Ásdís Ósk Valsdóttir, fasteignasali og lífsstílsgúrú, gjörbreytti matarvenjum sínum og borðar nú 90% „clean“. Ásdís er matgæðingur Mannlífs þessa vikuna og fengum við að skyggnast aðeins inn í hennar daglega líf.
„Ég set reglulega matseðilinn minn inn á Instagram-síðuna mína til að gefa fólki hugmyndir að dagsplaninu. Ég áttaði mig á því að ef ég setti ekki upp matseðil fyrir allar máltíðir þá færi skipulagið alltaf út um gluggann.“
Ásdís vaknar í kringum kl. 5 á morgnana, æfir mikið og borðar 5 máltíðir yfir daginn.
„Hádegismaturinn minn er yfirleitt afgangur frá kvöldinu áður, þannig spara ég tíma og minnka matarsóun.“
Hrifnari af fiski
Ásdís segir okkur að hún sé mikið fyrir kjöt og fisk og hafi síðustu ár orðið hrifnari af fiski. Hún bætir við: „sellerí er hins vegar án efa eitt það versta sem ég hef borðað. Ég hef mikið reynt að bæta því við mataræðið, það gengur hins vegar ekkert. Landslægur skortur á selleríi var því ekkert vandamál hjá mér.“
Hún elskar litríkan og hollan mat og breytti mataræðinu fyrir rúmu ári af heilsufarsástæðum þegar hún kynntist Clean-mataræði hjá Greenfit.
„Það gjörbreytti matarvenjum mínum og sem bónus þá er hægt að borða meira af réttu fæði. Eftir að hafa kynnst Clean-mataræði var ekki aftur snúið og ég hef það að markmiði að borða svona 90% „clean“ sem þýðir að ég sleppi mjólkurvörum, kornvörum, sykri, áfengi og kaffi.“
Ásamt syni sínum, Axel Vali, hefur hún þróað uppskriftavef sem heitir www.cleanlife.is og á sér marga uppáhaldsrétti þar.
„Á vefnum höfum við lagt áherslu á einfalda, fljótlega og umfram allt hollan mat sem uppfyllir skilyrði Clean og er einn af mínum uppáhaldsréttum rækjur með grænmeti.“
Nýlega byrjuð að elda aftur
Vikulega pantar hún matarkassa frá Austurland Food Company og fær megnið af grænmetinu og ávöxtunum þaðan. Það kemur líka alltaf eitthvað óvænt og spennandi með matarkassanum, eitthvað sem hún hefur ekki notað áður, sem eykur á fjölbreytnina, segir Ásdís áhugasöm.
„Ég er nýlega byrjuð að elda aftur. Fyrrverandi maðurinn minn er góður kokkur og þegar við skildum tók við mjög einfalt og áreynslulaust mataræði. Ég er svo heppin að elsti sonur minn, Axel Valur, er ástríðukokkur og hann tók við eldhúsinu. Núna stefnir í að hann flytji að heiman á næsta ári og því hefur hann verið að þjálfa mömmu sína í eldhúsinu síðasta ár. Markmiðið með vefnum okkar er einmitt að mamman geti orðið sjálfbær í eldhúsinu og séð um sig sjálf. Ég hefði aldrei náð svona góðum tökum á mataræðinu án Axels Vals.“
Þegar Ásdís var að byrja að elda segist hún hafa verið alveg sérstaklega nákvæm, en svo heyrðist reglulega: „Axel, hvað settir þú nákvæmlega mikið af X-hráefni í réttinn og svarið sem ég fékk alltaf til baka var: Ég setti nú bara dass eða slump, og svo bætti hann við: Mamma, bakstur er vísindi, eldamennska er list.“
Strákarnir hennar segja að hún sé viðutan skipulagskokkur, af því að hún gleymi reglulega að kveikja á hellunni, ofninum eða stilla tímann á ofninum.
Í dag nýtur Ásdís þess að breyta uppskriftum og aðlaga þær Clean-mataræðinu, hún segir að það sé oft mjög mikið af sætu í uppskriftum, t.d. síróp, og notar hún þá gjarnan í staðinn döðlur og möndlusmjör.
Ásdís elskar að hafa döðlur, macademiu-hnetur og þess háttar í veislunum.
„Það er til gífurlegur fjöldi góðra eftirrétta með döðlum, sem ég er aðeins byrjuð að leika mér með og ég ætla fljótlega að setja hnetuköku á vefinn, þegar hún er fullkomin. Að skera niður epli, döðlur og macademiu-hnetur er til dæmis fullkomið sjónvarpssnarl.“
Rækjur í álpappír
Virkilega góður og fljótlegur réttur.
„Ég blanda ýmsu grænmeti með rækjunum þannig að rétturinn er alltaf litríkur og fallegur.“
FYRIR EINN
INNIHALD
- 10-12 risarækjur
- 1/4 kúrbítur, skorinn í þunnar sneiðar – líka gott að nota aspas
- 2 gulrætur, skornar í þunnar sneiðar
- 4 kirsuberjatómatar
- 1/2 vorlaukur, skorinn í sneiðar
- 1 rif hvítlaukur, smátt saxaður
- 1 cm engifer, smátt saxað
- safi úr hálfri sítrónu
- matarolía, salt, pipar
- furuhnetur til að dreifa yfir ef vill
Aðferð:
- Undirbúningstími: 10 mín. / Eldunartími: 10 mín.
- Ofninn er hitaður í 180 °C. Vasi búinn til úr álpappír og settur á ofnplötu.
- Rækjunum er raðað í tvær raðir. Kúrbítur er settur á 1/3 af vasanum sem er eftir, síðan kirsuberjatómatar og loks gulrætur.
- Olíu dreift yfir, salt, pipar, sítrónu og loks hvítlauk og engifer. Mér finnst mjög gott að setja svo furuhnetur yfir allt saman.
- Vasanum lokað og bakað í 10 mínútur.
Smelltu hér til að lesa brakandi og feskt helgarblað Mannlífs eða flettu því hér fyrir neðan: