Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Anastasia lifði í ótta og örvæntingu: „Mér var orðið sama. Það var líklega það versta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Rússland hefur alltaf vakið hjá mér hræðslu. Ég vissi að stríðið myndi hefjast í rauninni mánuði áður en það gerðist. Ég bara fann það á mér. Ættingjar mínir trúðu mér ekki og sögðu að ég væri orðin rugluð. Og ég bjó mig undir stríðið. Ég áttaði mig á því að Kharkov, borgin þar sem ég bjó, yrði skotmark þar sem hún er nálægt landamærum Rússlands. Heimili mitt var í 40 kílómetra fjarlægð frá landamærunum. Ég safnaði saman ýmsum skjölum og hlutum, sankaði að mér mat og lyfjum og sparaði peningana. Ég horfði á myndbönd um hvernig eigi að lifa af í stríði, hvernig eigi að þekkja vopn og hvernig eigi að haga sér í skothríð. Þetta var erfiður mánuður,“ segir Anastasia Pribylova, 32 ára gömul úkraínsk kona sem flúði frá Úkraínu og er komin til Íslands. „Ég beið á hverjum degi eftir að innrásin hæfist og efaðist ekki í eina sekúndu um að af þessu yrði.“

Ég áttaði mig á því að stríðið væri hafið.

Anastasia segist hafa vaknað hálffimm að morgni 24. febrúar þegar sprengju var varpað í nágrenni heimilis hennar. „Ég áttaði mig á því að stríðið væri hafið. Ég fékk því ekki sjokk þar sem ég hafði vitað að þetta myndi gerast. Ég opnaði glugga og heyrði í loftvarnakerfi í nágrenninu. Ég klæddi mig svo og hringdi í mömmu. Síðan safnaði ég ýmsu saman fyrir utan það sem var tilbúið og beið eftir fréttum yfirvalda. Ég sá út um gluggann fólk með töskur hlaupa í átt að neðanjarðarlestinni og fólk ók bílum frá bílastæðinu við húsið. Fólk hljóp hrætt út á götu og það skildi enginn hvað var að gerast.“

Anastasia segir að fyrstu útvarpsfréttir um innrásina hafi komið klukkan sjö um morguninn. „Þá fékk ég sjokk vegna þess að það var sagt að ráðist hafi verið inn í allt landið og þar á meðal Kyiv. Mér skildist að það væri meiri hætta á að maður myndi láta lífið í fjölbýlishúsi heldur en í sérbýli og í húsinu sem ég bjó í var enginn staður sem hægt var að nota sem sprengjubyrgi og fannst mér vera hræðileg tilhugsun að verða kannski grafin lifandi undir rústum ef sprengja félli á húsið. Ég hringdi því í vin minn sem bjó í sérbýli í nágrenninu og spurði hvort ég og Gleb, 10 ára gamall sonur minn, mættum koma og leita þar skjóls sem var velkomið.“

Anastasia Pribylova

Dauðinn hversdagslegur

Anastasia og Gleb bjuggu í Kharkov í tvo mánuði í húsi vinar hennar eftir að stríðið skall á.

- Auglýsing -

„Ég gekk í gegnum margt á þessum tíma. Fyrst um sinn leituðum við okkur oft skjóls í kjallaranum en svo vék óttinn fyrir örvæntingu og afskiptaleysi. Mér var orðið sama. Það var líklega það versta. Ég heyrði í alls konar vopnum á þessum tíma og lærðum við að greina hversu langt í burtu sprengingarnar voru og hverjir voru að skjóta – Úkraínumenn eða rússneska hernámsliðið. Það hræðilegasta var þegar við sátum á nóttunni í köldum kjallaranum og rússneskar orystuþotur flugu yfir húsið. Ég man enn eftir hljóðinu í þeim.“

Dauðinn varð hversdagslegur.

Anastasia svaf lítið á þessum tíma. „Stundum svaf ég í nokkra klukkutíma á daginn. Eitt kvöldið féll sprengja nálægt húsinu og það er kraftaverk að við skyldum lifa af. Og einu sinni vorum við að aka í bíl eftir að hafa verið að versla og sprengja sprakk rétt hjá og þá hélt ég að það væri endirinn. Ég hélt að það yrði eitrað fyrir okkur ef Rússar kæmu inn í borgina. Það voru fréttir frá Bucha, Irpen og fleiri stöðum þar sem konum og börnum var nauðgað. Ég vildi ekki upplifa það og fannst að þá væri betra að taka eigið líf. Ég var hrædd við að yfirgefa borgina þar sem ég myndi deyja á leiðinni. Dauðinn varð hversdagslegur. Ég gæti dáið á hverri sekúndu og á hverjum degi. Og ég fór að meta og elska lífið meira en nokkru sinni fyrr. Ég hætti að vera hrædd; ég áttaði mig á því að ég var ekki hrædd við neitt lengur. Ég fann fyrir tómarómi og gleðinni fyrir að vera enn á lífi.“

 

- Auglýsing -

Tvisvar sinnum taugaáfall

Anastasia ákvað að flýja 19. apríl. „Ég hafði engu meiru að tapa í Úkraínu. Og ég tókáhættu. Ég keypti lestarmiða til Lviv og hringdi í úkraínskan vin minn sem hafði búið í Varsjá í fjögur ár. Hann spurði mig ekki að neinu heldur sagði bara að hann myndi hitta okkur þegar við kæmum.“

Anastasia sagðist hafa verið ákveðin í að fara beint til Íslands. „Ef ég á að vera hreinskilin þá hafði mig í þrjú ár dreymt um að búa á Íslandi en mér datt aldrei í hug að draumur minn myndi rætast með þessum hætti. Mamma, sem hafði farið til Þýskalands tveimur vikum áður en ég tók þessa ákvörðun, fór að ýta á mig að koma til Þýskalands og heimsækja hana. Ég hugsaði málið og ákvað að fara til hennar. Þetta var álagstími og ég gafst upp. Íslandsdraumurinn var settur á bið.“

Ég gat ekki skilið hvers vegna sumir nágrannar okkar voru að drepa okkur á meðan aðrir voru að bjarga okkur og létu sér annt um okkur.

Svo tók við langur akstur til Lviv og þurfti tvisvar sinnum að stoppa í klukkutíma í senn vegna viðvörunar um loftárás. Anastasia segist ekki hafa vitað hvort hún kæmist á ákvörðunarstað. „Ég var ekki hrædd og mér var alveg sama. Ég var einfaldlega þreytt.“ Svo tók við sex tíma bið eftir rútunni sem færi til Varsjár. „Þegar við vorum komin yfir landamæri Póllands áttaði ég mig ekki strax á því að ég væri örugg,“ segir Anastasia og talar um gestrisni Pólverja sem kom henni á óvart. „Pólskir sjálfboðaliðar voru við landamærastöðina og buðu þeir meðal annars upp á mat, drykki, lyf og leikföng fyrir börn. Ég stóð þar grátandi. Ég var í sjokki. Ég gat ekki skilið hvers vegna sumir nágrannar okkar voru að drepa okkur á meðan aðrir voru að bjarga okkur og létu sér annt um okkur.“

Anastasia segir að þau Gleb hafi verið í Varsjá í þrjá daga og að þetta sé ógleymanlegur tími. Mæðginin fóru síðan til móður hennar í Nürnberg í Þýskalandi. Þau voru hjá henni í tvær vikur og fóru síðan til München þar sem þau voru í tvo og hálfan mánuð. „Mér leið allan tímann eins og ég væri í fangelsi. Mér leið illa í Þýskalandi. Ég fékk tvisvar sinnum taugaáfall. Mér leið eins og ég væri ekki á réttum stað og ég fór að leita leiða til að fara til Íslands. Mig langaði virkilega til að koma hingað. Og tók ákvörðun. Í lok júní ókum við síðan í 17 klukkustundir frá München til Varsjár og ég keypti flugmiða fyrir hvorki meira né minna en 600 evrur. En mér var sama. Ég varð að komast til Íslands. Ég vissi að ef ég nýtti ekki þetta tækifæri þá myndi ég kannsi aldrei koma hingað.“

Anastasia segir að 12 klukkustunda bið á flugvellinum í Varsjá hafi ekki verið svo slæm. „Ég óttaðist bara eitt – að fluginu yrði aflýst. Þegar ég var komin um borð í vélina gerði ég mér grein fyrir að draumur minn var í fjögurra klukkustunda fjarlægð. Ég gerði mér ekki almennilega grein fyrir hvað hafði gerst þegar ég kom til Íslands. Ég féll algjörlega fyrir landinu og verð hrifnari af því með hverjum deginum sem líður. Ég hafði aldrei áður séð hafið og hérna sé ég það.“

Heimaborg Anastasia hefur orðið fyrir sífelldum árásum frá upphafi stríðsins sem hefur að vonum mikil áhrif á Anastasia sem segist taka þunglyndislyf og þurfi svefnlyf til að geta sofið.

„Ég gerði mér nýlega grein fyrir því að ég er hamingjusöm á Íslandi. Ísland er ævintýri. Ég elska landið þegar sólin skín, þegar rignir, þegar heitt er og líka þegar er kalt, þegar miðnætursólin skín og þegar myrkrið ræður ríkjum. Mér finnst ég vera komin heim.“

Anastasia Pribylova

Lífið er hér og núna

Anastasia segir að Rússar hafi tekið ákvörðun og að hún vorkenni ekki Rússum. „Þeir fá það sem þeir verðskulda. Það kallast karma og ég trúi á karma og að þeim verði refsað fyrir það sem þeir hafa gert.

Stríðið kenndi mér hvernig eigi að lifa. Að lifa eins og hver dagur sé minn síðasti og að ekki vera hrædd við neitt. Það kenndi mér að vera sterk, hugrökk og elta drauma mína. Að njóta hverrar sekúndu og hvers dags. Og að muna að við eigum bara eitt líf.“

Anastasis segist ekki skipuleggja framtíðina. „Það getur allt breyst á einni sekúndu. Lífið er hér og núna og ég elska það,“ segir Anastasia sem segist hafa verið í háskólanámi í heimspeki úkraínsku og segist elska tónlist og séu Queen og John Lennon í uppáhaldi. Hvað bækur varðar er Gabriel García Marquez í uppáhaldi. Hún hefur gaman af að skrifa og hún vill skrifa.

Hún segist vilja búa á Íslandi alla tíð og segist þó ekki enn vera búin að fá vinnu. „Ég er heima og ég er hamingjusöm. Ég er frjáls og ég nýt hverrar sekúndu. Á hverjum einasta morgni þegar ég opna gluggann segi ég: „Ég elska þig, Ísland.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -