Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.1 C
Reykjavik

Anna Hildur, nýr formaður SÁÁ: „Ég var alltaf með kvíða, var alltaf þunglynd og alltaf með móral“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Auðvitað hefur þetta haft áhrif á samtökin. Þetta er álitshnekkir. Stjórnin varð fyrir áfalli eins og allir aðrir. Þetta var eitthvað sem engin bjóst við. Þetta samræmist hvorki gildum SÁÁ né gildum okkar sem einstaklinga, þannig að þetta var ekki gott fyrir samtökin,“ segir Anna Hildur Guðmundsdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi og nýr formaður SÁÁ, um vandann og ólguna sem kom nýlega upp í tengslum við SÁÁ sem varð til þess að þáverandi formaður sagði af sér.

Þetta var högg; við bognuðum en við brotnuðum ekki.

„Þetta er ekki eitthvað sem lýsir samtökunum. Þetta er einstaklingur sem á þessa hegðun; þetta er ekki það sem samtökin standa fyrir. Þannig að hlutverk okkar núna er að öðlast aftur traust almennings af því að það er það sem skiptir okkur svo miklu máli af því að við treystum á almenning að standa með okkur. Við erum alltaf að safna fyrir samtökin og fyrir bættri þjónustu fyrir alkóhólista og aðstandendur þeirra, þannig að það skiptir okkur miklu máli að ásýnd samtakanna sé í lagi. Það er hlutverk okkar núna að sýna íslensku þjóðinni hvað við stöndum fyrir. Það er hlutverk okkar að fá álit þjóðarinnar aftur með okkur. Þetta var högg; við bognuðum en við brotnuðum ekki. Alls ekki. Þannig að ég trúi að traustið sé til staðar þegar við höldum áfram að sýna hvað það er sem við stöndum fyrir.“

Anna Hildur hefur setið í framkvæmdastjórn SÁÁ síðastliðin tvö ár. „Síðan kom atvikið þegar Einar Hermannsson sagði af sér sem formaður og þá vorum við formannslaus. Það að verða formaður er ekki eitthvað sem ég hafði ásælst heldur var þetta röð atvika. Við í framkvæmdastjórninni erum öll í öðrum störfum, en þar sem SÁÁ skiptir svo miklu máli fyrir mig og okkur, þá ákvað ég að bjóða mig fram til þess að leiða starfið fram að næsta aðalfundi sem verður í vor. Mér þykir vænt um SÁÁ og vildi leggja mitt af mörkum.“

 

Verkferlar og siðareglur

Anna Hildur, sem býr á Akureyri og starfar sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá Akureyrarbæ, segir að formaður samtakanna sé jafnframt framkvæmdastjóri þeirra. Hún mun einungis starfa sem formaður, en það verði ráðinn verkefnastjóri tímabundið til að sinna þeim verkefnum sem framkvæmdastjóri sinnti fram að næsta aðalfundi.

- Auglýsing -

„Við þurfum að búa til verkferla og siðareglur í kringum stjórnina og vera í takt við önnur almannaheillasamtök. Það er í raun og veru margt sem við getum skoðað í innra starfi SÁÁ. Mér líst til dæmis vel á að sitthvor aðilinn sé annars vegar í framkvæmdastjórastöðunni og hins vegar í formannsstöðunni. SÁÁ eru grasrótarsamtök og það þarf að hafa í huga hvað grasrótin vill; því þurfum við í framkvæmdarstjórninni núna að eiga betra samtal við aðalstjórnina.“

Anna Hildur Guðmundsdóttir

Kvíði og þunglyndi

- Auglýsing -

Anna Hildur smakkaði áfengi í fyrsta sinn þegar hún var í 7. bekk sem er eins og 8. bekkur í dag. „Ég var allt of ung.“

Hún fór síðan að drekka um helgar. „Svona var þetta. Maður datt í það um helgar eins og margir unglingar gerðu. Mér fannst gaman að djamma og fara út á lífið.

Ég var alltaf með kvíða, alltaf þunglynd og alltaf með móral þó svo að ég hefði ekki verið að gera neitt af mér.

Ég fór síðan að drekka daglega þegar ég bjó erlendis. Mér var lengi búið að líða illa og svo vaknaði ég eina nóttina og hugsaði með mér að ég væri 32 ára gömul og að mér væri búið að líða illa í mörg ár og það stæðist ekki að mér ætti eftir að líða illa í 50 ár í viðbót, en ég var búin að reikna út að meðalaldur kvenna væri 82 ár. Ég hugsaði með mér að það hlyti að vera einhver orsök fyrir þessari vanlíðan og hugsanlega ætti áfengi einhvern þátt í því hvað mér leið illa. Mér leið alltaf illa eftir að ég drakk. Ég var alltaf með kvíða, var alltaf þunglynd og alltaf með móral þó svo að ég hefði ekki verið að gera neitt af mér. Ég átti ung börn og ég gat ekki hugsað mér að fara einhvern tímann út af heimilinu til að redda mér einhverju áfengi og skilja þau eftir. Ég hræddist það mest af öllu. Ég hætti að drekka af því að ég vildi standa mig og vera til staðar fyrir dætur mínar,“ segir Anna Hildur sem fór í meðferð á Vogi og síðar á Vík og hefur ekki drukkið síðan. Síðan eru liðin 19 ár.

Hún er spurð hvað hún hafi lært af því að hafa gengið í gegnum þessa reynslu. „Rosamikið. Ég hef aðra sýn á lífið. En ég skammast mín ekki fyrir sögu mína. Sagan mín er sagan mín og þó svo að ég hafi drukkið í öll þessi ár þá komst ég upp með það og skilaði alltaf mínu. En mér leið illa. Í dag er ég stjórnandi í mínu ferðalagi og það er það sem ég fékk þegar ég hætti að drekka – ég er sú sem ákveð í hvaða átt ég fer. Það eru ekki einhverjir aðrir sem ákveða það, heldur er það ég sem er við stjórnvölinn í mínu lífi. Og ég ræð hvort ég sé að fara áfram eða aftur á bak.“

Hvað er Bakkus í huga nýs formanns SÁÁ? „Bakkus er ástand. Hugarástand. Hann er í raun og veru þessi vanmáttur sem býr innra með manni. Maður heftir hæfileikana sína til þess að vinna úr hlutum. Bakkus er hindrandi. Í raun og veru leyfði hann manni aldrei að vera maður sjálfur. Maður var alltaf eitthvað allt annað.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -