Hún segir lykilatriði að bankarnir sýni almenningi svigrúm og skilning, sérstaklega þeim sem eiga erfitt með að ná endum saman, vegna atvinnumissis vegna faraldursins.
Aðspurð hvernig þetta verði tryggt minnir forsætisráðherra á að viðskiptaráðherra hafi sagt að hún ætli að eiga samtal við forsvarsmenn bankanna.
Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra hefur talað um að mögulega ætti að endurvekja bankaskattinn ef bankarnir finna ekki leið til að nýta hluta mikils hagnaðar til að létta undir með heimilum, sérstaklega tekjulágra og ungs fólks og fyrirtækjum. Forsætisráðherra vill að bankarnir taki þátt í enduruppbyggingunni. Þeir skili nú miklum arði.
„Þá vil ég rifja það upp að Landsbankinn er að fullu í eigu ríkisins og Íslandsbanki í meirihlutaeigu ríkisins, að þessar arðgreiðslur núna verði nýttar i mikilvægar félagslegar aðgerðir til þess að takast á við uppbygginguna að loknum faraldri og ég held að það sé mikilvægt að þessar arðgreiðslur verði að hluta nýttar til þess,“ segir Katrín Jakobsdóttir.