Forstjóri Icelandair er ánægður með að flugfreyjur skuli hafa samþykkt kjarasamning við félagið. Hann segir að nú sé hægt að horfa fram á veginn.
„Ég er virkilega ánægður með að við séum komin með lendingu í þessu máli og getum farið að horfa fram á veginn,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í kjölfar fregna þess efnis að meirihluti félagsmanna Flugfreyjufélags Íslands hafi fyrr í dag samþykkt kjarasamning við Icelandair, en alls kusu 88 prósent félagsmanna um samninginn og þar af sögðu 83,5 prósent já en 13,42 prósent sögðu nei. Þrjú prósent kjörseðla voru auðir.
Í tilkynningu til félagsmanna fyrirtækisins segir Bogi að kjarasamningurinn stuðli að auknum sveigjanleika til þróunar leiðakerfis Icelandair en jafnframt sveigjanleika á vinnufyrirkomulagi fyrir starfsfólk. „Með þessum samningi eru flugfreyjur og flugþjónar að leggja sitt af mörkum til að styrkja samkeppnishæfni félagsins til framtíðar,“ segir hann, „en það er gríðarlega mikilvægur liður í því verkefni sem við stöndum frammi fyrir – að tryggja framtíð Icelandair Group.“
Mannlíf ræddi fyrr í dag við Guðlaugu Líneyju Jóhannsdóttur, formann Flugfreyjufélags Íslands, FFÍ, sem sagði að ánægja væri með góða kjörsókn. Fólk væri enn í sárum vegna uppsagnanna 17. júlí en með þessu móti væru flugfreyjur og -þjónar að sýna í verki að þau vilji leggja sitt af mörkum til þess að koma fyrirtækinu úr þeim hremmingum sem það hefur ratað í. „Með því að samþykkja þennan samning erum við […] að leggjast á árar með Icelandair að koma félaginu upp úr þessum hremmingum sem það hefur verið í og gæta þess jafnframt að við höfum eitthvað að segja um okkar kaup og kjör til frambúðar,“ sagði hún.
Sjá einnig: Ánægja með kjörsókn en fólk enn í sárum
Samningurinn sem samþykktur var í dag byggir á þeim samningi sem undirritaður var 25. júní af samninganefnd og var síðar felldur af félagsfólki FFÍ. Samkvæmt Guðlaugu Líneyju voru örlitlar breytingar gerðar á samningunum. Nýi samningurinn gildir til 30. september 2025.