Fimmtudagur 16. janúar, 2025
0.5 C
Reykjavik

Anna Svala á borpalli tók grátandi við bónorði: „Ferleg í kjaftinum en ægilega rómantísk“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við erum búin að vera saman í þrjú ár núna í júlí. Við kynntust reyndar úti á lífinu, Anders er frá Bergen og hann tók bátinn hingað út til Stavanger. Hann var á leiðinni að heimsækja vin sinn sem býr í Grikklandi. Anders átti semsagt flug um morguninn klukkan 6 á sunnudag en hitti mig kvöldið áður og svo fór að hann fór ekki til Grikklands fyrr en á fimmtudeginum. Ég kláraði hann alveg“, segir Anna Svala Árnadóttir og skellihlær.

Svo fór sem fór

,,Hann flutti síðan til Stavanger í janúar og svo sáum við að þetta var bara að smella saman, við erum engir unglingar lengur og langaði til að vera saman. Alltaf. Og svo fór sem fór.“

Anna Svala og Anders ljóma af hamingju. Ljósmynd: Kristín Jóna Guðjónsdóttir.

Anna Svala er dans- og jógakennari og olíuborðpallsdrottning í Noregi eins fram kom í viðtali Mannlífs við hina eldhressu Önnu Svölu í byrjun apríl síðastliðnum. Má segja Anna Svala hafi gripið hugu og hjarta landsmanna með líflegri frásögn af lífinu í Noregi og fjörinu  á borpöllunum í Norðursjó.

Berfætt á ströndinni

Og enn berast fréttir af Önnu Svölu því kærasti hennar til þriggja ára, Anders Leroy, fór á skeljanar og bað hennar á dögunum. Og hún sagði já! ,,Það er engin ástæða til að bíða með góða hluti, er það nokkuð?“ segir Anna Svala kímin.

- Auglýsing -
Hún sagði JÁ! Ljósmynd: Kristín Jóna Guðjónsdóttir.

Anna Svala segir að þótt þau Anders séu búin að innsigla ástina með trúlofun muni þau bíða með að ganga í hjónaband næstu tvö, þrjú, fjögur árin. ,,Okkar langar til að gifta okkur á Ítalíu eða Spáni, allavega á einhverjum heitum stað. Okkur langar til að hóa öllu fólkinu okkar alls staðar að úr heiminum hvenær sem við náum því og halda gott partý! Við viljum hafa þetta alveg súper rómantískt, svona berfætt á ströndinni dæmi væri alveg toppurinn“.

Er fyrirsæta aldarinnar

Anna Svala segir að Anders hafi komið henni algjörlega á óvart með bónorðinu. „Við vorum að fara að heimsækja vini okkar sem voru einmitt fyrsta fólkið sem við heimsóttum á deiti og við erum öll ofsalega góðir vinir. Þau þrjú voru búin að plotta þetta án þess að ég hefði hugmynd um eitt eða neitt. Svo plataði Kristín vinkona mín mig í myndatöku, hún er ljósmyndari og auðvitað álít ég mig vera fyrirsætu aldarinnar, nema hvað, svo ég sagði bara auðvitað“.

- Auglýsing -

Kristín byrjaði að mynda Önnu Svölu og áður en hún vissi var Anders mættur í ljósmyndastúdíóið og kominn á hnén. ,,Mér snarbrá og sagði bara; Já, asninn þinn! JÁ! Og kallaði hann idjót örugglega fjórum sinnum! Ég er alveg ferleg í kjaftinum þrátt fyrir að vera ægilega rómantísk innst inni. Mér brá bara svo svakalega og Kristín ljósmyndari fór í svo mikið panikk á meðan að ég jesúsaði mig fram og tilbaka að veit ekkert hvernig myndatakan fór. Ég þarf að skoða myndirnar betur! Aumingja Kristínu brá jafnvel meira en mér. “ Anna Svala hlær jafnvel meira og það er augljóst að hún er ástfangin og hamingjusöm.

Anna Svala segir Anders hafa viðurkennt að hafa æft bónorðið vel og prófað bæði hnén til að vita hvort kæmi nú betur út. „Hann skalf nú svo mikið af stressi blessaður þrátt fyrir æfinguna að hann kom ekki hringnum á mig, ég þurfti að setja hann sjálf. Svo var hann hann búinn að æfa sig að segja á íslensku; „Anna Svala, viltu gifast mér?“ en það kom reyndar út: „Anna Svala, viltu gifta þig með mér! Það var reyndar voða krúttlegt.“

Fiðrildi og bleik ský

„Þetta er ótrúlega gaman, það eru fiðrildi í maganum og bleyk ský á himni. Við ætlum síðan að fara saman á morgun og velja saman endanlegu hringana okkar. Það er sól og 18 stiga hiti og við ætlum að fara ástfangin og happí saman í hringakaup í góða veðrinu hér í Noregi“.

Ástin blómstrar í Stavanger. Ljósmynd: Kristín Jóna Guðjónsdóttir.

Hún segir þau Anders vega hvort annað upp. „Við erum eitthvað svo átakalaus saman, við virðum það að bæði þurfum við okkar privat tíma en það er líka svo gott að sakna hans þegar ég er úti á palli.

Anders á líka rómantíska hlið

„Þegar ég er búin að eiga erfiðan túr á palli býður mín blómvöndur, lítil freyðivínsflaska og uppáhaldsnammið mitt. Hann er duglegri í þessu en ég sem má alveg taka mig saman í andlitinu í rómantísku deildinni. Hann er bara æði, vinamargur, góður vil fólk og dásamlegur við Tómas son minn. Ég þurfti ekkert að hugsa þetta. Þetta er maðurinn, þessi eini sanni.“

Langar að drepa hann í sturtunni

Anna Svala segir að auðvitað komi móment þegar hún sé korter í að drepa Anders. „Þegar hann syngur í sturtunni! Jesús, hvað hann getur farið í taugarnar á mér þá! En er ekki lífið bara þannig? Kostirnir eru svo langtum þúsund sinnum fleiri en þessir örfáu ókostir.

Þetta er svo dásamlegt. Við erum ótrúlega hamingjusöm,“ segir Anna Svala, okkar kona í Norðursjó.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -