Árni Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, skrifaði nýverið færslu á Facebook þar sem hann lýsti eftir bjargvætti sínum eftir að hann hafði dottið á höfuðið.
Árni hafði farið með konu sína í augnaðgerð og ætlað að sinna erindagjörðum á meðan konan var í aðgerð.
„Mikið langar mig að vita hvað hann heitir maðurinn, sem aðstoðaði mig skammt austan við Landspítalann í morgun, eða skammt frá þar sem sjúkrabílarnir athafna sig. Ég hafði farið með konu mína í augnaðgerð og þar sem áætlað var að ég gæti ekki sótt hana fyrr en eftir 4-5 klukkustundir ákvað ég að fara og sinna nokkrum erindum. Á leiðinni út á bílastæði hefur hálkublettur orðið á leið minni og ég fór lóðbeint á hausinn.“
Telur Árni að hann hefði misst meðvitund um stund. „Blóðið flæddi um höfuðið og ég gat ekki staðið upp; líklega misst meðvitund skamma stund. Þá kom hjálpsamur og vænn maður, hjálpaði mér á fætur og vildi allt fyrir mig gera.“
Segist Árni ekki hafa viljað fara á Landspítalann til að láta gera að sárum sínum, heldur frekar á Heilsugæsluna í Hamraborg í Kópavogi.
„Kannski undarleg ákvörðun, sem ugglaust var tekin vegna allrar umræðunnar um mikið álag á starfsrólki spítalans. Veit þó að ég hefði fengið góða þjónustu. – En yndislega starfsfólkið í Heilsugæslunni tók mér vel, saumaði nokkur spor í ennið og sendi mig svo í myndatöku. – Mér er sama hvað hver segir um heilbrigðiskerfið okkar. Í langflestum tilvikum er það gott og jafnvel frábært.“
Að lokum segir Árni að augnaðgerð konu sinnar hafi gengið mjög vel.