. Það má samt ekki loka augunum fyrir vandamálinu því það er hópur fólk sem finnst þetta afskaplega erfitt. Við verðum að geta gripið það fólk og hjálpað því,“ segir Kristín sem telur að íslenskt samfélag sé rétt að byrja glímuna við áhrif faraldursins. Aðspurð segir hún viðbragðsaðila í sjálfsvígsvörnum koma til með að bæta enn frekar í aðstoðina.

„Rannsóknir sýna að áhrif faraldurs byrja að koma fram mánuðum á eftir. Það þarf að líta þetta mjög alvarlegum augum. Það er alveg klár vísbending um það að tíðni sjálfvíga er að aukast og við berum þá samfélagslegu ábyrgð að hjálpa hvert öðru.“

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið, númerið er ókeypis og opið allan sólarhringinn.
Píeta samtökin bjóða einnig upp á þjónustu í síma 552-2218 fyrir fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaðahegðun. Númerið er opið allan sólarhringinn.
Þá er einnig hægt að ná netspjalli við hjúkrunarfræðinga í gegnum vefinn heilsuvera.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -