Mánudagur 6. janúar, 2025
-3.2 C
Reykjavik

Amma hafði rétt fyrir sér

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Óperusöngvarinn og fagurkerinn Bergþór Pálsson segir frá þeim bókum sem hafa haft mest áhrif á hann.

„Þegar litið er aftur til bernsku, standa Skólaljóðin eflaust upp úr sem áhrifavaldur,“ upplýsir Bergþór. „Upp úr þeim vorum við látin læra helling af ljóðum utan að og það hefur heldur betur nýst mér í starfi mínu sem söngvari. Amma sagði líka oft að ég skyldi læra eins mikið utanbókar og ég kæmist yfir meðan heilinn væri móttækilegur, ég myndi finna seinna hvernig þessi hæfileiki dvínaði með aldrinum. Það kom í ljós að hún hafði rétt fyrir sér.“

Bók sem á sér alltaf sinn sess meðal þjóðarinnar

Bergþór kveðst geta nefnt margar bækur sem hafa ýmist haft þau áhrif að hann fann svo til með persónunum að tárin láku á hverja síðu eða valt út úr rúminu í óstöðvandi hláturskasti, alveg frá Sölku Völku til ljóðabóka Þórarins Eldjárns. Matreiðslubækur séu þó trúlega þær bækur sem hafi mest áhrif á hans daglega líf. „Matreiðslubók handa ungu fólki á öllum aldri frá 1978, eftir Sigrúnu Davíðsdóttur,“ nefnir hann sem dæmi.

„Hún hafði byltingarkennd áhrif á íslenska matargerð og opnaði glugga út í hinn stóra heim. Þarna var komin pítsa, bújabessa, saltimbocca og ratatúja og ég veit ekki hvað inn á borð. Þetta vorum við fljót að tileinka okkur, eins og margt fleira. Það er reyndar rannsóknarefni hvað við erum nýjungagjörn og hvernig við breytum venjum og viðhorfum á mettíma. Ættum við ekki að segja okkur það til hróss? Samt virðist bókin alltaf eiga sinn sess í hugum okkar þótt tækni tröllríði hverju andartaki. Það er svolítið gaman.“

Skemmtir sér yfir ambögum Bibbu

Hann segir uppflettirit, ekki síst þau sem fjalla um íslenskt mál, hins vegar vera í sérstöku uppáhaldi hjá sér. „Ætli Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson hafi ekki haft mest áhrif á mig því ég nota hana mest. Stundum er skemmtilegt orðatiltæki komið fram á varirnar á mér, en ég finn að eitthvað er bogið við það. Þá er gott að leita í þessa bók.  Að vísu skemmti ég mér konunglega yfir ambögum Bibbu á Brávallagötunni, eins og þegar hún dembdi tveimur orðatiltækjum í eina sæng svo að úr varð drepfyndin rökleysa, t.d. þegar „fæðast fyrir tímann“ og „deyja langt fyrir aldur fram“ varð að „fæðast langt fyrir aldur fram,“ segir hann og hlær.

- Auglýsing -

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -