Á sumarmánuðum árið 1989 lést sjö ára drengur, Bjarmar Smári Elíasson, þegar hann drukknaði í Glerá. Var talið að um slys væri að ræða. Tæpu ári síðar drukknaði annar sjö ára drengur, Hartmann Hermannsson einnig í Glerá. „Ég kastaði upp, mér brá svo mikið. Þá vissi ég að Bjarmar hefði verið drepinn. Þetta gat ekki verið tilviljun,“ sagði Bjarnheiður Ragnarsdóttir, móðir Bjarmars síðar.
Lögreglan hóf fljótlega rannsókn og kom í ljós að gerandinn var einnig barn að aldri, aðeins ellefu ára gamall. Hann hafði drekkt drengjunum. Hann heitir Ari.
Morðin á Bjarmari og Hartmanni eru einhverjir þeir sorglegustu og óhugnanlegustu atburðir sem átt hafa sér stað á Íslandi í seinni tíð. Ekki var fjallað mikið um þessa atburði á sínum tíma, svo skelfilegir þóttu þeir.
Ratleikur sem leiddi til dauða
Bjarmar fékk leyfi hjá móður sinni til að hjóla niður að Glerá ásamt tveimur eldri drengjum. Taldi móðir hans það vera öruggt þar sem eldri drengirnir myndu hafa auga á Bjarmari. Hún sá drenginn sinn aldrei á lífi aftur. Sagan endurtók sig tæpu ári síðar. Sólveig Austfjörð Bragadóttir fékk símtal frá skólanum. Hartmann, sjö ára sonur hennar, var týndur. Hún hóf strax leit en hann var hvergi að finna. Hann fannst drukknaður í Glerá.
Lát Harmanns þótti grundsamlegt og hóf lögregla rannsókn á báðum dauðsföllum. Það þótti vart geta verið tilviljun að sami drengurinn, Ari, hefði tvisvar orðið vitni að drukknun smádrengja af hreinni slysni. Ari var yfirheyrður og viðurkenndi að bera ábyrgð á dauða Bjarmars og Hartmanns. Hafði hann búið til ratleik sem miðaði að því að koma drengjunum niður að ánni.
Enginn trúði Braga
Það sem sárast þótti var að ef til vill hefði verið unnt að koma í veg fyrir seinna morðið þar sem Bragi Bragason, skólafélagi Ara, sagði lögreglu á sínum tíma að Ari hefði trúað honum fyrir því að hann hefði kastað dreng í Glerá. Bragi var hins stimplaður vandræðapiltur og tóku yfirvöld ekki mark á honum. „Það var bara hlegið að mér, ekki tekið mark á neinu sem ég sagði,” sagði Bragi síðar.
Fjölskyldur Bjarmars og Hartmanns gengu í gegnum skelfilega tíma í kjölfarið. Engin var áfallahjálpin eða sálfræðiaðstoðin á þessum tíma né var um fjárhagsaðstoð að ræða. Sólveig, móðir Hartmanns rifjaði það síðar upp að hún hefði þurft að jarðsetja sjö ára gamalt barn sitt án nokkurrar aðstoðar frá hinu opinbera. Bjarnheiður, móðir Bjarmars, var ekkja með einn annan dreng sem tók fráfall bróður síns afar nærri sér. Líf fjölskyldnanna var markað af sorginni og töldu þær að mun meiri áhersla hefði verið lögð á að vernda gerandann en fjölskyldur fórnarlambanna.
Skelfieg barnæska
Það kom í ljós að Ari hafði átt skelfilega barnæsku, fulla af líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi. Misnotkunin og ofbeldið hófst áður en Ari varð sjö ára. Eitt skiptið fanns hann að næturlagi, fáklæddur og ráfandi, talsvert fjarri heimili sínu. Aðspurður í viðtali mörgum árum síðar hvernig hafi staðið á því svaraði hann: „Ég hafði ekki kjark í mér til að fara heim af ótta við barsmíðar.“ Ástandið á heimili fjölskyldunnar var á margra vitorði en yfirvöld brugðust ekki við. Hann var aldrei fjarlægður af heimilinu.
Áður hafði ofbeldishneigð hans gagnvart öðrum börnum ratað inn á borð lögreglu og Félagsmálastofnunar. Ekki þótti ástæða til að grípa í taumana.
Kerfið var illa í stakk búið til að taka á móti Ara eftir morðin. Ekkert þessu líkt hafði nokkurn tíma koma komið inn á borð. Hann var sendur til Reykjavíkur og vistaður á barnageðdeild Landspítalans á Dalbraut í tvö og hálft ár. Hann líkti vistinni á Dalbraut við fangelsi. Eftir það var honum komið fyrir á nýstofnuðu vistheimili, Árbót í Aðaldal, skammt frá Húsavík. Heimilinu var sérstaklega komið á fót til að vista Ara. Var heimilið nokkuð einangrað en þrír kílómetrar voru til næsta bæjar. Þar dvaldi hann til 18 ára aldurs. Að því loknu fór hann aftur út í samfélagið. Það var mæðrunum erfitt, ekki síst að sjá hann í vinsælum íslenskum stefnumótaþætti nokkrum árum síðar.
„Ég drap tvö börn“
„Að hafa tvö líf á samviskunni er mjög erfitt. Það er ekki hægt að lýsa því. Hver sem er náinn mér eða í nánu sambandi við mig þarf að vita sögu mína. Þú getur ímyndað þér hvernig það er fyrir mig að segja fólki sem ég elska að ég hafi drepið börn.“
Í viðtalinu við Pressuna árið 2015 sagðist Ari ekki hafa brotið af sér eftir að hann hélt út í lífið að nýju en fortíðin fylgir honum hvert skref. Hann flutti til Bandaríkjanna í kringum árið 2002. Frá árinu 2008 til 2014 stundaði hann nám sem miðaði að því að aðstoða fólk sem hefur lent í ýmsum áföllum í lífinu, meðal annars heimilis- og kynferðisofbeldi. Sagði hann námið hafa hjálpað honum að takast á við fortíð sína.
„Reyni að fyrirgefa sjálfum mér“
„Ég hugsa mjög oft til drengjanna og þess sem ég gerði. Í hvert sinn sem ég les um eða heyri í fréttum að barn hafi látist fæ ég sting í magann,“ sagði Ari og bætti við: „Ég hugsa um þá í hvert skipti sem einhver talar um móðurást. Það versta sem getur gerst í lífinu er að missa barn, og þegar ég heyri af dauðsföllum, þá kemur þessi sára minning upp í hugann. Þetta gerist nánast hvern einasta dag. Oft vildi ég að foreldrarnir og fjölskyldurnar fyrirgæfu mér og ég gæti fundið leið til að fyrirgefa sjálfum mér. En hvernig get ég ætlast til þess þegar ég get ekki ímyndað mér þann sársauka sem ég olli þeim. Ég hugsa stundum hvort ég muni eignast börn, en partur af mér er hræddur við að ég verði fyrir sömu lífsreynslu.“
„Mér finnst ég eiga skilið að upplifa sömu sorg, þess vegna vil ég ekki eiga börn
Ég vona að sá tími komi að allir þeir sem ég olli sársauka fyrirgefi mér. Og að sá dagur renni upp að mér takist að fyrirgefa sjálfum mér,“ sagði Ari og bætti við: „Ég mun alltaf þurfa að lifa með því sem ég gerði. Það er mín refsing.“