Tvær konur hafa stigið fram í opnum færslum á Facebook og tjáð sig um meint brot Ingólfs Þórarinssonar eða Ingós Veðurguðs. Í færslum kvennanna kalla þær meðal annars eftir því að Samfés stígi fram og staðfesti það sem þær og fleiri eru að segja, að Ingó hafi verið bannaður á skemmtunum á þeirra vegum vegna ósæmilegrar hegðunar í garð ungra stúlkna, einmitt í tengslum við slíkar skemmtanir.
Sjá einnig: Ingó Veðurguð í viðtali við Mannlíf: „Ég ætla ekki að láta eyðileggja mannorð mitt“
Elísa Snæ er önnur kvennanna og segir hún að fyrir einhverjum árum hafi hún unnið í Félagsmiðstöð og þá hafi verið komið bann á það að ákveðin aðili fengi að spila á skemmtunum fyrir unglinga. Ástæðan var sú að hann hafi verið þekktur fyrir að sitja fyrir stúlkum á heimleið og bjóða þeim far heim. Við erum að tala um 13 til 15 ára gamlar stúlkur á leið heim frá skemmtun í félagsmiðstöðinni sinni, segir Elísa. Færsla Elísu endar svo á þessum orðum: „Það er í raun ótrúlegt að það hafi einfaldlega verið hætt að ráða manninn, og látið þar við sitja. Segir eflaust meira um breyttan tíðaranda en annað, að við fagfólk í frístundastarfi höfum ekki farið með málið lengra á sínum tíma. En nú er tíminn til að færa þetta grundvallar, lágmarks viðmið aðeins hærra. Ráðum fólk a skemmtanir sem við erum allavega þokkalega viss um að beiti ekki kynferðisofbeldi. Þó fyrr hefði verið. Samfés ég skora á ykkur að koma fram og staðfesta þetta bann við ráðningu á ákveðnum manni“.
Sjá einnig: Þetta er fólkið sem henti Ingó af Þjóðhátíð – Nafnlausar ásakanir kostuðu Veðurguðinn „giggið“
Anna María Þorkelsdóttir sem starfar við skóla og frístundadeild Breiðholts hafði meðal annars þetta um málið að segja: „Ég er agndofa yfir viðbrögðum kvenna við fréttum dagsins um að ákveðinn tónlistarmaður fái ekki að syngja fyrir framan aragrúa af ungum stúlkum í sumar eftir að tugir stúlkna eru búnar að lýsa framferði mannsins gagnvart þeim. Sumar af þessum konum sem eru að segjast ekki styðja þessa ákvörðun eru ömmur og mömmur stúlkna og þær vilja að þær séu í návígi við mann sem hefur lengi verið þekktur fyrir ósæmilegt atferli. Ein af þeim sem kom fram þurfti að lesa færslu frá ömmu sinni þar sem hún styður þennan mann. Pössum okkur, við vitum ekki hvað dætur okkur og barnabörn hafa lent í, því að það eru fáir sem segja frá af ýmsum ástæðum. Þessi umræða er ekki gripin úr lausu lofti“. Anna María segir að téður maður hafi verið bannaður á skemmtunum Samfés vegna þess að hanna var að sýna unglingum á aldrinum 13 til 15 ára ósæmilega hegðun. „Hann söng á jólaskemmtun (þar sem voru yngri börn og foreldrar þeirra ) um að maður setur tillann inn og setur tillann út og hristir hann svo til (í Hókí Pókí)“.
Færslu Önnu Maríu má sjá í heild sinni hér.
Mannlíf kallaði eftir viðbrögðum Samfés
Mannlíf setti sig í samband við Samfés og spurði út í það hvort téðum tónlistarmanni hefði verið meinaður aðgangur að þeirra viðburðum vegna ósæmilegrar hegðunar í garð ungra stúlkna. Svarið frá stjórn Samfés er svo hljóðandi:
„Hvað varðar skemmtikrafta á viðburðum Samfés þá hafa fulltrúar Ungmennaráðs Samfés alltaf valið hverja þau vilja bóka. Viðkomandi hefur ekki komið fram í þeim umræðum né vali frá árinu 2015 samkvæmt vitneskju núverandi stjórnar samtakanna og framkvæmdastjóra. Rétt er að taka fram að starfsfólk félagsmiðstöðva og ungmennahúsa sjá sjálf um að bóka skemmtikrafta á sína viðburði. Samfés kemur ekki að daglegu starfi aðildarfélaga“.