Landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, Arnar Þór Viðarsson, segist í viðtali á heimasíðu KSÍ hafa rætt málin við Albert Guðmundsson í aðdraganda landsliðsvalsins núna.
Segir að Albert sé ekki tilbúinn að koma í landsliðið á forsendum þess, og að það séu mikil vonbrigði.
„Ég hringdi í Albert og við ræddum saman. Niðurstaðan er sú að ég vel hann ekki að þessu sinni. Það eru vonbrigði að hann sé ekki tilbúinn til að koma inn í landsliðið á forsendum liðsins. Þessar forsendur eru þær sömu fyrir alla leikmenn, hvort sem þú ert 19 ára eða 34 ára. Það er fullt af leikmönnum með mikla hæfileika í þessum landsliðshópi. Akkúrat núna er marsverkefnið okkar framundan, ný undankeppni að byrja, og þá er mikilvægt að vera með fókus á það verkefni og þann hóp sem við erum með. Það ætlum við að gera, ég og þjálfarateymið, starfsliðið og leikmennirnir, allir saman sem eitt lið.“