Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Anna Kristjáns er sjötug í dag: „Ég tek samt alveg á móti gjöfum þótt engin verði afmælisveislan“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hin bráðskemmtilega og lipri penni, Anna Kristjánsdóttir, er sjötug í dag. Hún býr nú á Tenerife og skrifar pistla um lífið á spænsku eyjunni undan ströndum Afríku, á hverjum einasta degi. Hún er þó stödd á Íslandi í augnablikinu. Nýjasti pistillinn er afmælispistill. Og hann er fullur af hárfínum húmor eins og oftast hjá Önnu.

„Ég viðurkenni sök mina. Ég telst ekki lengur vera unglingur heldur fullorðin. Það var víst á þessum degi fyrir 70 árum síðan sem ég kom í þennan heim eins og frelsandi engill og foreldrarnir horfðu á nýfætt barnið í jötunni (sic!) og sögðu hvort við annað: „Fullkomnun er náð. Við þurfum ekki að gera fleiri tilraunir til að búa til hina fullkomnu manneskju“. Með fæðingunni hættu þau að gera það og snéru sér að öðrum skemmtilegri áhugamálum en að búa til börn. Ég ætla ekkert að rifja upp hið mjög svo hamingjuríka uppeldi mitt hér og nú. Það hefur þegar verið fært til bókar og gefið út og grunar mig að talsvert sé enn til af upplagi bókarinnar á holabok.is.“

Anna fer því næst yfir plön afmælisdagsins.

„Í tilefni af afmælisdeginum fékk ég naglasnyrtingu og augnháraplokkun hjá Kristrúnu frænku og hárlitun hjá Erlu. Helena dró mig svo í skóbúð og valdi á mig nýja spariskó og svo eina í slabbið á Íslandi að vetri til svo nú má ég henda gömlu Íslandshæfu spariskónum. Afmælisdagurinn stefnir í að verða nokkuð endasleppur. Sumir eru í sóttkví, aðrir í sjálfskipaðri sóttkví og fyrir bragðið er ómögulegt að safna saman nánustu fjölskyldumeðlimum. Ég tek samt alveg á móti gjöfum þótt engin verði afmælisveislan fyrr en síðar, enda fjöldi smitaðra orðinn geigvænlegur þótt sjálf hafi ég ekki miklar áhyggjur. Tvö barna minna teljast í áhættuhóp, þar á meðal sonur minn sem er með gjafanýra. Fyrir bragðið er hætta á að ég fari ein í mína afmælisveislu sem er þá eðlilegast að verði haldin á Bæjarins bestu.“

Eitt af því sem fylgir sjötugsafmælisdögum er endurnýjun á ökuskírteininu og af því hefur Anna áhyggjur.

„Ég hefi áhyggjur af einu til viðbótar. Í dag er síðasti dagurinn sem ökuskírteinið mitt er í gildi. Ég er að vísu búin að sækja um endurnýjun og fara í læknisskoðun, en komst að því fyrir þremur vikum síðan að það tekur heilan mánuð að útbúa nýtt skírteini. Spánverjar eru sko ekkert að flýta sér við slíka hluti. Það gæti orðið vandræðalegt augnablik ef ég skyldi verða stöðvuð af lögreglu þessa daga sem ég verð á Íslandi og þarf að framvísa bráðabirgðaframlengingu á ökuskírteininu á spænsku. Ég er ekki viss um að allir lögregluþjónar á Íslandi séu betri í spænsku en ég sem er hræðileg í spænsku.“

- Auglýsing -

Anna hálfsér eftir að hafa komið til Íslands því hún er að frjósa í hel.

„Þótt ég sé orðin þetta háöldruð er ekki þar með sagt að ég fari að selja Mjallhvíti og fá mér CRV. Svo gömul er ég ekki. En mér er kalt hérna á hjara veraldar. Fyrir bragðið er ég hálfpartinn farin að sjá eftir þeirri skyndiákvörðun minni að hafa farið til Íslands í stað meginlands Spánar þar sem ég veit að hefði verið vel tekið á móti mér. En það er alltaf gott að vera vitur eftirá.“

Í lok pistilsins segir hún það bull að hún sé sjötug í dag.

„Að lokum vil ég ítreka eitt. Það er bara bull að ég sé sjötug í dag. Ég er nefnilega bara 26 ára og verð ekki 27 fyrr en 24. apríl næstkomandi. Ég endurfæddist nefnilega þann dag árið 1995. En ég tek samt á móti gjöfum í tilefni af upphaflegu fæðingarafmæli mínu.“

- Auglýsing -

Mannlíf óskar Önnu innilega til hamingju með stórafmælið!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -