Björk Vilhelmsdóttir var handtekin af ísraelska hernum í síðasta mánuði þegar hún var við ólífutínslu í Palestínu. Hún sat í lögreglubifreið með sex lögreglumönnum og var á leið í yfirheyrslu þegar hún ákvað að hringja í eiginmann sinn, Svein Rúnar Hauksson, og biðja hann að hringja í borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins.
Hún segist vera mjög fegin að lögreglan skyldi ekki taka af þeim símana, annars viti hún ekki hvernig þetta hefði farið.
„Einn lögreglumaðurinn var með vídeómyndavél og tók okkur upp á myndband allan tímann sem við vorum í bílnum, til að ná sönnunum ef við gerðum eitthvað af okkur. Við vorum meðhöndlaðar eins og glæpamenn,“ segir Björk. „En ég var alveg róleg eftir að ég vissi að borgaraþjónustan væri komin í málið. Það eru algjör forréttindi sem við Íslendingar búum við að hafa þessa borgaraþjónustu sem grípur inn í þegar fólk lendir í vandræðum.“
Eftir að komið var á lögreglustöðina var konunum skipað að setjast inn á stóra skrifstofu og þær látnar bíða þar. Björk segir að þeim hafi ekki verið sýnt neitt ofbeldi, en það hafi verið leitað með offorsi í bakpokum þeirra allra.
„Þeir fundu strax vegabréf frönsku kvennanna,“ segir hún. „En ég var með mitt vegabréf í lítilli hliðartösku ofan í bakpokanum og þegar þeir tóku hann tók ég hliðartöskuna upp úr og faldi hana. Það sama gerði Tinna, hin íslenska konan, og enginn þessara lögreglumanna virtist taka eftir neinu. Tinna lenti hins vegar í líkamsleit sem framkvæmd var af þremur lögreglukonum, en setti vegabréfið fyrst í buxnastrenginn meðan leitað var í magabuddunni sem það hafði verið í og síðan ofan í hana aftur. Henni var skipað að fara úr öllu nema nærfötunum á meðan leitað var á henni en þær fundu auðvitað ekki vegabréfið. Þegar þær ætluðu svo að fara að leita í magabuddunni sagði hún þeim að hinir lögreglumennirnir væru búnir að leita í henni svo þær hættu við. Þannig að þetta fór allt vel og okkar vegabréf fundust ekki.“
Áfram var haldið að hóta konunum yfirheyrslum, en þær fengu þó leyfi til að kalla til lögmann sem þurfti að bíða eftir þannig að það dróst.
Á meðan beðið var hringdi ræðismaður Íslands í Ísrael og bað um að fá að tala við einhvern lögreglumanninn en það var bara skellt á hana. Lögreglan sagðist ekki tala við „þetta fólk“. Bannaði Björk að hringja í hana aftur og tók af henni símann.
„Ég var samt róleg,“ segir hún. „Ég vissi sem var að borgaraþjónustan og ræðismaðurinn voru komin í málið og myndu ekki láta stoppa sig. Lögreglan hefur ekki leyfi til að halda fólki lengur en 24 tíma þannig að ég vissi að við yrðum þarna aldrei lengur en það. Við vissum líka að það var ekki hægt að kæra okkur fyrir að vera ekki með vegabréf. Erlent fólk hlýtur borgaralega meðferð í dómskerfinu í Ísrael en Palestínumenn lúta hernaðarlögum. Þeir eru ofurseldir herlögum og á hverjum tíma eru hundruð Palestínumanna í varðhaldi án dóms og laga, allt upp í sex mánuði. Maður er auðvitað glaður yfir eigin forréttindum, en það vekur mann líka til umhugsunar um hvað það er gróflega brotið á Palestínumönnum sem lenda í að vera handteknir.“
Eins og heimtar úr helju
Björk segir að þótt hún hafi ekki verið hrædd þann tíma sem hún sat í varðhaldinu þá sé það skrýtin tilfinning að lenda í þessari stöðu. Eftir þrjá tíma var þeim tilkynnt að búið væri að taka ákvörðun um að láta þær lausar með því skilyrði að þær lofuðu að fara aldrei aftur inn á hernaðarlega lokað svæði. Þær lofuðu að reyna sitt besta til þess og voru þar með reknar út á götu og sagt að reyna að ná strætó til baka. Þá fyrst varð Björk dálítið hrædd.
„Þá stóðum við þarna inni í miðri landtökubyggðinni Ariel, þar sem búa um hundrað þúsund manns og við vissum ekkert á hverju við ættum von. Það var alveg augljóst af útganginum á okkur að við vorum að koma úr ólífutínslu og fólk horfði á okkur með mjög skrýtnu augnaráði. Ég veit að þetta fólk er mjög óvinveitt Palestínumönnum og við áttum alveg eins von á að ráðist yrði á okkur. Við fórum í strætó og ég spurði bílstjórann hvort hann færi út fyrir landtökubyggðina. Þá spurði hann mig hvort ég talaði arabísku og þegar ég jánkaði því, að ég kynni smáhrafl í henni, sagði hann mér að hafa ekki áhyggjur, hann væri Palestínumaður og myndi passa að ekkert kæmi fyrir okkur.
Það var mjög notaleg tilfinning að finna að við vorum komnar í öruggar hendur.
Eftir að við komum út úr strætisvagninum hringdi ég í leigubílstjóra úr þorpinu okkar sem tók afskaplega fallega á móti okkur, enda búinn að frétta af handtökunni og lét eins og við værum heimtar úr helju og sama gerðu aðrir þorpsbúar sem flykktust til okkar um kvöldið. Við reyndum að útskýra fyrir þeim að við hefðum aldrei verið í hættu, þetta væri ekki það sama og þegar Palestínumenn eru handteknir. Það er auðvitað eingöngu að þakka okkar vestrænu vegabréfum og borgaraþjónustunni, sem breytir í rauninni öllu og ég get ekki þakkað og dásamað eins og vert væri.“
Lestu viðtalið í heild í nýjasta tölublaði Mannlífs.
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarmeistari Yves Saint Laurent á Íslandi