„Ég er búin að komast að því að ég er vond manneskja og uppfull fordóma“.
Þetta segir einn vinsælasti pistlahöfundur landsins, Anna Kristjánsdóttir, sem búsett er á Tenerife. Þangað flutti hún til að flýja okurlandið Ísland, líkt og hún orðaði það á sínum tíma. Á hverjum degi birtir Anna dagbókarfærslu frá paradís og greinir frá hinum ýmsu ævintýrum. Oftast eru frásagnir Önnu jákvæðar og meinfyndnar. Í nýlegri færslu er frásögnin aðeins myrkari og játar Anna að vera bæði vond manneskja og fordómafull.
„Ég vissi reyndar áður að ég er með fordóma gagnvart Miðaldaflokknum, Fólkinu hans Franklín og nýja flokknum hans, Trumpistum Íslands og fyrrum formanni KSMLb,“ segir Anna og bætir við að það nái ekki yfir samkynhneigða, Framsóknarmenn, múslíma, transfólk, þeldökkt fólk, Viðreisn, Vinstri græn og intersexfólk. Píratar munu einnig komast á jákvæða listann ef þeir láta af því að kenna sig við sjórán.
„Helvítis Íslendingar, missti ég út úr“
„Mér er illa við sjórán. En samt, ég er með ákveðna undirliggjandi fordóma og þeir birtust óvænt samferðafólki mínu í gær,“ segir Anna sem skellti sér nýverið í verslunarferð ásamt góðu fólki. Í hringtorgi á leiðinni í verslunarmiðstöð svínaði smábíll fyrir Önnu sem mátti hafa sig alla við að forða árekstri. Ökuníðingurinn var í bíl merktum bílaleigunni AVIA.
„Helvítis Íslendingar, missti ég út úr mér við samferðafólkið sem horfðu á mig vantrúaraugum, hvað er nú hlaupið í kerlinguna? Er nema von að ég hafi æst mig?“ spyr Anna sem hafði ekki séð annað eins aksturslag síðan haustið 2019.
„Ónefndur Íslendingur gerði sér far um að fara ávallt inn á innri hring hringtorgs þrátt fyrir varnaðarorð samferðamanna og síðan snögglega útaf hringtorginu frá innri akrein og ég óttaðist um líf mitt hjá umræddum ökumanni er ég sá hina bílana snarnegla niður til að sleppa við að breyta mér í kramið blóðstykki innan við klessta hurð,“ segir Anna en samferðamenn hennar vildu vita af hverju hún, þá enn uppfull af reiði, teldi að hún Íslending væri að ræða.
„Ég skammast mín oní tær fyrir fordómana“
„Ég hef ekki hugmynd um það, en hverjir aðrir en Íslendingar halda að innri akrein í hringtorgi hafi réttinn gagnvart ytri akrein?“ spyr Anna og endar pistilinn á þessum orðum:
„Ég skammast mín oní tær fyrir fordómana gagnvart Íslendingum, öðrum en þeim sem ég taldi upp í upphafi þessa pistils, en um leið held ég að ég sé að verða meiri senjóríta í umferðinni en Íslendingur.“