Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja, hefur birt nokkur fjölda greina til stuðnings Samherja og til ófrægingar fjölmiðlafólki og öðrum sem hafa verið gagnrýnir á stjórnendur Samherja og meint afbrot þeirra. Stundin birtir í dag tölvupóstsamskipti sem sýna að Páll skipstjóri hefur látið Þorbjörn Þórðarsson, fyrrverandi fréttamann Stöðvar 2 og núverandi skuggapenna Samherja, skrifa stóran hluta greina sinna og yfirfara annað. Greinarnar hafa verið sumpart rætnar og illyrtar í garð þeirra sem Samherji hefur skilgreint sem óvini sína.
Þrír einstaklingar gegna lykilhlutverki í þeirri áróðursvél sem stjórnendur útgerðarinnar Samherja ræstu eftir uppljóstranir um mútugreiðslur til namibískra stjórnmálamanna. Þetta eru Þorbjörn almannatengill, Arna Bryndís Baldvins McClure lögmaður og Páll skipstjóri. Sá síðastnefndi hefur látið birta í sínu nafni fjölda greina sem Þorbjörn og Arna hafa ýmist skrifað eða ritstýrt.
Greinar sem birst hafa í nafni Páls á Vísi.is eru að megninu til skrifaðar eða þeim ritstýrt af Þorbirni, með athugasemdum og aðstoð frá Örnu. Þetta fullyrðir Stundin og birtir því til sönnunar tölvupóstssamskipti.
Vörn Samherja við ásökunum um mútur og spillingu í starfsemi sinni víða um heim hefur helst snúið að því að gera fréttamenn og þá miðla sem fjölluðu um málið tortryggilega. Liður í því hafa verið greinaskrif Páls skipstjóra. Tilgangur greinaskrifanna hefur einna helst verið að ráðast á blaðamanninn Helga Seljan og trúverðugleika hans.
Hér að neðan má sjá dæmi um samskipti milli Örnu Bryndísar lögmanns og Páls skipstjóra, sem Stundin birti:
Stinga og strá salti í sárin
Páll: En Jón Óttar mun hitta ÞMB á morgun.
Arna: Já það er gott. Mjög gott.
Páll: Jebb er búin að vera stöðnun og allt of mikið fum og fátt í þessu hjá okkur en vonandi brýnir ÞMB hnífana og fer í að slátra Jóhannesi.
Arna: Amen!
Páll: Þú ert svo blóðþyrst.
Arna: Hehe já ég veit. Ég vil stinga, snúa og strá salti í sárið.
Sparka í punginn
Páll: Glæsilegt við þörfnumst þess núna akkúrat núna þurfum við að sparka í punginn á þessu liði.
Arna: Ég ætla að gera það. Eitt spark í punginn… Og þá er hann… Sprunginn! Múharharhar.
Páll: Haha ég allavega treysti á þig og vona að ég fái ekki spark í punginn frá þér.
Arna: Þú færð ekkert spark!! En Helgi, Óðinn Jóns, Stefán Eiríks, Már Guðmunds, Ingibjörg Guðbjarts og Stefán Jóhann fá á baukinn