Nokkuð skiptar skoðanir eru um rauða spjaldið sem Grétar Snær Gunnarsson leikmaður FH fékk að líta í leik Vals og FH í Mjólkurbikar karla í fótbolta.
Þjálfari FH, Heimir Guðjónsson, skilur lítið í dómnum – en leikmaður Vals, Aron Jóhannesson – segir Grétar Snæ hafa hagað sér eins og barn, en Grétar Snær fékk að líta rauða spjaldið á 86. mínútu fyrir allsvakalega tæklingu á Adam Ægi Pálsson, leikmann Vals.
Aron fór hörðum orðum um Grétar Snæ sem fékk rautt spjald fyrir grófa tæklingu undir lok leiks liðanna, en þetta kemur fram á RÚV:
„Svo kemur Grétar Snær með tæklingu sem á bara að verðskulda margra leikja bann. Hann hefði geta brotið lappirnar á einhverjum. Það er munur að vera með heimskuleg brot eða smá æsing. Greinilega espaðist hann svona upp við þetta að hann hagaði sér eins og lítill krakki á vellinum. Hann var bara heppinn að Adam meiddist ekki alvarlega.“
Heimir Guðjónsson þjálfari FH var ekki alveg á sama máli. „Fyrir einu ári síðan hefði þetta bara verið gult spjald.“