Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Andrea varð fyrir einelti á vinnustað: Var hætt að þora á kaffistofuna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það gekk eiginlega bara allt út á það hjá þessum aðilum að finna eitthvað á mig,“ segir Andrea Björk Sigurvinsdóttir, sem var eina konan í slökkviliði Fjarðabyggðar þegar hún hóf störf þar sumarið 2017. Hún hafði reynslu af sjúkraflutningum og brennandi áhuga á starfinu, sótti sér aukna menntun í því og lagði sig alla fram. Fljótlega fór þó að bera á því að ýmsir samstarfsmenn hennar voru ekki hrifnir af því að fá konu sem starfsfélaga og Andrea upplifði síendurtekið áreiti innan slökkviliðsins sem endaði með því að hún brotnaði saman og hætti samkvæmt læknisráði.

Hún hefur nú lagt fram formlega kvörtun vegna kynbundins áreitis og eineltis eftir að hafa ítrekað verið hunsuð af yfirmönnum slökkviliðsins þegar hún kvartaði. Á endanum hrökklaðist hún úr bænum og flutti til Dalvíkur ásamt eiginmanni og börnum, en hún er enn óvinnufær og treystir sér ekki ein út í búð, hvað þá meira, svo djúpstæð áhrif hafði eineltið á hana.

„Það gekk eiginlega bara allt út á það hjá þessum aðilum að finna eitthvað á mig. Ég til dæmis óskaði eftir sálgæslu eftir mjög erfitt útkall og það þótti afskaplega fyndið og mikill aumingjaskapur.“

Var hætt að þora á kaffistofuna

Andrea lagði fram kvörtun til yfirmanns síns vegna kynbundins áreitis eftir að hafa reynt án árangurs að vera metin að verðleikum innan liðsins. „Ég var farin að heyra hvernig var talað um mig,“ útskýrir hún.

„Að ég gæti ekkert gert, væri ekki nógu sterk og svo framvegis. Ég lagði mig alla fram í starfinu, reyndi að vera allra en það var ekki hægt. Ég varð því mjög ánægð þegar slökkviliðsstjórinn kallaði mig inn á skrifstofu og sagðist vera búinn að taka eftir áreitinu og vildi heyra hvernig ég hefði það. Áreitið kom aðallega frá einum starfsmanni til að byrja með en það vatt upp á sig og ég ákvað að leggja fram formlega kvörtun. Ég var þá byrjuð í atvinnunámi slökkviliðsmanna sem er árslangt lotunám, til að fá löggildingu sem atvinnuslökkviliðsmaður. Þá þurfti ég að vera alla daga á slökkviliðstöðinni og mæta á allar vaktir, ekki bara mína vakt en þar mætti ég alltaf fullum skilningi og stuðningi. Aðrar vaktir voru ekki á þeirri línu og ég mætti mjög leiðinlegri framkomu frá þeim. Ég var hætt að fara inn í kaffistofu, fór heim í matartímanum og gerði allt til að forðast að vera í samskiptum við þá. Einn starfsmaður var farinn að sýna mér ógnandi framkomu og mér leið sífellt verr. Lengi reyndi ég að réttlæta þetta með því að þetta væri eðlilegt þar sem ég væri kona sem væri að ráðast inn í karlaveldi og þess vegna þyrfti ég bara að læra að höndla þetta áreiti sem eðlilegan hluta af því að vera í slökkviliði, sem var náttúrlega fáránleg hugsun. Auk þess að ég var hreinlega farin að velta fyrir mér hvort þetta væri ímyndun í mér, staðan væri alls ekki svona slæm. Það er nefnilega ótrúlegt hvað kvíði getur brenglað hugsunina hjá manni.“

Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Eftir að Andrea lagði fram kvörtunina kallaði slökkviliðsstjórinn hana og þann sem atkvæðamestur var í áreitinu á sinn fund til að ræða málið og reyna að koma á sáttum.

- Auglýsing -

„Það var náttúrlega alls ekki þægilegur fundur,“ segir Andrea. „Eiginlega bara mjög óþægilegur. Hann viðurkenndi ekki að hann væri að gera neitt rangt, sagði að kannski þyrfti hann að venja sig á að vera aðeins blíðlegri í framkomu við alla, hann væri bara svona. Slökkviliðsstjórinn vildi allt í einu ekkert kannast við að hann hefði áður rætt við mig um áreitið. Það var skrifuð fundargerð og við kvittuðum undir en sá aðili sem ég kvartaði undan kvittaði undir með því skilyrði að þessi fundargerð yrði ekki sýnd neinum öðrum en okkur og slökkviliðsstjórinn lofaði því. Þannig að ég fékk ekkert út úr þessum fundi nema aukinn kvíða. Ég var auðvitað í enn verri stöðu eftir að hafa kvartað og fann vel fyrir því að menn lögðu sig fram um að hunsa leiðinlegu kellinguna sem kvartaði við yfirmanninn.“

Lestu viðtalið í heild sinni í Mannlíf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -