Sæborg Ninja Guðmundsdóttir og Úlfar Viktor Björnsson segja enn langt í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir á Íslandi þótt staðan hafi batnað síðustu ár. Sjálf upplifa þau áreiti nánast alla daga ársins og hafa lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera hinsegin.
Hinsegin dagar eru í fullum gangi, bærinn iðar af lífi og litum og allir brosa út að eyrum. Á morgun munu, ef að líkum lætur, þúsundir fólks safnast saman í miðbænum til að fylgjast með Gleðigöngunni árlegu sem orðin er í huga margra að hápunkti sumarsins. En erum við komin eins langt í réttindum hinsegin fólks og gjarna er haldið fram? Svarið við því er blákalt nei samkvæmt viðmælendum Mannlífs, Sæborgu Ninju Guðmundsdóttur og Úlfari Viktori Björnssyni. Sem hinsegin fólk upplifa þau niðrun og áreiti nánast alla daga ársins, bæði hafa þau lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera þau sjálf og þau vilja leggja áherslu á að gangan sé ekki einungis til að fagna áunnum réttindum heldur ekki síður til þess að minna á hve langt er í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir.
Persónuhelgi fólks sem er „öðruvísi“ ekki virt
Sæborg Ninja Guðmundsdóttir kom út sem trans kona fyrir einu og hálfu ári og hefur síðan upplifað hótanir um ofbeldi, ágengar spurningar frá fólki sem hún þekkir ekki neitt, óumbeðnar athugasemdir um útlit sitt, óviðeigandi snertingar og það hefur verið hrópað á eftir henni út á götu. Hún segir trans fóbíu grasserandi í samfélaginu og svo virðist sem fólk almennt virði ekki persónurými trans fólks. Ofbeldið hófst um leið og hún fór að tala um það við þáverandi vin sinn að henni fyndist henni ekki hafa verið úthlutað réttum líkama.
„Þetta byrjaði fyrir nokkrum árum í samræðum við mann sem er ekki lengur vinur minn,“ útskýrir Sæborg. „Við vorum í svona transhúmanískum pælingum og ég lét í ljós þá ósk að fá nýjan líkama sem mér fyndist passa mér. Hann spurði þá strax hvað ég myndi gera ef hann gæfi mér þennan nýja líkama og myndi síðan binda mig niðri í kjallara og nauðga mér? Ég reyndi að komast út úr þessum samræðum, fannst þetta ógeðslegt, en hann hélt áfram að suða og spyrja hvað ég myndi gera í því? Ég var mjög sjokkeruð en þegar ég sleit þessum vinskap og sagði örfáum öðrum vinum frá þessu þá trúðu þeir mér ekki. Þetta varð til þess að ég dró það í ár að koma út úr skápnum.“
Sæborg segist lengi hafa vitað að hún væri ekki í réttu hlutverki en það hafi tekið hana langan tíma að fá leyfi hjá sjálfri sér til að sættast við það og koma út. Það gerði hún loks þegar hún var þrítug og viðbrögð umhverfisins voru ekki jákvæð.
„Ég hef jafnvel lent í því á daginn þegar ég er að ganga niðri í bæ að ókunnugt fólk kemur upp að mér og fer að káfa á mér.“
„Foreldrar mínir hættu eiginlega bara að tala við mig,“ segir hún. „Ég hef ekki farið í heimsókn til þeirra í meira en ár og ekkert heyrt í mömmu en pabbi lætur í sér heyra af og til. Yngri systir mín var hins vegar alveg sátt við þetta og sömuleiðis sonur minn sem er fjórtán ára. Ég var mest stressuð að tala um þetta við hann en hann kippti sér ekkert upp við það, spurði bara hvort við ættum ekki að fara að horfa á DVD.“
Hrædd við að fara út
Sæborg er ekki á því að umræðan um það hvað allt sé æðislegt í málefnum hinsegin fólks á Íslandi eigi við rök að styðjast. Stuttu eftir að hún kom út varð hún til dæmis fyrir tilraun til niðurkeyrslu skammt frá heimili sínu í Breiðholtinu.
„Ég var að ganga heim að kvöldlagi þegar strákar á vespu keyrðu alveg upp að mér og reyndu að sparka mig niður. Sem betur fer hittu þeir ekki almennilega en ég átti mjög erfitt með að fara út á kvöldin lengi eftir þetta. Það er svo erfitt að eiga von á svona árásum frá tilfallandi fólki í nánasta umhverfi manns.“
Sæborg segist líka löngu vera hætt að fara niður í bæ á kvöldin, hvað þá á djammið.
„Meira að segja á skemmtistöðum sem gefa sig út fyrir að vera vinsamlegir hinsegin fólki verður maður fyrir alls kyns óviðeigandi framkomu. Fólk sem kemur upp að manni á barnum og tilkynnir manni að maður sé fáránlegur, eða eitthvað þaðan af verra, upp úr þurru. En það er ekki bara bundið við skemmtistaðina, ég hef jafnvel lent í því á daginn þegar ég er að ganga niðri í bæ að ókunnugt fólk kemur upp að mér og fer að káfa á mér. Það virðir ekki persónuhelgina þegar transfólk á í hlut. Ég var alltaf opin og til í að spjalla við fólk þótt ég þekkti það ekki en núna fer ég ekki út án þess að vera með sólgleraugu og heyrnartól og gefa rækilega til kynna að ég vilji engin samskipti.“
„Fólk vill bara tala um kynfærin á mér“
Stuðningsnetið í kringum Samtökin ’78 hefur reynst Sæborgu vel og hún segist ekki vita hvar hún væri stödd andlega án þess. En vantar ekki meiri fræðslu um málefni trans fólks úti í samfélaginu?
„Ég held að fræðsla eins og í kynjafræði í grunnskólum sé svakalega gott fyrsta skref,“ segir Sæborg. „En því miður finnst mér miðað við mín samskipti við fólk að það bara vilji ekki læra. Það myndi skemma þá afmennskandi umræðu sem er í gangi að kynna sér málið. Það er til dæmis endalaust ergjandi að fyrir stóran hóp fólks virðist það að vera trans eingöngu snúast um kynfæri. Ég veit ekki hversu oft ég hef fengið spurninguna hvað ég ætli að gera við typpið, eins og það sé það eina sem skiptir máli. Fólk spyr mig ekki hvernig mér líði, hvernig hafi gengið, hverju það að koma út hafi breytt fyrir mig, það vill bara tala um kynfærin á mér. Það er svakalega ergjandi og ótrúlega mikil tilfinningaleg orka fer í það eitt að reyna að útskýra hvers vegna þetta er óviðeigandi spurning. Fólk fer í vörn og segist bara vera forvitið, en leiðir ekki hugann að því að það myndi aldrei spyrja sískynja ókunnuga manneskju um kynfærin á henni [innskot blaðamanns: sís er lýsingarorð og forskeyti sem er notað um fólk sem upplifir sig á þann hátt að það tilheyri því kyni sem því var úthlutað við fæðingu, heimild www.otila.is]. Af því að ég er „öðruvísi“ virðast almennar umgengnisvenjur ekki gilda um mig.“
Margir gefast hreinlega upp
Spurð hvernig henni finnist heilbrigðiskerfið standa sig gagnvart transfólki dregur Sæborg við sig svarið.
„Fólkið í trans teymi Landspítalans gerir sitt besta og þar er margt gott fólk, en löggjöfin er enn þá fáránleg. Það er náttúrlega ótrúlegt að það skuli enn þá þurfa að fara í geðmat hjá geðlækni áður en okkur er leyft að hefja meðferð. Það er löngu búið að fjarlægja það úr öllum viðurkenndum læknatímaritum að það að vera trans sé geðsjúkdómur, en það er enn stefnan hérlendis. Það væri mikill munur ef þeim lögum væri breytt. Ég hitti yfirlækninn í trans teyminu tvisvar og spurningarnar sem ég fékk snerust aðallega um nærfötin mín og kynlíf mitt, á meðan hann strauk á sér lærin. Það er engan veginn efst í mínum huga en ég held að þetta sé einhver arfur frá transsexúalismanum sem er auðvitað löngu úrelt viðmið. Ég get auðvitað ekki talað út frá reynslu annars fólks en ég hef heyrt svipaðar sögur frá öðrum. Og til þess að gera þetta enn erfiðara þá þarf þessi sami geðlæknir að gefa sitt samþykki fyrir öllu sem ég fer í gegnum í meðferðinni. Hann er enn hliðvörður kerfisins og getur neitað fólki um meðferð eftir því sem honum sýnist. Það er ógnvekjandi og ég held að þeir sem eru ekki nógu duglegir að berjast fyrir því að fá að halda áfram í ferlinu lendi oft í því að gefast hreinlega upp. Ég hef til dæmis þurft að hringja mörgum sinnum til að ítreka beiðnir um næstu skref í meðferðinni, ef ég hefði ekki gert það væri ég enn á byrjunarreit.“
„Ég ætla ekki að móðga þig en …“
Úlfar Viktor Björnsson hefur, líkt og Sæborg, verið beittur ofbeldi en hann komst í fréttirnar í vetur þegar alls ókunnugur maður barði hann úti á götu fyrir það eitt að vera hommi. Hann var á gangi yfir gangbrautina í Lækjargötu þegar maður sem hann hafði aldrei séð vatt sér að honum og spurði hvort hann væri hommi. Þegar Úlfar svaraði játandi gerði maðurinn sér lítið fyrir og kýldi hann með krepptum hnefa í andliti. Úlfar ákvað að kæra ekki, þessi maður ætti greinilega bágt, en hvernig hefur honum liðið síðan og hver voru viðbrögð umhverfisins við umfjölluninni um ofbeldið? Hafði atburðurinn einhver langvarandi áhrif?
„Nei, ég get ekki sagt það,“ svarar Úlfar, en hugsar sig svo um. „Í svona tvo mánuði eftir á var ég dálítið á varðbergi þegar ég var einn úti að ganga í miðbænum, en það er búið. Ég fékk aðallega góð viðbrögð við umfjölluninni, þótt auðvitað væru alltaf einhverjir inn á milli sem spurðu hvers vegna ég hefði ekki bara mannað mig upp og kýlt hann til baka og að ég væri bara að væla í fjölmiðlum sem væri engin ástæða til af því við værum komin svo langt í réttindamálum hinsegin fólks.“
Úlfar segir ástæðu þess að hann sagði frá þessu í fjömiðlum vera þá að hann hafi langað til að fólk gæti dregið lærdóm af atvikinu.
„Ég hélt sjálfur að svona gerðist ekki í dag og var alls ekki viðbúinn því að lenda í einhverju svona,“ segir hann. „Ég ákvað að kæra manninn ekki, þar sem hann er greinilega á vondum stað í lífinu en ég vildi vekja athygli á því að þetta er veruleiki sem samkynhneigðir á Íslandi búa við enn í dag.“
Alltaf orðið fyrir skítkasti
Úlfar segir atvikið hafa verið það fyrsta þar sem hann var beittur líkamlegu ofbeldi, en andlegt ofbeldi og áreiti hafi alltaf verið nánast daglegt brauð.
„Maður er alltaf að fá eitthvað skítkast frá fólki sem samþykkir mann ekki eins og maður er,“ útskýrir hann rólegur. „Það hefur alltaf verið þannig. Í grunnskóla þurfti maður alltaf að vera með brynju, þótt ég væri ekki kominn út á þeim tíma var engin miskunn gefin. Þar er maður kallaður öllum illum nöfnum fyrir að vera „stelpustrákur“.
Úlfar kom ekki út úr skápnum fyrr en hann var nítján ára, en ástæða þess var meðal annars sú að hann var sem skiptinemi í kaþólskum drengjaskóla í Argentínu og þar var ekkert svigrúm gefið fyrir samkynhneigða.
„Það hefði ekki verið tekið vel í það í því umhverfi,“ segir hann og hlær. „Þannig að ég kom ekki út fyrr en eftir að ég kom aftur heim árið 2012.“
Fékk þau komment að hann ætti ekki skilið að vera til
Spurður hvað honum finnist um frasann vinsæla að Ísland sé komið svo langt í réttindamálum hinsegin fólks að engin ástæða sé fyrir það að kvarta, hristir Úlfar höfuðið.
„Við erum svo föst í því að við séum komin svo langt miðað við aðrar þjóðir að fólk sem er ekki mikið að pæla í þessu sér ekki fordómana sem eru til staðar. Þeir eru svo lúmskir og birtast á stöðum sem almenningur sér ekki. Við erum að dragast aftur úr öðrum þjóðum akkúrat núna og ég held að það sé meðal annars vegna þess að við erum svo gjörn á að leiða hluti hjá okkur. Það eru meira að segja fordómar innan hommasamfélagsins sjálfs. Þegar maður fær þessi endalausu komment um það hvað maður er lítils virði fer maður að trúa því sjálfur og efast um sjálfan sig. Ég get nefnt þér nýlegt dæmi. Ég var að vinna í félagsmiðstöð þar sem einn af drengjunum kom út úr skápnum og er alveg opinn með það en fékk endalaust af niðrandi kommentum og skilaboðum. Hann kannski póstaði mynd af sér máluðum á Instagram og fékk þau komment að hann væri ógeðslegur og ætti að drepa sig, hann ætti ekki skilið að vera til og svo framvegis. Hann sagði við mig að þegar hann fór lengst niður hafi hann verið farinn að trúa því sjálfur að þetta væri satt og hann ætti ekkert erindi í þessum heimi. Hann er þrettán ára gamall og þú getur ímyndað þér hvernig svona komment fara með hann. Þetta er það sem almenningur sér ekki. Við erum vissulega komin langt miðað við hvar við vorum fyrir tíu til tuttugu árum en það eru bara komnir aðrir tímar og fordómarnir birtast á öðrum stöðum en þá. Það er hægt að fela þá í gegnum tölvuna og fólk virðist halda að það geti sagt hvað sem er á meðan tölvuskjárinn skýlir því. Þetta er alls ekkert einsdæmi, þetta er að gerast alls staðar í kringum okkur í dag. Því miður.“
Af hverju er móðgun að vera ég?
Sjálfur segist Úlfar enn verða fyrir niðrandi athugasemdum við öll möguleg tækifæri og allir sem hann þekki í hinsegin samfélaginu hafi sömu sögu að segja.
„Jafnvel velviljaðasta fólk opinberar fordóma sína þegar það setur fyrirvara á spurninguna um það hvort maður sé samkynhneigður. „Ég ætla ekki að móðga þig, en ertu hommi?“ Af hverju ætti þessi spurning að vera móðgandi? Af hverju er það móðgun að vera það sem ég er? Það er þessi fyrirvari sem er móðgandi. Ég fékk þessa spurningu oft áður en ég kom út, en neitaði alltaf, og kannski var þetta viðhorf partur af því hvað ég dró það lengi að koma út úr skápnum. Ég var hræddur við þessa fordæmingu umhverfisins.“
„Ég var að vinna í félagsmiðstöð þar sem einn af drengjunum kom út úr skápnum … Hann póstaði mynd af sér máluðum á Instagram og fékk þau komment að hann væri ógeðslegur og ætti að drepa sig.“
Úlfar vinnur sem þjónn, er í sálfræðinámi í HR, er á leið í nám í förðunarfræðum auk þess að vinna annað slagið á félagsmiðstöðvum fyrir unglinga, bæði í Samtökunum ’78 og annars staðar. Hann segist alltaf vera mjög opinn um samkynhneigð sína og honum finnist eiginlega vanta fleira fólk sem sem vill fræða umheiminum um veröld hinsegin fólks.
„Já, ég held við þurfum miklu meiri fræðslu um þessi mál,“ segir hann ákveðinn. „Ég er alltaf tilbúinn að svara spurningum og deila minni reynslu ef fólk hefur áhuga og ég held við þurfum að vera vakandi fyrir því að umræðan deyi ekki út í þessum draumi um hvað allt sé gott fyrir hinsegin fólk á Íslandi. Það er hættulegast.“
Vonandi staðnar umræðan ekki
Gleðigangan er í augum margra fyrst og fremst fjölskylduhátíð og fögnuður, sem Úlfar segir vera stórkostlegt, en hann er á því að hún þurfi líka að standa fyrir annað og meira.
„Fólk sem ekki er tengt hinsegin samfélaginu áttar sig kannski ekki á því hversu stutt við erum komin í baráttunni, þannig að Hinsegin dagar og Gleðigangan skipta gríðarlegu máli. Við erum að berjast fyrir mannréttindum okkar, að fá þau virt eins og allir aðrir samfélagsþegnar. Það er ekki þannig í raun. Fólk er enn þá slegið úti á götu og úthúðað fyrir að vera ekki gagnkynhneigt, sem er alveg fáránlegt að viðgangist enn árið 2018. Þess vegna er full ástæða til að halda þessa göngu. Við erum ekki bara að fagna því að vera komin þetta langt, við erum líka að vekja athygli á ástæðunum fyrir því að við þurfum þessa göngu. Ég vona að ég lifi þann dag sem við þurfum ekki á þessari göngu að halda og ég er bjartsýnn á það. Vonandi bara staðnar umræðan ekki það mikið að við drögumst enn meira aftur úr, vonandi höldum við áfram að vinda upp á þessa jákvæðu þróun. Við þurfum svo sannarlega á því að halda.“
Sæborg er virk í baráttumálum transfólks, er gjaldkeri TransÍslands, og hún ætlar að sjálfsögðu að taka þátt í Gleðigöngunni. En finnst henni þessi ganga enn þá þjóna tilgangi sínum?
„Ég held það, já,“ segir hún hugsi. „Þessar göngur byrjuðu auðvitað sem mótmæli gegn misrétti sem hinsegin fólk er beitt og það er enn í gangi. Mér finnst líka gott að geta fagnað þeim árangri sem hefur náðst, þrátt fyrir allt. Það er mikilvægt vegna þess að það er svo auðvelt að missa dampinn þegar maður einblínir bara á það sem eftir er að sigrast á, en ég held það sé líka mikilvægt að göngurnar haldi áfram að vera mótmæli og hjálpi til við að vekja athygli á því misrétti sem við verðum enn fyrir. Kerfið á Íslandi er transfóbískt í eðli sínu og við þurfum að gera allt sem við getum til að vekja athygli á því og berjast gegn því.“
________________________________________________________________
Raunveruleg staða Íslands í réttindum hinsegin fólks
Goðsögnin um Ísland sem hinsegin útópíu er lífseig en á hún við rök að styðjast? Á regnbogakorti ársins er Ísland í 18. sæti yfir þau lönd sem best standa sig í að þoka réttindamálum hinsegin fólks áfram og hefur ekki haldið í við nágrannalöndin, ekki síst hvað varðar réttindi transfólks og intersex-fólks.
Myndir / Hákon Davíð Björnsson