Maðurinn sem fannst látinn í Laxá í Aðaldal í nótt, aðfararnótt mánudagsins 1. júní, hét Árni Björn Jónasson, verkfræðingur. Hann var 73 ára að aldri.
Árni skilur eftir sig eiginkonu, þrjú börn og sex barnabörn. Árni Björn er faðir Rögnu Árnadóttur sem var dóms- og kirkjumálaráðherra 2009, og dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009–2010.
Eiginkona hans. Guðrún Ragnarsdóttir, framhaldsskólakennari, greinir frá andlátinu í færslu á Facebook.
„Elsku Árni minn er látinn – hann lést í gær við uppáhaldsiðju sína, urriðaveiði í Laxá í Þingeyjarsýslu. Við fjölskyldan færum veiðifélögunum, björgunarsveitum, lögreglunni og Landhelgisgæslunni okkar innilegustu þakkir.“
Árna var saknað eftir að hann skilaði sér ekki tilbaka úr veiði og hófst leit að honum um miðnætti. Björgunarsveitir á Norður- og Austurlandi tóku þátt í leitinni, ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Mannlíf vottar fjölskyldu og ástvinum Árna innilega samúð.