Árni Johnsen, fyrrverandi alþingismaður, lést í gær í Vestmannaeyjum eftir langvarandi veikindi. Hann var 79 ára. Með honum er genginn einn litríkasti þingmaður undanfarinna áratuga.
Árni var menntaður sem kennari og starfaði við kennslu framan af starfsævi. Hann var lengi blaðamaður en var fyrst kosinn á þing árið 1983. Hann var afkastamikill rithöfundur og tónlistarmaður og eftir hann liggja fjölmörg verk.
Árni var varaþingmaður á árunum 1988-1991. Hann náði aftur kjöri árið 1991 og sat til ársins 2001 þegar hann sagði af sér þingmennsku. Hann fór aftur á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi 2007 en hætti þingmennsku 2013. Hann lét sig miklu varða málefni fanga og barðist fyrir endurbótum í fangelsum.
Hann stjórnaði brekkusöng á Þjóðhátíð Vestmannaeyinga um árabil.
Morgunblaðið segir frá andláti Árna og rekur æviferil hans. Eftirlifandi eiginkona hans er Halldóra Filippusdóttir. Þau eignuðust soninn Breka en fyrir átti Árni tvær dætur með fyrri eiginkonu, Margréti Oddsdóttur, þær Helgu Brá og Þórunni Dögg.
Foreldrar Árna voru Poul C. Kanélas frá Detroit í Bandaríkjunum og Ingibjörg Á. Johnsen kaupkona. Hún giftist síðar Bjarnhéðni Elíassyni, skipstjóra og útgerðarmanni í Vestmannaeyjum.