Aftakaveður verður á landinu seinnipartinn í dag og á morgun samkvæmt spá Veðurstofunnar. Appelsínugul viðvörun hefur verið gefin út fyrir Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra.
Samkvæmt spá Veðurstofunnar mun veður fara versnandi í kvöld og í nótt, fyrst á stormurinn að ganga yfir á Suðurlandi en búist er við að austan- og norðaustanátt fari í 20-28 metra á sekúndu.
Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, meðal annars undir Eyjafjöllum þar sem vindhviður eiga að fara í allt að 40 metra á sekúndu. Útlit er fyrir él með takmörkuðu skyggni og hvassviðri og verða slæm akstursskilyrði um mest allt landið og ekkert ferðaveður meðan á því stendur.
Á höfuðborgarsvæðinu skellur á með norðaustan hríð seinnipartinn í dag. Á Austurlandi verður norðaustanátt í nótt 18-25 metrar á sekúndu og talsverð snjókoma með lélegu skyggni. Spáð er að veðrið gangi niður þar um kl. 15 á sunnudag.
Á Vesturlandi er í dag 18-25 m/s og snarpar vindhviður við fjöll. Varasamt er fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Búast má við éljum eða skafrenningi með takmörkuðu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum. Bæta mun í storminn í nótt og getur vindur farið í 20-28 m/s. Veðrinu mun ekki slota á Vestfjörðum fyrr en aðfararnótt mánudags samkvæmt spá veðurfræðings en veðrið byrjar að ganga niður að mestu leyti á landinu seinni partinn á morgun og aðfararnótt mánudags þegar fer aftur að hlýna.