Gísli Már Helgason var 12 ára gamall þegar faðir hans lést af slysförum. Bugaður af sorg fullorðnaðist hann hratt, og fimm árum seinna þegar miðill sagðist vera með skilaboð frá föður hans að handan ákvað unglingurinn að treysta því. Í stað þess að bera skilaboð frá látnum föður segir Gísli miðilinn hafa brotið á sér, og það hafi markað líf hans. Mörgum árum síðar reyndi hann sjálfsvíg og í margar vikur var honum vart hugað líf.
Í viðtali við Mannlíf segir Gísli frá föðurmissinum, dómi yfir geranda, sjálfsvígstilrauninni, og sálarfriðnum og ástinni sem hann býr að í dag.
Lofaði skilaboðum frá látnum föður
Fyrstu kynni Gísla og Þórhalls voru á Siglufirði fyrir tilstuðlan sameiginlegrar vinkonu þeirra. „Ég þekkti hana frá Siglufirði og hún þekkti Þórhall, og hann var eitthvað fyrir norðan á þessum tíma og hún spurði hvort ég vildi fara til hans,“ segir Gísli, sem ákvað að slá til.
„Ég saknaði pabba, ég náði aldrei að komast yfir sorgina. Og mér fannst þetta rosalega spennandi. Þarna hitti ég Þórhall í fyrsta sinn og ekkert gerðist, en ég myndaði líklega eins konar trúnaðarsamband við hann.“
Haustið 1993 flutti Gísli til móður sinnar í Reykjavík, og eitt sinn þegar hann var staddur í vídeóleigu hitti hann Þórhall. „Þar sagði hann við mig að hann væri með skilaboð frá pabba.“
Gísli fór til fundar við Þórhall, og segir hann hafa brotið á sér á þeim fundi. Gísli sagði engum frá, og segir að skömm og óttinn við álit annarra hafi valdið því að hann þagði, auk þess sem hann vildi ekki særa móðurömmu sína. „Ég held að það sé skömmin sem veldur því að við þolendur segjum ekki frá. Minnimáttarkennd hjá mér og skömm, líka hræðslan við álit annarra. Margir vina minna á þessum tíma litu upp til mín og fannst ég vera aðaltöffarinn. Ég skammaðist mín, mér fannst þetta allt mér að kenna og skömmin óx bara hjá mér. Ef ég fékk mér í glas þá kom atvikið upp á yfirborðið og ég vissi ekki hvernig ég átti að höndla sjálfan mig,“ segir Gísli. „Amma mín sem ég ólst upp hjá, elskaði Þórhall og hlustaði á hann á kvöldin í útvarpinu og ég vildi alls ekki segja henni frá þessu, af því mér fannst að ég myndi þá særa hana. Ég hélt þessu alveg leyndu fyrir henni, það var Inga frænka sem sagði henni frá þessu seinna.“ Gísli segist hafa sagt góðum vini sínum frá málinu ári seinna, eftir að hann kom heim til hans eftir eitthvert fyllirí. „Hann trúði mér ekki og hélt að ég væri bara í algjöru rugli.“
Gísli flutti til Svíþjóðar þegar hann var tvítugur. „Ég flúði land hreinlega og hef verið hérna í 23 ár, hér er mjög fínt að vera,“ segir Gísli. „Ef ég á að segja alveg eins og er, þá hef ég sjaldan heimsótt Ísland, ég var alltaf hræddur um að hitta Þórhall og vissi ekki hvaða afleiðingar það myndi hafa. Ég varð samt að fara stundum. Árið 2009 svipti vinur minn sig lífi og ég fór þá heim í tvær vikur. Og ég veit það, ég var þá alltaf að horfa í kringum mig eftir Þórhalli.“
Árið 2006 sagði Gísli föðursystur sinni, Ingu Sæland, þingmanni og formanni Flokks fólksins, frá málinu. „Hún varð óð yfir þessu, hún er svolítið góð í kjaftinum eins og þú hefur kannski tekið eftir,“ segir Gísli Már brosandi um föðursystur sína. „Við ætluðum á fullu í málið, en svo treysti ég mér ekki til þess að gera neitt. Ég varð eitthvað lítill og ræfilslegur í mér. Árið 2013 fann ég hins vegar að það var komið nóg, og kærði Þórhall. Þá sagði ég góðum vini mínum frá nauðguninni, og hann sagði við mig: „Veistu hvað, Gísli, ef þú hefðir sagt einhverjum frá þessu á þeim tíma sem þetta gerðist, hefði enginn trúað þér. Af því þú varst sterkastur og bestur í öllu.“
Lestu viðtalið við Gísla í Mannlífi.