Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Arnór: „Þar upphófst undarleg atburðarás þar sem örlögin og gæfan leiddu mig áfram“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Arnór býr í notalegu húsi við Hafravatn ásamt Ingeborg, konu sinni. Hann tekur á móti blaðamanni við afleggjarann að húsinu og við skutlumst yfir snjóbreiðurnar, fyrst á jeppa og svo á snjósleða síðasta spölinn. Hann býr í ekki nema 20 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík, en upplifunin er eins og vera komin langt út á land.

Þegar inn er komið tekur á móti okkur hundurinn hans, glaður að fá fólk í heimsókn. Rýmið ilmar af ilmkjarnaolíu og við setjumst niður með heitan kakóbolla sem er útbúinn eftir kúnstarinnar reglum af Arnóri. Kakóið er ekkert venjulegt kakó, heldur svokallað „ceremonial grade cacao“ criollo-kakó, lífrænt, óerfðabreytt og sannkölluð ofurfæða. Hreint kakó inniheldur eitt mesta magn magnesíum og andoxunarefna nokkurrar plöntu og er mjög góður náttúrulegur orkugjafi og ástardrykkur.

kakóplantan gegnt veigamiklu hlutverki í árþúsund og hlotið nafnbótina fæða guðanna

Arnór Sveinsson. Ljósmyndari: Jón Ágúst Guðjónsson. Lónið framan við Skaftafellsjökul

Blaðamaður kynnti sér þetta magnaða kakó og komst að því að það er blóðflæðisaukandi, hefur jákvæð áhrif á úthald og orku, minnkar bólgur, ýtir undir framleiðslu á gleðiboðefninu serótónín, lækkar streituhormónið kortisól og örvar vellíðunarstöðvar í heilanum og framleiðslu á endorfíni. Að auki inniheldur það króm, theobromine, manganese, sink, kopar, járn, C-vítamín, omega 6-fitusýrur og tryptophan svo eitthvað sé nefnt af þeim góðu efnum sem kakóið inniheldur.

Fjölmargar rannsóknir sem gerðar hafa verið, meðal annars við Yale og Oxford, staðfesta virkni kakóbaunarinnar og stöðu hennar sem heilsusamleg og heilsueflandi fæða.

Í menningu Maya-fólksins í Mið-Ameríku hefur kakó og kakóplantan gegnt veigamiklu hlutverki í árþúsund og hlotið nafnbótina fæða guðanna. Þá má rekja kakódrykkju 4.200 ár aftur í tímann og því tími til kominn að þessi dásemdardrykkur rati til Íslands.

Djúp innri vinna

Arnór er 37 ára og uppalinn á Álftanesi. Hann hefur kennt jóga og haldið vitundartengd námskeið frá september 2013, árið sem hann lauk jógakennaranámi. Nú kennir hann flestalla tíma í Primal Iceland. Þau námskeið samanstanda af jóga, öndun, hugleiðslu, Wim Hof, slökun, tónheilun og kakó-athöfnum.

- Auglýsing -

Árið 2013 lauk hann jógakennaranámi í Jógaskóla Kristbjargar Kristmundardóttur og hefur frá þeim tíma ferðast víðs vegar um heiminn og sótt fjöldann allan af námskeiðum sem tengjast jóga, hugleiðslu og andlegri vinnu. „Ég varði dýrmætum tíma með munki í fjöllum norður Taílands þar sem ég fór í djúpa innri vinnu og lærði hugleiðslu sem er undirstaðan í nálgun minni og leiðbeiningum í dag. Þessi munkur var í raun minn fyrsti kennari. Á þessum tíma lærði ég að um leið og maður fer að stunda hugleiðslu í gegnum jóga þá hverfur smám saman það sem maður þarf ekki í lífinu,“ segir Arnór en hann leggur mikla áherslu á öndun í allri sinni nálgun.

Arnór með munki í Taílandi

Fráfall nákomins ættingja ýtti honum á andlegu brautina

Þegar skólagöngu hans lauk eftir 10. bekk var hann fljótlega kominn á sjóinn og farinn að vinna fyrir sér. Hann hafði alltaf haft áhuga á jóga og andlegum málefnum en fráfall nákomins ættingja var það sem að lokum ýtti honum af stað á andlegu brautina.

ÞAR UPPHÓFST UNDARLEG ATBURÐARÁS ÞAR SEM ÖRLÖGIN OG GÆFAN LEIDDU MIG ÁFRAM

„Án þess að vita fyrir víst hvað væri í vændum þá fór svo á endanum að ég pakkaði föggum mínum og flaug austur til Taílands. Þar upphófst undarleg atburðarás þar sem örlögin og gæfan leiddu mig áfram. Ég endaði í smábænum Pai í norðurhluta landsins þar sem ég komst í kynni við munk og varði dýrmætum tíma með honum í fjöllum Norður-Taílands. Þar fór ég í djúpa innri vinnu og lærði hugleiðslu sem er undirstaðan í minni nálgun og leiðbeiningum. Ég fylgdi munkinum víða um landið og dvaldist meðal annars við hugleiðingar í helli. Síðan þá hef ég ferðast víðs vegar um heiminn og sótt fjöldann allan af námskeiðum sem tengjast jóga, hugleiðslu og andlegri vinnu,“ segir hann í samtali við Mannlíf.

- Auglýsing -
Wim Hof og Arnór, en Wim Hof-aðferðin er einmitt skírð í höfuðið á honum.

Sælureitur við Hafravatn

Eins og fyrr segir býr Arnór á fallegu landi við Hafravatn ásamt Ingeborg, konu sinni. Landið er algjör paradís, steinsnar frá borginni. Markmið þeirra er að byggja upp sælureit fyrir sig og aðra til að njóta og er planið jafnvel að hafa festival á landinu, þegar að því kemur.

„Það sem við viljum gera á sælureitnum er að hafa námskeið yfir helgar og fá fólk hingað í náttúruna til þess að læra að beita líkama sínum rétt. Vera í mosanum, í skóginum, í vatninu. Tengjast náttúrunni. Bara það að vera berfættur og setja hendurnar í moldina er svo mikilvægt fyrir okkur til þess að tengjast. Flóran þín og flóran í jörðinni eru eins og systkini.

Við viljum byrja með eitthvað skemmtilegt á þessum reit, en við erum með rými til að tengjast náttúrunni. Við verðum með námskeið og fáum kennara til að kenna okkur um vistkerfið og moldina.

Ég og Ingeborg erum nýkomin í þetta húsnæði og erum að byggja þetta upp sem eins konar „retreat“. Hugmyndin er að vera með „retreat“ í borginni. Þú kemur eftir vinnu á föstudegi og ert að verja tímanum hérna í náttúrunni. Við erum að læra um taugakerfið, hugleiða, koma inn við eldinn eða kveikja eld út. Við viljum veita fólki rými til að kúpla sig út úr amstri dagsins. Fólk getur tjaldað, en annars er þetta hugsað til þess að fólk geti skutlast aftur heim og sofið þar og mætt svo aftur snemma næsta dag.

Á landinu er skógur og við viljum finna góðan stað fyrir matjurtagarð og búa til góða mold, því eitt stærsta vandamál sem við stöndum frammi fyrir í dag er lélegur jarðvegur. Jarðvegurinn er 70-80% lélegri en til dæmis fyrir 1960. Ástæða þess er sú að við erum að nota of mikinn áburð – jarðvegurinn er ekki í tengingu við vistkerfið lengur. Ef þú fengir þér eina appelsínu árið 1920 þá þyrftir þú að fá þér þrjár appelsínur í dag til að fá sama næringargildi. Allt er svo erfðabreytt og jarðvegurinn er alltaf að verða veikari,“ segir Arnór.

Arnór og Ingeborg

Meira „workshop“ en jógatími

Arnór býður upp á nokkur námskeið og er eitt af þeim MjaðmaRæs. Hann segir að það sé hans vinsælasti tími. „Það má segja að þessir tímar séu meira „workshop“ en jógatími. Hver tími er tvær klukkustundir og enginn tími er eins. Á sama tíma er fræðsla um stoðkerfið.“

Arnór lýsir sér sem „leitandi og finnandi“, sem er sífellt meira á leiðinni inn á við: „Allt sem við upplifum gerist innra með okkur og sem leitandi leita ég að aðferðum sem hjálpa mér að leita dýpra inn á við og í leiðinni leyfi ég öðrum að læra af mér og verða samferða á þessu ferðalagi.“

Arnór leggur mikla áherslu á að kenna fólki að tengjast sjálfu sér á jákvæðan hátt, hann leggur áherslu á að kenna nemendum sínum að finna jákvæðan ásetning og losa sig við hindranir og hömlur. Hann leggur mikla áherslu á að læra að næra sig með jákvæðum hugsunum og góðum ásetningi.

„Ef þú getur treyst því að þú sért í leiðinni í átt að ásetningi þínum; að það þurfi ekki allt að gerast eins og þú hefur hugsað þér. Láta af stjórninni og leyfa sér að vera í flæði.

Við erum nefnilega svo oft föst í vananum. Þess vegna er svo mikilvægt að byrja daginn á því að þjálfa sjálfan sig. Byrja daginn á því að næra sig og ákveða hver ég ætla að vera í dag. Þú ert búinn að finna hvaða vana þú vilt ekki hafa og byrjar þess vegna að veita því athygli sem þú vilt vera. Og því oftar sem þú getur tengt þig yfir daginn því meira ertu á staðnum. Við erum svo vön því að vera í streituástandi. Við erum háð því að fá þetta kortisól streituhormón og þar á meðal ég. Og þar af leiðandi þarf ég að fara í slökunarástand oft yfir daginn.

Ég mæli með að dagurinn hefjist á öndunaræfingum sérstaklega hjá þeim sem eiga erfiðara með að hugleiða. Þegar þú byrjar að gera öndunaræfinguna þá ertu í núinu og hlustar á andardráttinn. Það er til dæmis mjög gott að byrja á því áður en þú færð þér morgunkaffið og klæðir þig.

Þegar ég var að læra í Taílandi þá vaknaði ég mög snemma á morgnana til að hugleiða og hef sennilega aldrei verið jafn tengdur inn á við, eins og þá.“

Arnór með  ungum munki í Kanchanaburi, Taílandi

Öndum stórum skömmtum af íslenskri náttúru

Sumarið 2016 fluttist Arnór út í sveit og varði þar einu ári ásamt góðu fólki. Þar bauð hann upp á Endurnærandi helgar og leiddi þátttakendur inn á við í jóga, hugleiðslu, samfloti og öndun ásamt stórum skömmtum af íslenskri náttúru.

Nóvember 2018 kláraði hann kennaranám hjá Guðna Gunnarssyni og er honum afar þakklátur fyrir það tækifæri. Guðni er að sögn Arnórs einn fróðasti og reynslumesti kennari sem hann hefur hitt.

Arnór hefur unnið sem þjálfari hjá Primal frá 2018 og segist ekki geta verið partur af betra teymi. Nálgun hans er út frá taugakerfinu og stoðkerfinu og segir hann þessi námskeið vera á algjörlega öðru „leveli“.

 öndunina til að stýra líðan sinni og róa taugakerfið með einfaldri öndunartækni

Í desember 2018 lauk Arnór svo kennaranámi í Wim Hof-aðferðafræðinni og hefur innleitt þá þekkingu í sína kennslu. Wim Hof-aðferðin byggist á þremur stólpum sem eru kuldaþjálfun, öndun og hugleiðsla.

Arnór Sveinsson. Wim Hof-námskeið í Nauthólsvíkinni. Ljósmyndari: Dukagjin Idrizi

Arnór hefur mikla þekkingu á taugakerfinu: „Ég kenni nemendum mínum hvernig þeir geti notað öndunina til að stýra líðan sinni og róa taugakerfið með einfaldri öndunartækni. Þetta hefur jákvæð áhrif á svefn okkar og almenna líðan yfir daginn.“

Arnór hefur einnig verið að vinna við kakó-hugleiðslu og býður reglulega upp á innri ferðalög með aðstoð kakósins. Hann fór til Gvatemala og lærði að nýta þessa mögnuðu plöntu eins og Mayarnir gerðu og gera, þetta er gert til þess að ferðast dýpra inn í sjálfan sig og tengjast uppruna sínum, að sögn Arnórs.

Þar sem þyngdaraflið sleppir okkur

Ásamt því að vera með tíma hjá Primal Iceland elskar Arnór að vinna úti í náttúrunni og nýtir hana til þess að leiða nemendur inn á við. Hann býður þar af leiðandi upp á eins mikið af viðburðum úti í náttúrunni og hann getur. Hann er reglulega með útijóga (Snjóga á veturna) og hugleiðslu úti. Svo býður hann reglulega upp á Endurnæringar (retreat) helgar þar sem fólk getur komið og endurnærst í nærandi íslenskri náttúru. Þar leggur hann áherslu á slökun, öndun, samflot og tónheilun í vatni, flotþerapíu, jóga, hugleiðslu, heilsufæði, náttúruferðir o.fl.

 hjálpað okkur að upplifa hluti sem við höfum ekki upplifað áður

Ein af þeim þerapíum sem Arnór hefur sérhæft sig í er Flotþerapía bæði með tónheilun og án. „Flotþerapía er slökun og sjálfsheilun í vatni. Vatnsslökun getur haft ótrúlega jákvæð áhrif á heilsu okkar og ég hef sérhæft mig í því að hjálpa fólki á þessu sviði. En í vatninu slökum við algjörlega á, þar sem þyngdaraflið sleppir okkur, og með aðstoð heilandi hljóða og undir handleiðslu leiðbeinanda skapast hið fullkomna ástand fyrir djúpslökun og jafnvægi.“ Hljóðheilun er mjög öflug aðferð til slökunar og hugleiðslu, „tíbesku tónheilunarskálarnar sem ég spila á geta fært okkur enn þá dýpra í hugleiðslu ástandið og hjálpað okkur að upplifa hluti sem við höfum ekki upplifað áður. Heilun með þessari ástundun nærir, róar og gefur einstaka upplifun.“

Vertu eins og þú ert!

Arnór Sveinsson. Ljósmyndari: Jón Ágúst Guðjónson. Lónið við Skaftafellsjökul
„Það að allir eigi að vera með sömu skoðunina er algjör þvæla. Við erum öll alls konar. Hlustum frekar á fólk sem er á öndverðum meiði í staðinn fyrir að loka á það strax og setja upp múra. Góða fólkið er svo réttlátt og ef þú ert ekki sammála því, þá fer það upp á móti og er þá orðið eins og fólkið sem það er að dæma. Við verðum að leyfa fólki að vera eins og það er. Þannig að ef ég er ekki sammála einhverjum um eitthvert viðfangsefni, þá þarf ég ekki að sannfæra aðra um að annar sé vondur og hafi rangt fyrir sér og eyða orkunni minni í það, ég vil frekar verja orkunni minni í eitthvað skemmtilegra.

 

Ég elska fólk sem segir hlutina eins og þeir eru og er ekki hrætt við að að særa einhvern. Ef þú spáir í það, þá snýst það alltaf um það hvernig ég bregst við. Þannig að ef ég er ekki sammála einhverjum um eitthvert viðfangsefni, þá þarf ég ekki að sannfæra aðra um að annar sé vondur og hafi rangt fyrir sér og get eytt minni orku í það. Það er orðið svo mikið svona; þú átt að vera svona og svona, annars ert þú vond manneskja. En það er efni í annað viðtal,“ segir Arnór að lokum.

Við mælum með því að þið kíkið á síðu hans og fylgist með öllu því spennandi efni sem Arnór er að miðla. Við erum sérstaklega spennt að fylgjast með uppbyggingunni á sælureitnum þeirra við Hafravatn.

Arnór er svo með slökunartíma alla miðvikudaga í Primal sem eru opnir öllum. Hægt er að skoða tímana hans hér. En einnig er hægt að fylgjast með honum á Instagram, Facebook og á heimasíðu Primal. Ný og flott heimasíða er verða til, en hægt er að fylgjast með honum hér.

 

www.youare.is

https://www.instagram.com/yoga_arise/

Facebook Arnórs, þar sem hægt er að fylgjast með nýjustu námskeiðum.

Námskeið Arnórs hjá Primal

Primal

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -