„Ég vissi ekki hvar ég var,“ sagði Ása Ellerup, eiginkona grunaða raðmorðingjans Rex Heuermann, í samtali við The U.S. Sun í vikunni. Mun þetta vera fyrsta viðtalið sem Ása veitir eftir að eiginmaður hennar var handtekinn og ræddi hún við blaðamann um lífið og áfallið sem hún varð fyrir. Blaðamaður tók viðtalið við Ásu á heimili hennar þar sem hún hafði verið búsett í rúm tuttugu ár ásamt börnum sínum sem eru uppkomin. Rex hefur verið ákærður fyrir að myrða þrjár konur en er hann einnig grunaður um að hafa myrt að minnsta kosti eina konu til viðbótar.
Rex var handtekinn í júlí og segir Ása áfallið hafa verið ólýsanlegt. Hún hafi þurft að yfirgefa heimili sitt ásamt börnum sínum og ríkti mikið fjölmiðlafár í kringum heimilið á meðan lögregla leitaði sönnunargagna. Rúmur mánuður er síðan að Ása fékk að fara aftur til síns heima en segist hún hafa sofið ásamt börnum sínum í bílaleigubíl í rúma viku eftir handtökuna. Heimilið er þó ekki eins og það var. „Það er allt í rúst. En þetta er heimilið mitt. Ég ól upp börnin mín á þessu heimili og ég verð að koma því aftur í stand,“ sagði Ása en dóttir raðmorðingjans Keith Hunter Jesperson, Melissa Moore, setti á laggirnar söfnun fyrir Ásu í byrjun ágústmánaðar. Alls hafa safnast um sjö milljónir króna og segist Ása gríðarlega þakklát fyrir stuðninginn. Hún vildi ekki ræða eiginmanninn né ákærurnar þar sem henni hafi verið sagt að segja ekki neitt. Ása er ekki grunuð um að hafa átt þátt í morðunum og var hún fjarverandi þegar morðin áttu sér stað.