Annalísa Jansen lést í morgun vegna COVID-19, 80 ára að aldri. Annalísa skilur eftir sig fjögur börn, ellefu barnabörn auk barnabarnabarna.
Fréttablaðið greindi frá nafni Önnulísu. Dóttir Önnulísu, Anna Margrét Ólafsdóttir og dóttir hennar, Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, minnast Önnulísu með færslum á Facebook og gáfu Mannlíf góðfúslegt leyfi til að deila minningarorðum sínum.
Ragnheiður Ásta Pétursdóttur barnabarn Önnulísu minnist ömmu sinnar með eftirfarandi orðum:
„Í morgun kvaddi elsku amma Lísa. Hún fékk covid-19 og um tíma leit út fyrir að hún væri á batavegi en svo breyttist það skjótt og síðustu daga var ljóst að það stefndi í þetta. Amma varð tæplega 81 árs. Hún var dagmamma í fjölda ára og endaði svo starfsævi sína á leikskóla, endalaust barngóð og ljúf og góð.
Ég var heppin og bjó í næsta húsi við þau afa frá níu ára aldri og naut þess að líta við eftir skóla langt fram á unglingsár – fá kaffitíma, hjálpa til með dagmömmubörnin, spjalla og jafnvel spila smá Nintendo með ömmu. Ég er endalaust þakklát fyrir tímann með henni og fyrir að börnin mín fengið tækifæri til að kynnast yndislegu langömmu sinni.
Ég er líka óendanlega þakklát fyrir englana á A6 sem vöktu yfir henni í þessum erfiðu aðstæðum og sinntu henni af einstakri hlýju, horfðu með henni á snöpp sem við sendum til hennar og hjálpuðu henni að hringja eitt óvænt stórfjölskyldumyndsímtal áður en henni fór að versna. Þau klæddu okkur líka í geimgallana og hughreystu okkur þegar við fengum eitt og eitt að koma inn á deildina til að kveðja í þessum súrrealísku aðstæðum, gerðu sitt allra besta og rúmlega það í glötuðum aðstæðum.
Þessi veira er ömurleg og verður að taka alvarlega, haldið ykkur heima og gerið það sem á og þarf að gera til að halda áfram að tækla þennan faraldur! Bústaður, bíltúr, kaffiboð og það allt má bíða. Ég vildi óska að við fjölskyldan gætum hist í dag og knúsast og rifjað upp góðar minningar en það er bara ekki í boði eins og er svo ég knúsa bara krakkana og minnist elsku bestu ömmu hér heima.“
„Það eru margir sem munu minnast elsku mömmu með mikilli hlýju og kærleika.“
Anna Margrét Ólafsdóttir, dóttir Önnulísu, móðir Ragnheiðar, minnist móður sinnar sömuleiðis og segist gríðarlega þakklát fyrir að hafa haft hana hjá sér í tæp 60 ár. „Nú þegar ég sit hér heima með kveikt á kerti fyrir hana og borða kruður að dönskum sið eins og mamma gerði hvern einasta dag birtast alls konar minningabrot úr æsku sem ylja strax og munu gera áfram. Mamma helgaði líf sitt börnum og vissi fátt betra en að hafa barnahóp í kringum sig. Pabbi var sjómaður og oft lengi í burtu þannig að hún sá að miklu leyti ein um uppeldið á okkur systkinunum og við vorum alltaf í fyrsta sæti hjá henni, þá og alla tíð,“ segir Anna Margrét.
Annalísa var dagmóðir þegar Anna Margrét ólst upp og segir hún ófá börn hafa notið kærleika og hlýju móður sinnar, sem átti síðan farsælan starfsferil á leikskólanum Skógarorg þar til hún á eftirlaun. „Það eru margir sem munu minnast elsku mömmu með mikilli hlýju og kærleika.“
Annalísa lá í tæpar þrjár vikur á A6 með sjúkdóminn og leit út fyrir í síðustu viku að hún væri að sigra baráttuna og jafnvel talað um útskrift.
„Hún fékk hins vegar um helgina hjartaáfall sem var of alvarlegt fyrir veikan líkamann og við tók líknandi meðferð.“
Þakklát fyrir að geta kvatt
Þakkar Anna Margrét starfsfólkinu á A6 fyrir störf þeirra og að hafa gert allt sem þau gátu til að gera henni og öðrum fjölskyldumeðlimum kleift að kveðja Önnulísu.
„Það er búið að vera erfitt fyrir okkur í fjölskyldunni að þurfa að kveðja mömmu í þessum sturluðu aðstæðum og geta ekki verið hjá henni síðasta spölinn nema stutta stund í einu en starfsfólkið á A6 hefur gert allt sem í þeirra valdi stendur og rúmlega það til að gera þetta bærilegra þrátt fyrir að klárlega hafi það aukið álagið á deildinni sem er gríðarlegt fyrir. Við fengum að koma í heimsókn og upplifunin mín var eins og ég væri aukaleikari í hryllingsmynd bíðandi eftir „cut“ skipun frá leikstjóranum þegar ég gekk inn í rýmið þar sem smitaðir einstaklingar voru. Ég vona heitt og innilega að sem fæstir aðstandendur þurfi að kveðja sína nánustu við þessar aðstæður,“ segir Anna Margrét.
„Við þurftum að sjálfsögðu að vera í fullum hlífðarbúningi eins og starfsfólkið og það var erfiðara og mun óþægilegra en ég hefði nokkurn tímann getað ímyndað mér og mjög streituvaldandi. Ég átta mig nú mun betur á aðstæðunum sem starfsfólkið vinnur við allan sólarhringinn og sendi því mínar hlýjustu kveðjur og þakklæti.“
Kvaddi móður sína hinstu kveðju í gegnum myndspjall
Anna Margrét segir að með aðstoð tækninnar hafi fjölskyldan getað haldið sambandi við móður hennar, en þær kvöddust hinstu kveðju í gærkvöldi í gegnum myndspjall á Facebook.
„Nútímatæknin gerði það að verkum að við náðum að halda fjarsambandi sem ég veit að gladdi mömmu mikið. Á kvöldin var Snapchat skoðað með henni en við vorum dugleg í fjölskyldunni að senda henni kveðjur á þann hátt. Eitt kvöldið fengum við facebook myndspjall og gátum séð mömmu og spjallað við hana í góða stund. Í gærkvöldi fékk ég að kveðja mömmu í gegnum facebook myndspjall og var það mér ómetanlegt.“
Þakklát starfsfólki A6
„Við fjölskyldan erum starfsfólki A6 gríðarlega þakklát og vitum að elsku mamma var þar í góðum og hlýjum höndum. Ég þakka elsku mömmu fyrir árin 60 og er viss um að elsku Pétur minn, pabbi, Stella systir hennar og svo mormor og morfar hafi tekið vel á móti henni í sumarlandinu. Það er erfitt að við afkomendur mömmu getum ekki verið saman, hughreyst og knúsað hvert annað en aðstæðurnar í samfélaginu í dag eru óraunverulegar og fordæmalausar og koma í veg fyrir það sem verður erfitt en við munum engu að síður komast í gegnum þetta saman því við erum mjög náin og samrýnd fjölskylda. Guð geymi elsku bestu mömmu mína og gefi okkur sem syrgjum hana æðruleysi og styrk,“ segir Anna Margrét.
Mannlíf vottar ættingjum og vinum Önnulísu innilega samúð.