„Laus við COVID-19. Er farin út að keyra og út að borða. Aldrei verið eins spennt að fara í matvörubúð í þessu líka fína veðri,“
segir Anna Margrét Jónsdóttir athafnakona og ferðamálafrömuður í færslu sem hún birti á Facebook rétt í þessu.
Ens og kunnugt er smituðust Anna Margrét og eiginmaður hennar, Árni Harðarson aðstoðarforstjóri Alvogen, af veirunni þegar þau voru með vinum sínum á skíðaferðalagi í Selva á Ítalíu. Átta af tíu í hópnum greindust með veiruna eftir heimkomu og við tóku margra daga veikindi sem náðu hámarki á tíunda degi, eins og Anna Margrét sagði í samtali við Mannlíf á þriðjudag.
„Þá lá ég og var ógeðlega lasin, bara að drepast,“ lýsti hún.
Þegar Mannlíf ræddi við Önnu Margréti sagðist hún loks vera farin að skríða saman eftir 16 daga veikindi og einangrun, á meðan eiginmaður hennar og sonur virtust ekki hafa orðið jafn heiftarlega veikir. Hún sagði eiginmanninn og soninn hafa reynst sér vel í veikindunum. Sömuleiðis heilbrigðisstarfsfólk sem hún gat ekki dásamað nóg, og vini og ættingja sem höfðu keypt mat og aðra nauðsynjavöru handa fjölskyldunni á meðan hún þurfti að vera í einangrun.
Sagði hún jafnframt að til stæði að hún færi í rannsókn í gær, fimmtudaginn 19. mars, til að athuga hvort hún væri laus við veiruna og áttu niðurstöðurnar að liggja fyrir í dag. Og með hliðsjón af fyrrnefndri Facebook-færslu þá má vera ljóst að Anna Margrét er loksins laus allra mála. „Ég get ekki smitað neinn og er búin með þennan fjanda,“ segir hún á Facebook.