Samkvæmt Rúv eru átta á gjörgæslu Landspítalans með Covid, sex þeirra óbólusettir. „Þetta er allt saman fólk með íslenska kennitölu. Það eru engir ferðamenn í þeim hópi. Það er í umræðunni að það sé eitthvert vandamál en það er ekki,“ segir Hildur Helgadóttir verkefnastjóri hjá farsóttarnefnd Landspítalans í samtali við Rúv.
Hópurinn sem er á gjörgæslu er blandaður að aldri og kyni, hefur Rúv eftir Hildi. „Þetta er fólk sem hefur ekki farið í bólusetningu, ég hef ekki yfirsýnina yfir ástæður þess. Það er ekki það fyrsta sem við spyrjum um þegar fólk leggst inn mikið veikt á gjörgæslu: Af hverju fórstu ekki í bólusetningu? Það eru ekki upplýsingar sem við höfum frá fyrstu hendi,“ segir Hildur.