Íslandsmeistarar Breiðabliks spila heimaleik í Árbæ – þar sem Fylkismenn spila sína heimaleiki.
Því verður leikur Breiðabliks og Fram í Bestu deild karla, næsta föstudag, 28. apríl, spilaður á Würth-vellinum, heimavelli Fylkis í Árbæ.
Kemur þetta fram á vef KSÍ í dag.
Nú eru framkvæmdir að hefjast á Kópavogsvelli þar sem skipt verður um gervigras; til þess að uppfylla kröfur UEFA, Evrópska knattspyrnusambandsins, fyrir Evrópukeppni.
„Við báðum Fram um að víxla á heimaleikjum og Framarar voru ekkert nema almennilegheitin og tilbúnir til þess. Mótanefnd KSÍ hafnaði hins vegar beiðni okkar um að skipta á heimaleikjum með þeim rökum að þar sem við eigum útileiki núna í kringum Framleikinn, að þá hefðum við fengið óeðliega marga heimaleiki í röð síðar í sumar að þeirra mati,“ sagði Eysteinn Pétur Lárusson framkvæmdastjóri Breiðabliks í samtali við RÚV.