Útvarp Saga hefur margoft verið gagnrýnd fyrir útbreiðslu hatursorðræðu. Fyrir tveimur árum lýsti nefnd Evrópuráðsins gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (ECRI) yfir áhyggjum af því að Útvarp Saga dreifði hatursorðræðu sem beint væri að innflytjendum, múslimum og hinsegin fólki. Útvarpsmaðurinn Pétur Gunnlaugsson sætti ákæru vegna hatursorðræðu er beindist gegn samkynhneigðum en var sýknaður.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umfjöllun Mannlífs um efnistök á vef Útvarps Sögu þar sem ítrekað hefur verið vitnað til miðla sem þekktir eru fyrir að birta falsaðar eða skrumskældar fréttir. Tilgangurinn er oftast að sýna innflytjendur í neikvæðu ljósi og/eða halda á lofti samsæriskenningum.
Útvarpsstjórinn, Arnþrúður Karlsdóttir, hefur sömuleiðis verið sætt slíkum ásökunum. Árið 2015 birtist mynd af Arnþrúði á Facebook-síðu Útvarps Sögu þar sem hún var kædd í búrku og spurt hvort útvarpsmenn framtíðarinnar muni líta svona út. Ummæli hennar í sjónvarpsþætti Gísla Marteins síðastliðinn föstudag um hryðjuverkið í Nýja Sjálandi vöktu sömuleiðis hörð viðbrögð en þar varði hún hatursfull ummæli netverja sem fögnuðu árásinni.
Hægt er að tjá sig við fréttir sem birtast á vef Útvarps Sögu og þar fá hatursfull ummæli að standa óáreitt. Flestir þeirra sem þar tjá sig taka undir þær samsæriskenningar sem eru bornar á borð og notendur hika ekki við að tjá andúð sína á innflytjendum og útlendingum almennt.