Landlæknisembættið rannsakar nú andlát karlmanns á tíræðisaldri sem lést um miðjan janúar á Kirkjuhvoli, hjúkrunar- og dvalarheimili aldraðra á Hvolsvelli. Fréttablaðið greinir frá í dag en samkvæmt heimildum blaðsins er maðurinn talinn hafa látist í alvarlegu slysi.
Karlmaðurinn hafi ætlað að reisa sig á fætur í herbergi sínu, við það hafi fataskápur fallið á hann og maðurinn slasast illa og látist af sárum sínum. Skápurinn var á hjólum og ekki tryggður með festingum.
Málið var tilkynnt Landlæknisembættinu og staðfestir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, við Fréttablaðið að málið sé í rannsókn.