Árni Tómas Ragnarsson læknir furðar sig á Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem geri lítið annað en tala um eigin afrek og gera lítið úr sérfræðilæknum. Hann telur ljóst að hún vilji starfsemi læknanna feiga.
Þetta kemur fram í aðsendri grein Árna læknis í Morgunblaðinu. Þar segir hann að Svandís lýsi yfir frati á störf sérfræðilækna:
„Svandís hefur verið iðin við kolann við að kynna afrek sín og skoðanir á heilbrigðismálum, þar sem hún fer mikinn um afrek sín og næstu skref við að þróa heilbrigðiskerfið. Hún nefnir sérstaklega það markmið að dregið verði úr greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir heillbrigðisþjónustu, sem hún segir hafa lækkað í heild á undanförnum árum. En eins og venjulega þegar Svandís tjáir sig, þá tjáir hún sig ekki heldur núna í pistli sínum um starfsemi sjálfstætt starfandi sérfræðilækna, sem er þó ein af meginstoðum heilbrigðiskerfisins,“ segir Árni.
Árni kemur einnig inn á þá aðferð stjórnvalda að lækka komugjöld til heilsugæslulækna umtalsvert á meðan gjöld til sérfræðilækna haldast mun hærri. Þannig hafi mikill fjöldi landsmanna þurft að greiða mun meira fyrir þjónustu þeirra. „Þessi breyting var bæði aðför að sérfræðilæknunum og að skjólstæðingum þeirra, en sú aðför tókst ekki, sérfræðilæknisþjónustan heldur áfram að blómstra þótt Svandís vilji hana feiga og vilji helst ekki niðurgreiða hana nema að takmörkuðu leyti,“ segir Árni ákveðinn.