Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Aron Hannes og Dagur sigurstranglegastir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Seinni undakeppni Söngvakeppninnar fer fram í dag, laugardaginn 17. febrúar. Þar keppa sex lög um sæti í undanúrslitunum 3. mars, þar sem kemur í ljós hvaða lag fer fyrir Íslands hönd í Eurovision í Portúgal í maí.

Líkt og með fyrri undankeppnina síðasta laugardag, fengum við Eurovision-sérfræðingana Flosa Jón Ófeigsson og Kristínu Kristjánsdóttur til að spá í spilin um hverjir komast áfram í undanúrslit á laugardaginn. Þau voru nokkuð sannspá síðast og spáðu því að Fókus hópurinn og Heimilistónar kæmust upp úr undankeppninni.

Sjarmatröll sem á ekki eftir að klikka

Golddigger – Aron Hannes

Flosi: „Þetta er klárlega fjörugasta lagið í keppninni í ár finnst mér. Mér finnst þetta vera mest „current“ lagið í ár. Ég gjörsamlega féll fyrir Aroni Hannesi í fyrra. Hann er alveg búinn að sanna það að hann er pottþéttur flytjandi í beinni útsendingu, þannig að hann á ekki eftir að klikka. Hann er líka orðinn betri í að nota myndavélina. Hann er tilbúinn í þetta. Þetta er lagið sem ég held að flestir í keppninni séu að bíða eftir að sjá af því að þeir halda að þetta sé atriðið sem þeir eru að fara að keppa við. Svo lengi sem konseptið virkar í atriðinu þá held ég að hann eigi eftir að fara í alla leið í einvígið.“

Kristín: „Þetta er bara fínasta lag, með því skásta í ár. Það er húkkur í þessu og pínu djamm. Einn írskur vinur minn sagði að þetta minnti á framlag Belgíu árið 2016 en svo er líka Bruno Mars-fílíngur í þessu. Ég er nokkuð örugg með að hann fari í úrslitin. Aron er rosa sjarmatröll.“

„Hún grætir mig eiginlega í hvert skipti sem hún syngur“

Óskin mín – Rakel Pálsdóttir

- Auglýsing -

Flosi: „Rakel mín er búin að vera í uppáhaldi síðan við tókum þátt saman í X Factor fyrir löngu, löngu síðan. Hún grætir mig eiginlega í hvert skipti sem hún syngur svona fallega ballöðu. Það er engin rödd sem er svona hugljúf og einlæg í keppninni í ár. Hún syngur og segir söguna bara með því að opna munninn á sér. Ég held að þetta sé svarti péturinn í þessum riðli.“

Kristín: „Þetta er rosa sætt lag og mikil tilfinning í því. Ég held að þetta verði engin svakaleg sprenging en það þarf alltaf að vera eitt svona lag. Ég held að hún fari ekki áfram. Hún á örugglega eftir að heilla helling af fólki enda hörkusöngkona. En það er ekki alveg nógu mikill húkkur í laginu.“

- Auglýsing -

Stefanía og diskókúlurnar

Svaka stuð – SLAY

Flosi: „Þær Stefanía, Agnes og Regina eru æðislegar. Þær munu negla þetta. Stefanía er einn besti söngvari sem er að performa núna. Hún er með svakalega og fallega rödd og þær Agnes og Regina eru diskókúlurnar í kringum hana. Það er rosalega gaman að fylgjast með þeim. Lagið sjálft grípur mig ekki en lagið þarf ekki alltaf að vera gott til að fara áfram. Ef hún fer áfram er það af því að hún er frábær flytjandi. Lagið greip mig ekki við fyrstu hlustun en það er að vinna á. Ég fer alveg í svaka stuð þegar ég hlusta á það.“

Kristín: „Mér finnst þetta svolítið skemmtilegt. Ég get alveg dansað með Breezer við þetta lag. Þetta er bara ótrúlega hresst, ekkert að þessu. Ég hugsa að það eigi séns ef þær eigna sér sviðið eins og enginn sé morgundagurinn. Þær eru voðalega hressar. Þetta lag býður uppá attitjúd og Stefanía hefur svo mikið af því. Ég vil alveg sjá þær áfram.“

Danska uppskriftin fer ekki áfram

Brosa – Gyða Margrét Kristjánsdóttir og Þórir Geir Guðmundsson

Flosi: „Þetta er ofboðslega hugljúft og skemmtilegt lag. Þetta er danska uppskriftin af Eurovision lagi; gítar, útileiga og góður fílíngur. Ég veit ekki hvort þjóðin mun fíla það eða ekki. Ég verð ekkert fúll ef það fer áfram, en þetta eru ungir krakkar sem eru að fara að syngja og verður að koma í ljós hvort þau í raun og veru höndla þessa pressu sem er í þessar þrjár mínútur. Þetta veltur allt á flutningnum þeirra. Það þarf bara eitt feil og þá missir fólk áhugann. Eins og er, er ég meira á því að það komist ekki áfram.“

Kristín: „Þau eru voða krúttleg. Þetta stendur og fellur með flutningnum en ég held að þau komist ekki áfram.“

Dagur er algjör þruma

Í stormi – Dagur Sigurðsson

Flosi: „Þetta er atriði sem ég er mjög spenntur að sjá vegna þess að hann veit ekkert hvað hann er kominn í. Hann veit ekki hvað Eurovision búbblan er. Það er það skemmtilega við hann. Þarna munum við ekki hafa áhyggjur af flutningi og ég er aðallega spenntur að sjá hvort atriðið í heild gefur manni gæsahúð eins og röddin hans. Lagahöfundurinn Júlí Heiðar er líka algjör snillingur og okkar vonarstjarna. Hann veit alveg hvað hann er að gera. Ef að þeir halda rétt á spilunum þá er þetta lag sem gæti farið alla leið til Portúgal. Það eina sem getur komið í veg fyrir það er að það er annað lag komið í úrslit með svipað element; strákur á sviði sem syngur fallega. Þessi tvö atriði gætu tekið frá hvort öðru. En það er gaman hvað Dagur er þakklátur. Hann er með nákvæmlega sama þakklæti og Ari. Það er gaman að fylgjast með þeim og þeir eru ekki með neina dívustælar. Þeir eru mjög auðmjúkir og einlægir.“

Kristín: „Hann er æðislegur þessi strákur. Mér finnst þetta lag svolítið flott, það vann svolítið á. Hann sjálfur er svo mikil þruma. Úr því Ari fór áfram út á sig sjálfan og röddina þá er Dagur að fara að fljúga áfram. Það er eitthvað að ef hann fer ekki áfram. Hann kann þetta. Hann er ekki að standa uppá sviði í fyrsta sinn heldur hefur hann troðið upp margoft út um allar trissur. Hann veit nákvæmlega hvað hann er að gera og þetta er bara enn eitt giggið.“

„Autotune er besti vinur þessara krakka“

Hér með þér – Egill Ploder Ottósson og Sonja Valdin

Flosi: „Nú er ég maður sem er mjög gagnrýninn á raddir. Ef fólk getur ekki sungið, þá á það ekki að vera í svona keppni. Egill og Sonja eru frábærir skemmtikraftar. Lagið per se er ekkert slæmt, þó ég fíli eiginlega öll lögin betur sem þau hafa gefið út. Mér finnst bara hræðilegt að hlusta á þau. Vinsældarlega séð ætti þetta að fljúga áfram. Þau eiga svakalegan aðdáendahóp á aldrinum 16 til 25 ára sem að þau eru að ná til. En munu þessir krakkar kjósa dúett sem er rammfalskur? Ég bara veit það ekki. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér því ég vil ekki að neinn líti illa út. Ef að þú púlla flutninginn í beinni útsendingu gætu þau farið í undanúrslit í staðinn fyrir Rakeli. Ég verð hins vegar að segja að Egill og Sonja eru mjög vel undirbúin í öllum viðtölum og með markaðshlutann alveg á hreinu. Það gæti fleytt þeim langt.“

Kristín: „Aaa, nei. Ég er búin að heyra í þeim „live“ og autotune er besti vinur þessara krakka. Þau gætu halað inn stigum út af aðdáendahópi Áttunnar en ég held að það sé borin von að þau komist lengra. Þeirra aðdáendahópur er vanur því að þau séu með svo peppuð lög og tvíræðan texta, svo kemur þessi kjút ástaróður. Þau gætu halað inn eitthvað af stigum en ég held að þau fari ekki alla leið.“

Eftir að hafa horft á fyrri undankeppnina eru Flosi og Kristín ekki sammála um hvaða lag eigi eftir að fara alla leið til Portúgal.

Flosi: „Miðað við laugardaginn síðasta eiga Heimilistónar eftir að taka þetta. Og ég vil nýta tækifærið og senda mikið hrós til RÚV sem hafa gert undankeppnina alltaf stærri og stærri og flottari og flottari.“

Kristín: „Ég held að Heimilistónar séu ekki að fara alla leið. Ég væri ekki hissa á að þær fari í einvígið. Ég gæti trúað því að þetta yrði á milli Arons og Fókus hópsins, en ég ætla ekki að útiloka neitt.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -