Anna Kristjánsdóttir býr á Tenerife og er þekkt fyrir afar skemmtilega pistla sína frá því sem er stundum kallað „litla-Ísland.“
„Ég man eitt sinn er við vorum að lesta í Halifax í Nova Scotia í Kanada í snarvitlausu veðri á Þorláksmessu og það þurfti tvo dráttarbáta til að halda við skipið á meðan lestunin fór fram og síðan beint á haf út, því það lá mikið á að koma okkur til Íslands og út aftur fyrir áramót.
Eftir hádegið á aðfangadag jóla fór skipstjórinn niður í tollvörugeymslu til að sækja eitthvað görótt til að hafa með jólamatnum og horfði þá út í grængolandi sjó þar sem gat hafði komið á skrokk skipsins við lætin við lestunina.
Við þurftum þá að byrja á að loka gatinu sem var sem betur fer ofan við sjólínu og rétt þegar því var lokið fylltist skilvinda og við þurftum að snarhenda okkur í að hreinsa hana og rétt náðum að komast í jólamatinn, skítug og illa þefjandi á aðfangadagskvöld jóla.“
Heldur áfram:
„Það voru sko ekki alltaf jólin á City-skipunum Laxfossi III og Bakkafossi III. En heim komumst við eftir fleiri mánaða útilegu að kvöldi 29. desember 1984 og út aftur kvöldið eftir, en þá aðeins í fimm vikna túr. Þetta var svona Þorláksmessuhugvekja dagsins í dag.“
Segir að endingu:
„Um leið viðurkenni ég að ég sakna sterkrar minningar frá Þorláksmessu í Reykjavík, friðargöngunnar þar sem friðarsinnar ganga niður Laugaveginn og inn á Austurvöll undir jólasálmasöng kórs Menntaskólans við Hamrahlíð. Þar mun stutt friðarávarp verða flutt sem vafalítið mun fjalla um Úkraínustríðið með meiru að þessu sinni, en síðan mun kórinn syngja sálm allra sálma, Heims um ból. Þá kemst ég í jólaskap þegar ég er á Íslandi.“