Sæborg Ninja Guðmundsdóttir og Úlfar Viktor Björnsson hafa verið beitt ofbeldi fyrir að vera hinsegin.
Hinsegin dagar eru í fullum gangi, bærinn iðar af lífi og litum og allir brosa út að eyrum. Á morgun munu, ef að líkum lætur, þúsundir fólks safnast saman í miðbænum til að fylgjast með Gleðigöngunni árlegu sem orðin er í huga margra að hápunkti sumarsins. En erum við komin eins langt í réttindum hinsegin fólks og gjarna er haldið fram?
Svarið við því er blákalt nei samkvæmt Sæborgu Ninju Guðmundsdóttur og Úlfari Viktori Björnssyni, sem eru í viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur út á morgun.
Sem hinsegin fólk upplifa Sæborg og Úlfar niðrun og áreiti nánast alla daga ársins og bæði hafa þau lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera þau sjálf. Í viðtalinu segjast þau vilja leggja áherslu á að gangan sé ekki einungis til að fagna áunnum réttindum heldur ekki síður til þess að minna á hve langt er í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir.
Mynd / Hákon Davíð Björnsson