Ása Dóra Finnbogadóttir missti mann sinn, Magnús Björnsson, af slysförum í júlí árið 2015.
„Hann lagði af stað í enn einn túrinn á sunnudegi í blíðskaparveðri og ég hafði allt á hornum mér og var rosalega reið inni í mér yfir að hann væri að fara. Það var ekki endilega út af því að ég væri hrædd um hann heldur var svo mikið í gangi hjá okkur í sambandi við alls kyns framkvæmdir sem við stóðum í varðandi gistiheimili sem hann aðstoðaði mig við að koma upp og svo vildi ég bara hafa hann hjá mér.
Ég var því í rosa fýlu þegar hann var að fara til að fara á sjóinn, stóð úti og var að sópa stéttina fyrir framan húsið þar sem við bjuggum. Allt í einu snéri hann svo bílnum við og ók upp að húsinu og varð ég mjög hissa og spurði hvað væri nú í gangi. Hann kom upp tröppurnar og sagði: „Elskan mín, ég átti bara eftir að faðma þig og kveðja.“ Hann tók utan um mig og kvaddi mig en bætti svo við að hann hefði reyndar gleymt símahleðslutækinu sínu og var að ná í það. Ef ég hefði ekki þessa minningu eða upplifun þá hefði ég örugglega átt erfiðara ef ég hefði skilið við hann í reiði.“
Reyndist þetta vera síðasta skiptið sem Ása Dóra sá mann sinn á lífi. En tveimur dögum síðar sökk fiskibáturinn sem hann var á undan Aðalvík.
„Við rákum gistiheimili í bænum og daginn sem sjóslysið varð var ég að ganga frá eftir morgunmatinn þegar ég sá prestinn og lögreglustjórann koma inn, ég hélt þau væru að villast.“ Og Ásu Dóru var tilkynnt að Magnús hefði drukknað. „Sem betur fer fannst hann og náðist með bátnum sem bjargaði skipsfélögum hans þannig að við gátum kvatt hann og jarðað.”
Í Helgarviðtali Mannlífs segir Ása Dóra frá missinum, sorgarferlinu og hvernig hún fór að því að byggja sig aftur upp. Einnig segir hún frá spennandi nýrri stefnu sem líf hennar tók fyrir skömmu, en Ása Dóra á von á barni.
Lestu viðtalið í heild sinni hér í brakandi fesku helgarblaði eða flettu því hér fyrir neðan: