Laugardagur 21. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Ásgeir söng sig í gegnum faraldurinn: „Daginn eftir áttum við hjónin bakarí“.

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Kóvitið var mér merkileg upplifun. Ég var í tveimur störfum, annars vegar matreiðslumaður á veitingastöðum og svo tónlistamaður á skemmtistöðum. Þessu var öllu skellt í lás strax og ég varð um leið atvinnulaus í fyrsta skipti á ævinni,“ segir Ásgeir Kristján Guðmundsson, bakari í Þorlákshöfn.

Þegar faraldurinn skall á var Ásgeir í þremur hljómsveitum og kór auk þess að vera vinsæll trúbador. Hann er lærður matreiðslumeistari og hafði daglega vinnu af faginu. Allt hvarf þetta í einu vetfangi og óöryggi atvinnuleysis tók við og ekkert sem benti til að þessi störf myndu lifna við í bráð.

„Það er samt þannig að svona kreppur og óáran eru mér til góðs. Ég ákvað að spila eitt lag á hverjum degi á meðan atvinnuleysið varði. Kannski myndi einhver fá nóg af mér og ráða mig í vinnu til að ég hætti þessu gauli. 124 daga í röð spilaði ég og söng lag á dag á Facebook. Þá frétti ég út í bæ að bakarinn í Þorlákshöfn væri að hugsa sér til hreyfings. Ég beið ekki boðanna og hringdi umsvifalaust til að forvitnast. Þetta kom aðeins flatt á hann og hann sagðist ekki geta svarað mér strax, hann þyrfti að hugsa málið og ræða við konuna um þetta“.

Það er gott að þjóna Þorlákshafnarbúum

Ásgeir reiknaði með að bakarinn tæki nokkra daga til umhugsunar. En hálftíma síðar hringdi hann til baka og sagðist vera tilbúinn að selja.

„Ég sagði honum strax við við myndum kaupa og daginn eftir áttum við hjónin bakarí. Hér hef ég haft vinnu síðan og líkar vel. Reksturinn gengur bærilega og við fjölskyldan erum ánægð með þetta heillaspor. Það er gott að þjóna Þorlákshafnarbúum. Þegar stóra smitið kom upp hérna fyrir skömmu buðum við heimsendingaþjónustu sem var vel tekið. Við erum ekki með neitt kerfi til að selja á netinu þannig að við létum reikningsnúmer fylgja með í pokunum svo lagði fólk bara inn á okkur. Svona er einfalt í litlum samfélögum þar sem hægt er að treysta öllum“.

Kreppur til góðs

Staðurinn ber svip og karakter Ásgeirs, hljóðfæri eru á veggjum og fallegar ljósmyndir, sem hann hefur tekið, prýða staðinn. Þá eru prjónavörur til á staðnum, við fyrstu sýn var að sjá að þetta væri innfluttir listmunir frá Noregi en við athugun kom í ljós að móðir Ásgeirs hefur prjónað þessar flíkur. Þarna er því allt fyrir bæði listunnendur sem lystuga. Eins og Ásgeir sagði eru kreppur honum til góðs. Í Hruninu vatt hann kvæði sínu í kross og gerðist tónlistamaður. Hann hafði áður sungið með hljómsveitum en ekki leikið á nein hljóðfæri. „Ég var forsöngvari í hljómsveit þegar Hrunið skall á okkur. Þá varð ekkert fyrir okkur að gera þannig að ég var bara að kokka á daginn en átti öll kvöld og helgar fríar. Mig hafði lengi langað til að verða trúbador en kunni ekkert á hljóðfæri. Úr varð að ég keypti mér kassagítar og gítarnámskeið á Netinu. Hringdi í hann Árna vin minn sem var með Útlagann á Flúðum og sagði honum að ég ætlaði að læra á gítar og gerast trúbador og ég vildi bóka gigg hjá honum eftir fjóra mánuði til að hafa pressu á mér við gítarnámið. Hann hló og bauð mig velkomin, sagðist hafa fulla trú á mér. Eftir þessa fjóra mánuði spilaði ég á Útlaganum og heppnaðist vel. Síðan hef ég verið að spila fyrir fólk og gengið vonum framar þar til alheimsveiran sendi mig á spilahvíld“.

- Auglýsing -

Nú var ekki lengur til setunnar boðið, þrátt fyrir enn væru eftir nokkrar kleinur, Ásta Kristín Ástráðsdóttir var að ljúka vinnu og kom í bakaríið til að rétta eiginmanninum hjálparhönd við fjölskyldufyrirtæki þeirra, Café sól. Fullsætur og saddur gekk skrifarinn á braut eftir lystisemdir bragðagaldra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -