Andrea Róbertsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA, og mun hún taka við starfinu 16. október af Hrafnhildi Hafsteinsdóttur sem hefur verið ráðin markaðs- og gæðastjóri Hjallastefnunnar.
„Ég er full tilhlökkunar að mæta til þjónustu reiðubúin,“ segir Andrea. „Það gustar alltaf ofurkraftur til góðra verka af sterkum hópi ólíkra kvenna sem sækir fram í takt. Það er nákvæmlega þannig sem ég sé FKA fyrir mér. Einstök orka sem léttilega er hægt að tappa á flöskur og flytja út.“
Andrea er með víðtæka reynslu á sviði stjórnunar og yfirgripsmikla reynslu af verkefna- og viðburðastjórnun. Andrea er með MS gráðu frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands í mannauðsstjórnun, BA gráðu í félags- og kynjafræði og MA-diplómu í jákvæðri sálfræði.
Andrea hefur starfað síðustu ár sem framkvæmdastjóri og forstöðumaður hjá Tali og Kaffitári en einnig sem mannauðsstjóri RÚV. Andrea starfaði sem verkefnastjóri hjá Hjallastefnunni um tíma og sem ráðgjafi á sviði stjórnunar með fókus á breytingastjórnun, heilsueflingu og græn mál fyrirtækja og stofnana. Andrea hefur annast fjölmiðlatengsl, almanna- og kynningarmál og býr yfir margþættri reynslu úr fjölmiðlum. Hún hefur einnig reynslu af stjórnarsetu.
Upplýsingar um FKA má finna á heimasíðu félagsins.