„Ísland er í einstakri stöðu á heimsvísu á svo margan hátt. Við búum við lýðræði, frið, orkuöryggi og skorum hátt í jafnréttismálum og lífsgæðum almennt. Helstu tækifærin eru tengd öllu þessu. Við erum að sjá gífurlega frjóa nýsköpun á mörgum sviðum sem gæti orðið ein helsta útflutningsvara framtíðarinnar. Í þessu samhengi mætti nefna bæði Carbfix- og Climeworks-samstarfið sem og það sem Kerecis er að gera. Við búum einnig yfir gífurlegri þekkingu á sviði jarðvarma sem getur nýst fleiri þjóðum sérstaklega á tímum mikils orkuóöryggis í Evrópu. Ef Ísland heldur rétt á spilunum hefur það alla burði til að verða sú staðsetning í heiminum sem fólk kemur til í þeim tilgangi að eiga lýðræðisleg samtöl og byggja upp samvinnu sem snýr að því að finna lausnir á flóknum vandamálum,“ segir Ásdís Ólafsdóttir, forstjóri Arctic Circle; Hringborðs norðurslóða.
Stærsti vettvangur heims um þessi málefni.
Ásdís segir að starf sitt sé mjög fjölbreytt og verði sífellt skemmtilegra:
„Líkt og áhugi á málefnum norðurslóða hefur aukist þá hefur Arctic Circle vaxið gífurlega á seinustu árum og er stærsti vettvangur heims um þessi málefni. Mikið púður fer í að skipuleggja árlega þingið í Hörpu sem trekkir iðulega að fleiri en 2000 manns frá 60-70 löndum. Einnig höldum við eitt til tvö minni þing ár hvert víðs vegar í heiminum í samstarfi við ríkisstjórnir og samtök þeirra landa. Arctic Circle er einnig mikilvægt efnismiðlunartæki og við höldum utan um og birtum meðal annars greinar, hljóðvörp, vefútsendingar og hönnum efni fyrir samfélagsmiðla.“
Þær eru þungamiðja loftslagsbreytinga.
Ásdís er spurð um áherslur hennar í starfi forstjóra Arctic Circle:
„Áherslan er ávallt á opna lýðræðislega umræðu og samstarf um málefni norðurslóða þar sem öll hafa möguleikann á að taka þátt. Það er mjög mikilvægt að þetta sé leiðandi stef í öllu því sem við gerum og mótar þessi sýn allt starfið. Fjölbreytileiki norðurslóða er eitthvað sem er mér sérstaklega hugleikinn og því er gaman að geta nýtt það sem Arctic Circle gerir til að vekja athygli á því að norðurslóðir eru svo margt. Þær eru þungamiðja loftslagsbreytinga en þær eru líka fólkið og samfélögin sem búa þar. Síðan eru umjöllunarefnin ekki einskorðuð við norðurslóðir.
Til dæmis má nefna að á þinginu í ár voru Indverjar að kynna nýja norðurslóðastefnu sína en nú hefur það komið í ljós að bráðnun íssins hefur bein áhrif á monsúntímabil þessa svæðis sem er sífellt að verða ófyrirsjáanlegra.“
Áhrif stríðsins
Ásdís segir að áhugi sinn á norðurslóðum hafi kviknað í meistaranáminu sem hún sótti í háskólanum í Lundi í Svíþjóð:
„Ég tók tiltölulega nýtt alþjóðlegt meistaranám á sviði hamfarastjórnunar og aðlögun að loftslagsbreytingum. Þar var áherslan mikið á syðri hluta heimsins og mér fannst vanta meiri áherslu á norðurhlutann, enda er hlýnun jarðar fjórum sinnum hraðari á norðurslóðum en annars staðar í heiminum. Mér fannst því mun meira spennandi að fókusera á þann heimshluta og áhuginn hefur bara aukist eftir að ég fór að vinna hjá Arctic Circle.“
Stríðið hefur auðvitað haft mikil áhrif á samstarf á norðurslóðum.
Rússar taka þátt í Arctic Cricle og nú standa þeir í stríði.
Hvaða augum lítur Ásdís á ástandið og jafnvel í sambandi við samstarf varðandi norðurslóðir?
„Rússar eru áberandi norðurslóðaþjóð og eru aðilar í Norðurskautsráðinu, Arctic Council. Stríðið hefur auðvitað haft mikil áhrif á samstarf á norðurslóðum og hefur Norðurskautsráðið sett starfsemi sína að mestu leyti á ís.
Mikil óvissa ríkir um áframhaldandi samstarf við til dæmis rússneskar stofnanir og vísindamenn og tíminn verður að leiða í ljós hversu miklar afleiðingar stríðið mun hafa á norðurslóðasamstarf til lengri tíma. Öll viljum við að norðurslóðir haldi áfram að vera alþjóðleg fyrirmynd um friðsamlegt milliríkjasamstarf og kom það skýrt fram í viðræðum á þinginu í október.“
Sonur á leiðinni
Ásdís er með BS-próf í sálfræði frá Háskóla Íslands og fór efitr það í meistaranámið í Lundi.
„Ég hef mikinn áhuga á mannlegri hegðun og sérstaklega hegðun í tengslum við loftslagsbreytingar. Námið í Lundi gaf mér tækifæri á að skoða þetta út frá þverfaglegu sjónarhorni og það undirbjó mig líka vel undir starfið mitt í dag þar sem mikil vinna fer í að skoða mismunandi sjónarhorn og oftar en ekki hvernig hægt er að miðla upplýsingum á skiljanlegan og skemmtilegan hátt.“
Mér finnst vandræðalega gaman í göngutúrum.
Hvernig er líf forstjóra Arctic Circle þegar vinnunni sleppir?
„Ég reyni að kúpla mig út með því að rækta fjölskylduna, vini og sjálfa mig. Hvort sem það er að fara í ferðalög, hittast í kaffi eða sundi eða hámhorfa á heila sjónvarpsseríu. Mér finnst vandræðalega gaman í göngutúrum og að elska hversdagsleikann með manninum mínum.“
Hvað er fram undan bæði hvað varðar Arctic Circle og líf Ásdísar?
„Framundan er full dagskrá hjá Arctic Circle. Tvö smærri þing eru á næsta ári – eitt í janúar í Abu Dhabi í samstarfi með loftslagsráðuneytinu þeirra og annað í Tokyo í mars. Arctic Circle á síðan 10 ára afmæli í október 2023 og því er að mörgu að hyggja þar. Persónulega er síðan stærsta verkefni næsta árs þegar sonurinn mætir í heiminn í byrjun febrúar.“