Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Arnar Eggert: „Stúlkur skila inn afburðaefni og finnst það lélegt – Þetta þarf að breytast“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistardoktorinn Arnar Eggert Thoroddsen ritar afar áhugaverða grein á Stundinni og hefst hún svona:

„Ég var rétt í þessu að skrifa um jóladagatal Akranesbæjar, Skaginn syngur inn jólin, sem er í formi tónlistarinnslaga sem birt eru á Snjáldru (Facebook) jafnt sem í þjónvarpinu (Youtube) þá daga sem leiða upp að jólum. Þetta er heiðarleg og einlæg starfsemi, keyrð áfram af ástríðu og áhuga, og ber með sér notalega samfélagstilfinningu þar sem þeir sem tilheyra einhverjum kjarna leggjast á eitt um að skapa eitthvað sem stendur utan við hópinn og er stærra en þeir.“

Bætir við:

„Á vissan hátt er þetta kjarni tónlistarinnar, hún er meira en við sem búum hana til eða stuðlum að henni, öðlast eigið líf sem svo blæs okkur anda í brjóst. Mig langar til að nota þetta formlega færi sem ég hef til að setja niður hugleiðingar um tónlist, hvernig hún hefur hitt á mig á liðnu ári, hvaða merkingu hún hefur fyrir mig og, já, líka ykkur.“

Arnar Eggert segir að „ég þarf svosem ekki að fara í saumana á því hvaða merkingu hún hefur fyrir mig persónulega. Hún er köllun mín í lífinu, er mér allt. Ég er svo ótrúlega lánsamur að ég hef lifibrauð af því að sinna henni í gegnum hin ýmsu tæki og tól, veri það í leiðsögn, skrifum, kennslu, nefndarstörfum eða útvarpsmennsku. Þetta tiltæki Skagamanna fékk mig til að hugsa um það hversu útbreidd hún er og hversu mikið við sækjum í hana. Í útvarpinu, í tónleikasölum, inni í herbergjum, í sjónvarpinu, í sturtunni – tónlistin er alls staðar. Hún hefur gríðarlegt samfélagslegt gildi og kannski af því að þetta er svo sjálfsagt mál í okkar huga eigum við til að gleyma því að hún verður ekki til úr engu.“

Heldur áfram:

- Auglýsing -

„Það þarf stuðning, athygli, tækifæri, fjármagn og fleira til að halda þessu smurðu og gangandi. Og þess vegna ætla ég að skipta núna í menningarpólitískt tal því að annað er óhjákvæmilegt. Allt er pólitík.

Og það verður aldrei of oft hnykkt á öllum þeim mikilvægu þáttum sem verða að vera til staðar eigi heilbrigt tónlistarlíf að þróast. Það hefur til dæmis glatt mig mikið að fá að upplifa aukna framleiðslu og aukinn sýnileika kvenna í tónlist að undanförnu.“

Arnar Eggert nefnir dæmi:

- Auglýsing -

„Þrjár sterkar, ungar konur voru til dæmis áberandi á nýafstaðinni Kraumsverðlaunahátíð, þær KUSK, Una Torfa og gugusar. Fleiri plötur eru að koma út, almennt séð, úr kvennaranni, oft stuttar plötur sem hlaðið er í inni í svefnherbergi og þeim svo dúndrað út á streymisveitur. Fleiri konur eru að taka þátt í Músíktilraunum. KÍTON, konur í tónlist, láta í sér heyra. Stelpur rokka eru til, styðja við og mynda vettvang og pláss. Starfsemi, virkni og gjörðir eru lykill hérna. Við hugsum okkur ekki út úr ójafnrétti, nei, það þarf beinar aðgerðir,“ segir hann og bætir við:

„Mér finnst þetta svo augljóst en ég veit að ekki eru allir á sama máli. Til að skakka leikinn þarf að ákveða að hafa tónlistardómnefndir sirkabát til helminga, karla og konur. Fimm konur og fimm karla. Fjóra karla og sex konur, allt í lagi. Sex karla og fjórar konur. Veit ekki en samt, það sleppur. Að stilla þessu svona upp stuðlar smám saman að breytingum til góða. Raddir kvenna – sem heyrast ekki nægilega vel, aldrei – koma inn. Og það er mikilvægt.“

Hann nefnir að „það er mun skemmtilegra að vera í dómnefndum í dag en fyrir tíu árum. Að þú eigir minna færi á því að láta í þér heyra, vegna kyns, er óþolandi. En ef við myndum sleppa svona kvótahugsun? Hvernig væru dómnefndir þá skipaðar? Ég er ansi hræddur um að meirihluti þeirra væru annaðhvort eingöngu skipaðar körlum eða þá að ein, tvær konur myndu slæðast inn. Og væru svo kaffærðar af körlunum. Pláss, athygli, vettvangur. Platform á ensku. Sýnileikinn er svo mikilvægur auk þess sjálfsagða réttar að vera ekki fullkomin. Að koma afurðinni út, eins vel og færni og tímamörk leyfa, er algert aðalatriði.“

Arnar Eggert segir að lokum að „menning er nefnilega ekki að vanda sig. Menning er að gera, skapa og búa til. Eitthvað. Og það má vera gott, hálfgott eða lélegt. Íslensk tónlistarframtíð er björt og ég vil meira. Meira, meira. Frá konum og körlum og megi það vera snilld sem ömurð. Málið er nefnilega aldrei hvað þú getur, heldur hvað þú gerir. Í starfi mínu sem háskólakennari skila strákar inn drasli og finnst þeir eiga Nóbelsverðlaun skilið. Stúlkur skila inn afburðaefni og finnst það lélegt. Þetta þarf að breytast.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -